Fara í efni
Fréttir

Þvörusleikir villtist til Bretlands með easyJet

Það getur verið stórhættulegt að mæta á Akureyrarflugvöll! Þvörusleikir ætlaði til Ísafjarðar en fór upp í flugvél sem endaði í London. Í ferðinni var hann duglegur að segja Bretunum frá kostum Norðurlands og býst því við að það verði gestkvæmt í Dimmuborgum á aðventunni.

Jólasveinninn Þvörusleikir fór í heilmikla ævintýraferð til Bretlands á dögunum eftir að hafa misskilið leiðbeiningar frá Grýlu.

Í samtali við Akureyri.net segir Þvörusleikir að hann hafi mætt út á Akureyrarflugvöll og farið þar upp í flugvél sem hann hélt að væri á leið til Ísafjarðar. Vélin var hins vegar frá easyJet og var á leið til London. Frá London Gatwick lá leiðin til Brighton og síðar til Manchester en fljótlega eftir lendingu áttaði Þvörusleikir sig á mistökunum. „Það var allt öfugt þarna, fólk keyrði vitlausu megin og svo sá ég hús á hvolfi á ströndinni. Þá vissi ég að ég var ekki á Ísafirði,“ segir Þvörusleikir. Hann segir að ferðin hafi sannarlega verið upplifun og hann hafi bara reynt að gera gott úr öllu saman.

Þvörusleikir er ánægður með ferð sína til Bretlands þó upphaflega hafi hann ætlað til Ísafjarðar. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Ánægður með mathöll í Manchester

Á göngu sinni um Brighton rakst Þvörusleikir á götulistamann sem spilaði á flautu. „Ég spilaði með honum,“ segir hann stoltur. „Hann var með flautu og ég spilaði á þvöruna mína. Þetta hljómaði stórkostlega. Ég veit ekkert hvaða lag þetta var!“ Síðar slóst Þvörusleikir í för með hópi Íslendinga sem hann rakst á í Brighton, meðal annars starfsfólki frá Markaðsstofu Norðurlands og samstarfsfyrirtækjum þeirra, sem var þar á vinnustofum með fulltrúum breskra ferðaskrifstofa. „Ég ákvað að halda mig við þennan hóp því þá vissi ég að ég myndi á endanum komast heim,” segir Þvörusleikir.

Ferðin hélt síðan áfram til Manchester þar sem Þvörusleikir heimsótti mathöll í borginni sem hann heillaðist mjög af. „Þessi mathöll var sannkallaður draumur! Á öllum borðum voru þvörur. Þannig að ég tók auðvitað nokkrar með mér.“ Þá rölti hann á jólamarkað, dansaði í kringum jólatré sem var fullt af kjólum og hitti nokkra heimamenn sem lýstu miklum áhuga á að heimsækja Ísland. „Ég sagði þeim að heima hjá okkur þá keyrði fólk réttu megin á götunni og jólatrén væru ekki í kjólum. Þau virtust mjög spennt fyrir því að koma og sjá það.“

Auðvelt er að komast frá London Gatwick til strandbæjarins Brighton. Hér er Þvörusleikir á ströndinni. 

Ætlar að veiða harðfisk í Jarðböðunum

Þá kom Þvörusleiki á óvart hversu mikinn frið hann fékk úti, hann er greinilega ekkert þekktur þar, annað en hér heima þar sem fólk er almennt spennt fyrir að tala við jólasveinana þegar þeir sjást á almannafæri. Hann segir þó fólkið í Bretlandi hafa verið mjög almennilegt og ferðina almennt áhugaverða því margt hafi borið fyrir augu. Hann sér því ekki eftir því að hafa óvart lent þar í staðinn fyrir á Ísafirði eins og upphaflegu plönin gerðu ráð fyrir. „Það er auðveldara að komast til Manchester en til Ísafjarðar,“ segir hann og hlær að misskilninginum.
„Og kannski sé ég einhverja sem ég hitti úti hér heima, ef þau rata í Dimmuborgir. Bara svo lengi sem þau keyra réttu megin á veginum!“ segir Þvörusleikir en annasamur tími er fram undan hjá jólasveinafjölskyldunni í Dimmuborgum. Akureyri.net skilst að hið árlega jólabað sé fram undan um helgina í Jarðböðunum en Þvörusleikir vill hins vegar ekkert kannast við það. „Ég fer ekki í bað. Ég þoli ekki bað. Hins vegar ætla ég að fara að veiða harðfisk í lóninu á laugardaginn, með fallbyssu ef þarf. Það er miklu skemmtilegra en að blotna.“

Þvörusleikir segir að allt hafi verið öfugt í Bretlandi, hús á hvolfi, fólk keyrði öfugu megin á götunum og þá voru jólatrén með kjólum! Rétt er að benda á að húsið sem Þvörusleikir er hér myndaður við er safn í Brighton þar sem vissulega allt er á hvolfi.