Keyptu 480 bíla – aldrei keypt svo marga í einu

Nýverið var gengið frá stærsta bílakaupasamningi í sögu Hölds-Bílaleigu Akureyrar þegar samningur var gerður við Öskju um kaup á 480 bílum. Um er að ræða bíla af gerðunum Kia og Mercedes Bens.
Greint er frá tíðindinum á vef fyrirtækisins. Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, segir þar að gert sé ráð fyrir að fyrirtækið kaupi um 1.600 bíla á þessu ári, fyrir um það bil 8 milljarða króna.
„Við hjá Bílaleigu Akureyrar leggjum mikla áherslu á góða þjónustu við okkar viðskiptavini og liður í því er að endurnýja stóran hluta bílaflotans árlega til að tryggja að viðskiptavinir okkar aki um á nýlegum og öruggum bílum,“ segir forstjórinn. „Þá eru orkuskiptin í fullum gangi hjá okkur og hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla í flota okkar verður vonandi komið vel yfir 30% í árslok 2025 og meðal annars erum við að kaupa 60 stk. Af KIA EV3 long range með drægni uppá rúma 600 km og sem kosinn var World Car of the year nú nýlega,“ segir Steingrímur.