Fara í efni
Fréttir

Átak í skráningu gististarfsemi á Akureyri

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarbær vinnur að því um þessar mundir að yfirfara opinberar skráningar á gististarfsemi í bænum og tryggja að hún fari fram í samræmi við lög og reglur. Allir sem leigja út gistingu og auglýsa hana á bókunarsíðum þurfa annaðhvort að hafa skráningu sem heimagisting eða rekstrarleyfi sem gististaður.

Í frétt á vefsíðu Akureyrarbæjar kemur fram að verið sé að senda bréf til þeirra sem virðast vera að leigja út gistirými án nauðsynlegrar skráningar og þeir hvattir til að kynna sér gildandi reglur og skrá starfsemina. Sé óskráð fasteign leigð út geta viðurlögin verið stjórnvaldssekt sem getur numið allt að einni milljón króna fyrir hvert brot.

Nálægt 100 heimagistingar skráðar á Akureyri

Einstaklingum er heimilt er að leigja út allt að tvær fasteignir í sinni eigu í allt að 90 daga á almanaksári samanlagt, eða fyrir að hámarki 2 milljónir króna, en þá þarf að skrá viðkomandi gististaði hjá sýslumanni og sækja um heimagistingarleyfi. Þetta leyfi þarf að endurnýja árlega. Alls eru tæplega 3.000 heimagistingar skráðar á landinu og við lauslega skoðun á lista yfir skráðar heimagistingar virðast vera um 100 slíkar skráðar á Akureyri, með gistirými fyrir um 480 manns samanlagt. 

Ef farið er umfram þessi mörk þarf að sækja um rekstrarleyfi sem gististaður, sem er ótímabundið, og þá eru kröfurnar meiri. Til dæmis þurfa fasteignir í þessum flokki að vera skráðar sem atvinnuhúsnæði.