Daniel Willard Fiske
2025 – Umsvif áfram mikil í ferðaþjónustu
01.01.2026 kl. 20:00
Stækkun Skógarbaðanna, endurreisn Niceair, vesen vegna veðurs við lendingar á Akureyrarflugvelli og hjartað í umferðarljósunum er meðal þess sem var í fréttum á árinu hjá akureyri.net í tengslum við ferðaþjónustuna. Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkrar vel valdar umfjallanir.
- Smellið á rauða letrið til að lesa meira.
JANÚAR

- AF HVERJU MISMUNANDI VERÐ?
Umfjöllun um fríhafnarverslunina á Akureyrarflugvelli. Komu- og brottfararfarþegar í millilandaflugi nota sömu verslun en þar eru því tvö mismunandi verð á áfengi og tóbaki eftir því hvort farþegar eru að koma eða fara. - Vilja bæta ásýnd og aðstöðu með smáhýsum – Hafnasamlag Norðurlands sótti um stöðuleyfi fyrir 15 smáhýsi á rútusvæði við Oddeyrartanga. Húsin voru tekin í notkun í sumar en markmiðið með þeim var að bæta aðstöðu fyrir ferðaheildsala á hafnarsvæðinu í tengslum við komur skemmtiferðaskipa.
FEBRÚAR

- HEIM SÓLARHRING Á EFTIR ÁÆTLUN
Ferðalangar sem flugu frá Tenerife og áttu að lenda á Akureyri fóru í óvænt ferðalag til Skotlands. Hvorki var hægt að lenda á Akureyri né Keflavík og var vélinni því snúið til Glasgow. Ferðalangarnir komust til Akureyrar sólarhring á eftir áætlum. - Vél easyJet gat lent eftir langt hringsól – Svartaþoka, sem lá yfir Eyjafirði, gerði erlendum flugvélum lífið leitt. Flugvél easyJet frá Gatwick flugvelli í London lenti eftir klukkustundar hringsól yfir Aðaldal og Kinnarfjöllum en vél Transavia frá Amsterdam og vél easyJet frá Manchester urðu frá að hverfa og lentu í Keflavík.
MARS

- HÓTEL Í GRÁNUFÉLAGSHÚSUNUM
Viðtal við eiganda Bryggjan Boutique Hotel, Róbert Häsler Aðalsteinsson, um framkvæmdir í einu sögufrægasta húsi Oddeyrarinnar, Strandgötu 49. Róbert sagði m.a. í viðtalinu að nýja hótelið myndi halda í sögu hússins og útlit en á sama tíma bjóða upp á nútímalega dvöl fyrir gesti. - Tveggja hæða vagn rúntar um bæinn – Í sumar gátu ferðamenn fengið sér far um bæinn í tveggja hæða strætó. Það er fyrirtækið Akurinn sem á rútuna en fyrirtækið hefur undanfarin ár boðið ferðamönnum upp á svokallaðar hop on hop off - ferðir um Akureyri.
- Færri skip í ár - nýtt gjald hefur áhrif – Viðtal við Pétur Ólafsson, hafnarstjóra Hafnasamlags Norðurlands, um fækkun skemmtiferðaskipa í ár í hafnir sambandsins. Sagði Pétur nokkrar ástæður vera fyrir fækkuninni, en nýtt innviðagjald, sem var tekið upp um síðustu áramót, hefur þegar haft áhrif og gæti haft enn meiri áhrif á árið 2026 og síðan með miklum þunga 2027.
APRÍL

- NÝTUR ÞESS AÐ VERA Í ÞRÓUN OG FRAMKVÆMDUM
Viðtal í þremur hlutum við Hjördísi Þórhallsdóttur, sem undanfarin 13 ár hefur gegnt starfi flugvallarstjóra og umdæmisstjóra Isavia fyrir Norður- og Norðausturland, en kvaddi starfið í vor. Á hennar vakt urðu miklar breytingar á vellinum og flugtengingum út í heim. Hjördís leit yfir farinn veg á tímabili mikilla breytinga og gríðarlegs vaxtar. - Upplýsingamiðstöðin verður áfram í Hofi – Samningur var undirritaður til þriggja ára varðandi rekstur Upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn í Hofi. Að rekstrinum standa Akureyrarbær, Hafnasamlag Norðurlands, Menningarfélag Akureyrar og verslunin Kista í Hofi. Upplýsingamiðstöðin er starfrækt á tímabilinu 1. apríl – 30. september ár hvert.
- Lundinn í Grímsey á undan áætlun – Fyrstu lundarnir settust upp í Grímsey fyrstu dagana í apríl. Mögulega hefur einstaklega fallegt veður um þetta leyti orðið til þess að lundarnir freistuðust til að hefja vorstörfin fyrr en ella.
MAÍ

- KEYPTU 480 BÍLA – ALDREI KEYPT SVO MARGA Í EINU
Gengið var frá stærsta bílakaupasamningi í sögu Hölds - Bílaleigu Akureyrar þegar samningur var gerður við Öskju um kaup á 480 bílum. Um er að ræða bíla af gerðunum Kia og Mercedes Benz. - Kynnast Akureyri í gegn um bragðlaukana – Umfjöllun um ferska viðbót í afþreyingu fyrir ferðamenn á Akureyri, Akureyri food walk.
- Amera fyrst 177 skemmtiferðaskipa – Fyrsta skemmtiferðaskip ársins lagðist að bryggju á Akureyri þann 7. maí, hið þýska Amera.
- Flug með easyJet á 2-3 þúsund í janúar – akureyri.net rýndi í vetraráætlun easyJet í leit að ódýrum flugmiðum. Fyrsta flug til London Gatwick er áætlað 4. október og verður flogið til 25. apríl. Fyrsta flug til Manchester er skráð 11. nóvember og það síðasta þann 28. mars.
JÚNÍ

- STÆRRA BAÐLÓN EKKI OPNAÐ FYRR EN Í HAUST
Baðlón Skógarbaðanna stækkaði um helming á árinu. Upphaflega átti að opna nýja hlutann í júní en framkvæmdir drógust fram á haustið. Akureyri.net tók Sigríði Maríu Hammer, stjórnarformann og einn eigenda Skógarbaðanna, í viðtal um stækkunina og nýja vellíðunarsvæðið. - Fannst tímabært að opna rafskutluleigu – Fyrsta rafskutluleiga Akureyrar, Akureyri Scooters, var opnuð í júní. Leigan er til húsa á Eyrinni og hennar helstu viðskiptavinir eru farþegar skemmtiferðaskipanna.
- Svalasti staðurinn fyrir frí án hitasvækju – Akureyri trónir efst á áhugaverðum lista sem breska ferðaskrifstofan Inghams hefur tekið saman; bærinn er sagður vinsælasti áfangastaður þeirra evrópsku ferðalanga sem kjósa að njóta frídaga sinna að sumri á kaldari stöðum en baðströndum sunnar í álfunni, þar sem fjöldinn hefur sleikt sólina síðustu áratugi.
- Setja mætti upp fleiri sjálfu-hjartaljós í bænum – Í kjölfar gagnrýni Vegagerðarinnar á rauðu hjörtun í umferðarljósum Akureyrar hefur umræðan beinst að möguleikum til að bregðast við aukinni ásókn gangandi ferðamanna í myndatökur við ljósin.

- FYRSTA FARÞEGASKIPIÐ VIÐ TORFUNEF
Fyrsta farþegaskipið lagðist að hinni nýju Torfunefsbryggju í lok júní. Það var hið franska Le Champlain. Bryggjan hafði áður formlega verið tekin í notkun þegar togarinn Björg EA lagðist þar að.
JÚLÍ

- PLASTLUNDAR LOKKUÐU TIL VARPS
Í sumar bárust fréttir af því að lundinn væri farinn að verpa og gera sig heimankominn í Hrísey. Það er þó ekki af engu komið, því unnið hefur verið að því að fá lunda í eyjuna síðan árið 2019. Við ræddum við Árna Eyfjörð Halldórsson, einn eigenda hvalaskoðunarfyrirtækisins Whales á Hauganesi, sem er einn þeirra sem unnið hafa að þessu takmarki. - SBA keyrði 4400 farþega af skipum á einum degi – 19. júlí var stærsti skipadagur sumarsins . Fjögur skemmtiferðaskip lögðust þá að bryggjum á Akureyri og þúsundir farþega stigu á land. SBA keyrði um 4.400 farþega. 65 rútur og 130 manns voru í vinnu hjá SBA-Norðurleið við að sinna þessum fjölda, auk þess sem um 10 rútur fyrirtækisins voru í öðrum verkefnum norðanlands. Þar fyrir utan voru fleiri fyrirtæki að sinna akstri farþega skemmtiferðaskipa, þótt SBA-Norðurleið sé langstærst.
ÁGÚST

- 88 % FERÐUÐUST BARA UM NORÐURLAND
Niðurstöður könnunar Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála sýnir að erlendir ferðamenn sem komu með beinu flugi til Akureyrar veturinn 2024-2025 fara meira um landshlutann Norðurland en aðra. Þannig skapar beina flugið raunverulega viðbót við þann fjölda sem heimsækir landshlutann. - Átak í skráningu gististarfsemi – Akureyrarbær yfirfór opinberar skráningar á gististarfsemi í bænum í sumar til að tryggja að hún væri í samræmi við lög og reglur. Alls eru tæplega 3.000 heimagistingar skráðar á landinu og við lauslega skoðun á lista yfir skráðar heimagistingar virðast vera um 100 slíkar skráðar á Akureyri, með gistirými fyrir um 480 manns samanlagt.
SEPTEMBER

- RAUÐU HJÖRTUN SLÁ Í GEGN
Ferðamannavörur með umferðarljósin á Akureyri sem fyrirmynd seldust eins og heitar lummur í sumar og erlendir gestir voru duglegir að taka rauðu hjörtun með sér heim í formi segla, lyklakippna eða stutterma bola - Áætlað að farþegar easyJet eyði 12 milljörðum – Samkvæmt skýrslu sem Ferðamálastofa birti eyddu ferðamenn sem komu með flugfélaginu easyJet til Akureyrar veturinn 2023-2024 tæplega 500 milljónum króna á ferðalögum um Norðurland. Miðað við sömu forsendur og notaðar voru í skýrslunni má áætla að veturinn 2024-2025 hafi heildareyðslan verið yfir 1.200 milljónir króna.

- SKÓGARBÖÐIN: NÝR HLUTI TEKINN Í GAGNIÐ
Gestum Skógarbaðanna var í fyrsta skipti hleypt í nýjan hluta þeirra að kvöldi 25. september. Baðlónið er þar með orðið liðlega tvöfalt stærra en áður; hefur verið stækkað úr 500 fermetrum í 1200.
OKTÓBER

- KOMINN TÍMI TIL AÐ ICELANDAIR TAKI SKREFIÐ
Umfjöllun um Vestnorden ráðstefnuna sem er gamalgrónasta kaupstefna ferðaþjónustunnar sem haldin er á Íslandi. Ráðstefnan var haldin í fertugasta sinn, að þessu sinni í íþróttahöllinni á Akureyri og mættu 550 gestir. Annað hvert ár er Vestnorden haldin á Íslandi og hin árin á Grænlandi og Færeyjum til skiptis. 2018 var síðast komið saman á Akureyri.
NÓVEMBER

- FAGNAR STRÆTÓFERÐUM Á FLUGVÖLLINN
Strætóferðir á Akureyrarflugvöll hefjast á nýju ári og mun endastöð landsbyggðavagna númer 56, 57, 78 og 79, færast þangað frá Hofi. Akureyri.net ræddi við nýjan flugvallastjóra, Hermann Jóhannesson, í tilefni af þessu. - Umfangsmikil viðgerð á flugturninum – Þakið á flugturninum á Akureyrarflugvelli var farið að leka svo ráðist var í viðgerð á turninum á árinu. Framkvæmdir töfðust þar sem þörf var á meiri viðgerðum en talið var í byrjun.
DESEMBER

- NAFNIÐ FULLKOMIÐ OG ALLIR ELSKA ÍSLAND
Flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í nafni Niceair hefst á ný í febrúar 2026. Hér er á ferð nýtt fyrirtæki í eigu annarra en ráku Niceair á sínum tíma, og stefnt er að því að fljúga víða um Evrópu. Forstjóri flugfélagsins hélt blaðamannafund á Flugsafninu í desember og kynnti áform sín. - Dónaskapur að segja þetta flugstöð – Sverrir Páll Erlendsson fv. menntaskólakennari skrifaði pistilinn Hvenær kemur flugstöðin? og vakti hann mikla athygli og umræður á Facebook. Mörgum þykja augljósir vankantar á nýlegu húsinu.
- Miðbærinn: verður guli ramminn færður? – Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra sendi erindi til skipulagsráðs Akureyrarbæjar þar sem óskað var eftir því að staðsetning gula rammans í Hafnarstræti yrði endurskoðuð. Ramminn hefur verið afar vinsæll fyrir myndatökur hjá ferðamönnum sem heimsækja bæinn.
- Þvörusleikir villtist til Bretlands með easyJet – Margir nýttu sér beina flugið með easyJet á árinu, meðal annars Þvörusleikir sem komst að því að það er margt að sjá í Brighton.