2025 – Líf og leikur í gegnum linsuna
Aldrei birtist frétt, viðtal né annað á akureyri.net án ljósmyndar. Þær koma því nokkrar fyrir sjónir lesenda á hverjum einasta degi ársins og óhjákvæmilegt annað en rifja upp hvernig líf og leikur Akureyringa og gesta bæjarins birtist okkur í gegnum linsuna. Gjörið svo vel!
JANÚAR

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Lene Zachariassen var heimsótt á Hjalteyri, þegar hún var að súta skinnið af ísbirni. Ekki á hverjum degi sem svona skepna er í sútun í Eyjafirðinum! Viðtalið við Lene var í tveimur hlutum:

Ótrúleg listaverk blöstu við þeim sem litu til himins í Eyjafirði um miðjan janúar. Glitskýjafansinn sem heiðraði nærstadda, glóandi pensilstrokur á málverki himinsins, var slíkur að margir munduðu símtæki eða myndavélar eins og gefur að skilja.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Árleg skíðagöngukeppni sem kennd hafði verið við íþróttafrömuðinn Hermann Sigtryggsson – kölluð Hermannsgangan – heitir hér eftir Súlur vertical skíðagangan og var haldin í Kjarnaskógi þar sem Hermann veifaði flaggi til merkis um að keppendur mættu ganga af stað. Gangan er nú hluti þríleiks sem samanstendur af þremur ólíkum íþróttagreinum, skíðagöngu, hjólreiðum og fjallahlaupi.
FEBRÚAR

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Hin frábæra íþróttakona Anna Rappich byrjaði 45 ára að æfa frjálsar og hefur verið sigursæl síðan. Við heimsóttum hana á Kristnesi þar sem hún býr og starfar sem sjúkraþjálfari. Viðtal við Önnu var í tveimur hlutum:

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Prestar bæjarins brugðu á leik að beiðni akureyri.net þegar birta átti frétt um raðgiftingar sem þeir hugðust bjóða upp á 14. febrúar, á Valentínusardaginn. „All you need is love,“ sungu Bítlarnir um árið; allt sem þú þarft er ást! Og fjórir prestanna fóru í einskonar Bítlagöngu í anda Abbey Road umslagsins; Aðalsteinn Þorvaldsson, Jóhanna Gísladóttir, Sindri Geir Óskarsson og Hildur Eir Bolladóttir, en Hildur Björk Hörpudóttir var fjarverandi.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
María Pálsdóttir opnaði Sánuvagn Mæju á árinu, og hefur boðið upp á sánugusur niðri við siglingarklúbbshús Nökkva við góðar undirtektir. Gestir vagnsins hafa oft kælt sig í sjónum á milli gusa, en hér er María með tveimur sánaskvísum í kælingu. Viðtal við Maríu:

Mynd: Skapti Hallgrímsson
112 dagurinn, sem haldinn er 11.2. ár hvert til að minna á neyðarnúmerið 112. Viðbragðsaðilar óku hring um Akureyri með kveikt á forgangsljósum og það var mikil veisla fyrir ungu kynslóðina.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Við fórum í heimsókn á Sel, göngudeild geðdeildar á SAk, og hittum þar starfsmann mánaðarins. Leó geðverndarhundur heldur þeim titli allt árið um kring og er ekki lengi að sigra hjörtu þeirra sem kynnast honum. Viðtal við Gest Guðrúnarson og Ragnheiði Reykjalín Magnúsdóttur var í tveimur hlutum:

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Sarah Smiley var í löngu viðtali í tveimur hlutum um lífið og hokkíið, en hún hefur búið á Íslandi síðan hún flutti hingað fyrir 18 árum. Hún ætlaði sér bara að stoppa stutt til þess að spila hokkí, en hér er hún enn og hefur verið gríðarlega mikilvæg fyrir íshokkí í Akureyri og á Íslandi.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Áfram í hokkíinu, en á Akureyri var haldið fjölmennasta krakkamót landsins hingað til, þar sem krakkar í U8 og U10 liðum SA, SR og Fjölnis tóku þátt. Hér eru tveir Fjölnismenn að fylgjast með leik SA og SR.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Það er gaman að reyna að koma auga á eitthvað sem lýsir viðfangsefninu á óvenjulegan hátt. Krakkamótið í íshokkí kristallast skemmtilega í íshokkíbrúsa og lukkudýri SR, ansi lúinni pöndu sem hefur sennilega komið með í ófáar skautahallir.

Myndir: Skapti Hallgrímsson
Þegar starfsmenn Landsbankans kvöddu húsnæðið í Strandgötu 3 eftir lokun 13. febrúar fjarlægði Sólveig Smáradóttir, starfsmaður Geimstofunnar, Landsbankamerkið við inngang fyrrnefnda útibúsins ...

... samtímis því að allt var gert klárt á nýjum stað, Hofsbót 2 og 4, þar sem útibúið var opnað daginn eftir.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Landsbankinn á mikinn fjölda málverka sem m.a. eru varðveitt í útibúinu á Akureyri. Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri, hengdi þessa vitaskuld upp á áberandi stað í Hofsbótinni. Myndina málaði Sigfús Halldórsson árið 1973 af Ráðhústorgi þar sem Landsbankahúsið fallega blasir við.

Fjárfestingafélagið Kaldbakur keypti gamla Landsbankahúsið við Ráðhústorg húsið af bankanum síðla árs 2022 og þar eru nú skrifstofur Kaldbaks, svo og DriftEA, miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Norðurlandi. Bankinn var þarna til húsa í rúm 70 ár, síðan 1954, en eftir að starfsmenn hans voru farnir með allt sitt hafurtask var ekki eftir neinu að bíða; í rauðabítið morguninn eftir, áður en nýja útibúið var opnað steinsnar frá, var bankamerkið kunna á framhlið hússins tekið niður.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Það gefast ekki oft tækifæri til þess að ljósmynda hjón í hörkuslagsmálum, en í mars tókum við viðtal við Rut Pétursdóttur, annan eigenda Atlantic BJJ. Þau myndu reyndar ekki kvitta undir að kalla það slagsmál, Brazilian Jiu Jitsu er glíma. En þetta var skemmtileg myndataka! Og viðtalið birtist í tveimur hlutum:

Mynd: Snæfríður Ingadóttir
Þriggja metra trópísk planta á miðju gólfi blómabúðarinnar Býflugunnar og blómsins vakti athygli blaðamanns. Í ljós kom að plantan hafði verið pöntuð óvart og úr spjalli við eigendurna, Báru Magnúsdóttir og Stefán J.K. Jeppesen, varð viðtal í tveimur hlutum.
MARS

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Eydís Sigurgeirsdóttir og Bryndís Elva Bjarnadóttir voru fyrstu konurnar í Slökkviliði Akureyrar til þess að útskrifast sem bráðatæknar. Blaðamaður akureyri.net ræddi við þær inni í sjúkrabíl, sem reyndist vera mjög hentugt viðtalsstúdíó og úr varð viðtal í tveimur hlutum.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Starfsfólk Vitans mathúss á Oddeyri hafði í nógu að snúast á sprengidaginn. Þá eru saltkjöt og baunir ómissandi eins og alþjóð veit; Einar Gauti Helgason matreiðslumeistari sagði akureyri.net að í eldhúsinu hefðu þeir eldað 300 kíló af saltkjöti og lagað 600 lítra af súpu á þessum góða degi; um 300 manns snæddu á staðnum í hádeginu og 900 matarbakkar voru sendir í ýmis fyrirtæki úti í bæ.

Myndir: Rakel Hinriksdóttir
Fyrsta heimsókn af þremur til Katrínar Kristjánsdóttur og Magnúsar Arturo Batista í 600Klifur. Hér voru framkvæmdir komnar af stað í húsnæðinu að Dalsbraut 1, sem var svo opnað með glæsibrag í október. Þar sem þau standa á þessari mynd, var svo kominn stærsti klifurveggur landsins innandyra nokkrum mánuðum síðar. Katrín lét sig ekki muna um að rigga upp „klifurhöll“ á meðan hún var með dóttur sína í fæðingarorlofi, eins og sjá má á myndinni að neðan.

Umfjöllun um 600Klifur:
- Klifurparadís opnuð í sumar á Akureyri
- 600Klifur langt komið og opnar í október
- 600Klifur – „Nýtt viðmið í klifuraðstöðu“


Myndir: Skapti Hallgrímsson
Fyrirtækið Rafeyri á Akureyri gaf endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustu Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) forláta lungnamæli; glænýjan í stað þess gamla sem hætt var að nota þar sem ekki fengust lengur í hann varahlutir. Davíð Hafsteinsson, formaður stjórnar Rafeyrar, og Kristinn Hreinsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins, þágu boð um að prófa tækið í Kristnesi. Í ljós kom að mælirinn sá arna virkaði ljómandi vel og stemningin var eins og á góðu uppistandi!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Öskudagurinn 2025! Það er vandasamt að missa sólgleraugun í Svala-búningi!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Aftur öskudagur, en þessar Barbie-vinkonur voru frábærar.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Danska textíllistakonan Emilie Palle Holm sýndi listaverk sín á Listasafninu í ár. Hér myndast hún í gegn um eitt verka sinna.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Golfhermirinn nýi á Jaðri er að mælast vel fyrir, en við litum við á æfingu unglingalandsliðs Íslands í golfi. Hér fylgist þjálfarinn Ólafur Björn Loftsson með unga fólkinu taka sveiflur.
APRÍL

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Krafturinn í Önnu Richards fyllti Hamra í Hofi á Vorkomu Akureyrarbæjar.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Vorið komið!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Brugðið á leik á hátíðarhöldum Akureyrarbæjar á Sumardaginn fyrsta. Þessum tveimur fannst ekki leiðinlegt að fá að prófa búninga og leikmuni frá Leikfélagi Akureyrar!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Ungu fatahönnuðirnir í KRANZ eiga framtíðina fyrir sér. Mynd frá tískusýningu þeirra í Hofi á Sumardaginn fyrsta.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Skrúðganga Andrésar andar leikanna er alltaf mikil gleði! Þessir hressu krakkar úr Skíðafélagi Akureyrar voru í góðum gír.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Þessar ungu konur úr Skíðafélagi Dalvíkur voru hressar i skrúðgöngu með flottar húfur. Blaðamaður er ekki frá Dalvík, en hefur fengið grunnkennslu í dalvísku, og 'Daufa' er víst jákvætt orð þar í bæ!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Fólk hefur skrásett það sem á daga þess drífur í gegnum tíðina, með ólíkum hætti. Það er kannski algengast að fólk haldi dagbækur í þessum tilgangi, en listamaðurinn Guðmundur Ármann heldur aðeins öðruvísi dagbækur en flestir. Hann skrifar bara nokkur orð, en meginmálið er sjónrænt. Listilegar skyssur í myndasögustíl, sem hann svo glæðir lífi með dass af vatnslitum.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Fyrri hluti ársins var silfurlitaður hjá yngstu kynslóðinni, en VÆB-bræður spiluðu tónleika í Hofi þar sem öruggast var að vera með sólgleraugu til þess að fá ekki ofbirtu í augun af öllu silfrinu.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Mikil víkinga-gleði í Skautahöllinni eftir sigur Víkinga, liðs Skautafélags Akureyrar, á Skautafélagi Reykjavíkur í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Meistararnir sem spila pool í hrútakofanum í Sölku, félagsmiðstöð í Víðilundi, eru með sérsmíðaða, upphækkaða stóla, svo að það sjáist almennilega á poolborðið. Fjallað var um félagsstarfið í Sölku í nokkrum viðtölum, hér er umfjöllunin um karlana:

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Ótrúleg stilla í veðrinu á fallegum vordegi í apríl.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Englendingurinn Russ Bray, dómari og „kallari“ til fjölda ára á heimsmeistaramótinu í pílukasti í Alexandra Palace í London – Ally Pally, kom til Akureyrar á vegum Þórsara og gegndi sömu hlutverkum á Opna Akureyrarmótinu í Sjallanum – Sjally Pally.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Guðlaug Erlendsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir mættar í prjónaklúbb í Sölku. Guðlaug er blind, en lætur það alls ekki stoppa sig í handavinnunni.
MAÍ

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Fyrsta skemmtiferðaskip ársins lagðist að bryggju á Akureyri 7. maí í hádeginu, hið þýska Amera. Alls komu 177 slík skip inn að Polli á árinu auk þess sem 34 höfðu viðdvöl í Grímsey og 8 í Hrísey.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Miklar endurbætur hafa verið gerðar á Glerárskóla undanfarin ár og í lok maí var þriðja áfanga þess verkefnis fagnað, þegar A-álma skólans var formlega tekin í notkun við hátíðlega athöfn. Húsnæðið hefur verið notað í vetur og lýstu starfsmenn mikilli ánægju með hvernig til tókst við endurbæturnar. Eyrún Skúladóttir skólastjóri er hér í pontu.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Gott er að heimsækja fólk með græna fingur þegar fer að sumra. Kristín Helga Schiöth erfði garðyrkjuþrána í beinan kvenlegg og tók við garði móður sinnar.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Þessi ungi bóndi á Syðri-Bægisá í Öxnadal kvaddi blaðamann á heldur skemmtilegan hátt! Systurnar Jónína Þórdís og Gunnella Helgadætur eru samrýmdar; ekki nóg með að þær eigi báðar tvö börn á næstum því nákvæmlega sama aldri, heldur búa þær hlið við hlið á jörðinni og starfa þar sem bændur ásamt foreldrum sínum. Systurnar eru af fjórða ættlið sömu fjölskyldu sem stundar búskap á bænum.
Fjallað var um heimsóknin á Syðri-Bægisá í tveimur greinum:

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Sauðburður stóð sem hæst á Syðri-Bægisá þegar blaðamann bar að garði.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Almenningi var boðið að kynna sér starfsemi ÚA við Fiskitanga á Akureyri í tilefni 80 ára afmælis Útgerðarfélags Akureyringa. Talið er að nokkur þúsund manns hafi mætt á staðinn; skoðað fiskvinnsluhúsið og togarann Kaldbak EA 1, sem lá við bryggjuna, og þegið veitingar í matsal ÚA. Fleiri myndir hér.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Róshildur Sigtryggsdóttir og Baldvin Bjarnason nýttu sér upphækkuð beð, sem eru nýjung hjá Matjurtargörðum Akureyrar. Þau fengu að skíra beðið sitt Neðri-Bæ, eftir fæðingarstað Baldvins á Flatey á Skjálfanda. Rætt var við þau og Heiðrúnu Sigurðardóttur garðyrkjufræðing hjá Matjurtagörðunum.
JÚNÍ

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Margrét Jónsdóttir leirlistakona opnaði sýningu á Listasafninu í tilefni 40 ára starfsafmælis.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Sýningin „Fagur fiskur úr sjó“ var opnuð í Iðnaðarsafninu 1. júní í tilefni 80 ára afmælis Útgerðarfélags Akureyringa. Þar er saga ÚA sögð með ljósmyndum, kvikmyndum og munum. Sýningin markar upphaf að söfnun á sögum og minningum þeirra sem störfuðu hjá ÚA en félagið hefur verið í eigu Samherja síðan 2011. Á myndinni eru tveir af stofnendum Samherja, frændurnir Þorsteinn Már Baldvinsson, lengst til vinstri, og Þorsteinn Vilhelmsson, í miðjunni. Fleiri myndir hér.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Oft áttum við góðu veðri að fagna síðastliðið sumar, en „lygamælirinn“ á Ráðhústorgi á það til að gera gott betra!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Blaðamenn hafa oft gaman af því að ná kollegum sínum á mynd, og hér má sjá Hörð Geirsson ljósmyndara í eldlínunni að mynda Samherjamennina Baldvin Þorsteinsson og Kristján Vilhelmsson við vígslu Torfunefsbryggju.

Myndir: Þorgeir Baldursson
Svokallað „burnout“ er fastur liður á árlegum Bíladögum Bílaklúbbs Akureyrar. Þá eru bílar tjóðraðir niður og síðan spólað þar til dekkin springja og jafnvel ekki hætt fyrr en felgurnar eru orðanar ónýtar – með tilheyrandi hávaða og látum.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Samhæfing upp á 10 hjá þessum dönsurum Steps, sem komu fram á 17. júní hátíð bæjarins í Lystigarðinum.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Fáir voru lukkulegri en þessir túristar, sem römbuðu á menningarleg hátíðarhöld innfæddra á þjóðhátíðardaginn! Þau skemmtu sér manna best og báðu um mynd með fjallkonunni. Það var auðsótt!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Þessi lét fara vel um sig á „fremsta bekk“ á meðan Lúðrasveit Akureyrar lék í Lystigarðinum 17. júní!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Skrúðgangan 17. júní fór framhjá öldrunarheimilinu Hlíð, og þar á túnfætinum var Ute Stelly mætt með fríðu föruneyti til þess að fagna með göngugestum.

Mynd: Þorgeir Baldursson
Fjöldi fólks kom á árlegan Flugdag Flugsafns Íslands á Akureyri og naut þess að sjá hinar ýmsu vélar á lofti – listflugvélar, þyrlu Landhelgisgæslunnar og þotur tékkneska flughersins, svo dæmi séu nefnd, auk þess að skoða aðrar á jörðu niðri, m.a. kafbátaleitarvél bandaríska sjóhersins.

Mynd: Axel Þórhallsson
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, tóku þátt í útskriftarhátíð Vísindaskóla unga fólkins í hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Halla flutti ræðu og forsetahjónin svöruðu fjölda spurninga sem nemendur Vísindaskólans höfðu sent embættinu, m.a. þeirri spurningu hvort þau gætu gengið á höndum – og annað þeirra svaraði spurningunni játandi!
JÚLÍ

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
KA-menn áttu hörkuspennandi Evrópuleik í fótbolta í júlí, þar sem KA féll úr leik eftir að tapa 3:2 fyrir Silkeborg frá Danmörku eftir framlengingu. Þar skiptust virkilega á skin og skúrir. Hér er skin!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Fyrirliðaslagur! Nicolai Larsen, markvörður Silkeborgar, brýtur á Ívari Erni Árnasyni og vítaspyrna var dæmd.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Sumarkjóla- og freyðivínshlaupið var mikil veisla, en það var haldið í aðdraganda hátíðarinnar Einnar með öllu um verslunarmannahelgina. Þessar prúðbúnu dömur voru hressar! Hér má sjá fleiri myndir frá hlaupinu.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Jökull Júlíusson og félagar í hljómsveitinni KALEO stóðu fyrir eftirminnilegum tónleikum sem þeir kölluðu Vor í Vaglaskógi, rétt innan við skóginn fallega í Fnjóskadal. KALEO lék þar ásamt fleiri listamönnum, og einstök stemning skapaðist sem gaman var að fanga með myndavélinni.


Fleiri myndir frá KALEO tónleikunum má sjá hérna.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Erfiðasta fyrirsæta ársins er án umhugsunar Ágústa, Icewear kötturinn. Blaðamaður fjallaði um hana í júlí, og átti í mestu vandræðum með að ná af henni sómasamlegri mynd. Hún þarf að vísu að þola endalausar myndatökur frá ferðamönnum í búðinni, þannig að það er kannski skiljanlegt. Andúðin lekur bókstaflega af þessari mynd, en hún hefur sennilega pínt sig til þess að leyfa eina mynd svo hún fengi frið.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Það er alltaf gaman að ljósmynda við opnanir í Listasafninu þegar sýnd eru verk sem má snerta. Hér bregða gestir á leik á sýningunni 'Mitt rými'.

Myndir: Rakel Hinriksdóttir
Lítil drottning hitar upp með mömmu og liðinu hennar fyrir leik á Pollamóti Þórs í fótbolta.

Pollamótið er fyrst og fremst gleði!
ÁGÚST

Mynd: Hilmar Friðjónsson
Öllum þátttakendum í krakkahlaupi Súlur Vertical í Kjarnaskógi var boðið upp á pylsu í brauði og safa.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Verslunarmannahelgi 2025. Að væflast um með myndavél á fjölmennum viðburðum snýst líka um að ná litlum, fallegum andartökum. Þessar vinkonur voru í tívolíinu á Akureyrarvelli.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Þessi fallegu skilaboð biðu vegfarenda í miðbænum.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Veðurblíðan var upp á tíu á Akureyri um versló, og miðbærinn iðandi af lífi.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Hátíðinni Einni með öllu um verslunarmannahelgina lauk með Sparitónleikum á Akureyrarvelli, gamla íþróttavellinum við Hólabraut. Fjöldinn tók vel undir í söng og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, lét sitt ekki eftir liggja.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Hópur fólks fleytti kertum á Leirutjörn á Akureyri til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárása Bandaríkjahers á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí fyrir 80 árum – í ágúst árið 1945 – og til þess að minnast fórnarlamba á Gaza ströndinni í Palestínu.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Glæsilegt líkan af Harðbak EA 3, einum síðutogara Útgerðarfélags Akureyringa, var afhjúpað á Torfunefsbryggju að viðstöddu fjölmenni á Akureyrarvöku. Það var völundurinn Elvar Þór Antonsson sem smíðaði líkanið fyrir hóp fyrrverandi sjómanna á togurum ÚA en listaverkið afhjúpuðu tveir fyrrverandi skipverjar á Harðbak, Arngrímur Jóhannsson og Steingrímur Antonsson. Arngrímur situr fyrir miðri mynd í grænni úlpu, við hlið Sigurlaugar dóttur sinnar, og Steingrímur er lengst ti hægri.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Listahátíðin Mannfólkið breytist í slím var haldin á Eyrinni.
SEPTEMBER

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Eyrún Huld las uppáhalds ljóðin sín eftir Davíð Stefánsson á Davíðsmessu í september. Hún er ekki bara íslenskukennari og ljóðaunnandi - heldur líka strákamamma! Hún fékk lánuð fótboltaspjöld hjá sonunum fyrir bókamerki.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Fótboltalið KA spilaði við KR í september. Hárgreiðslan á þessum KR-ingi fór ekki framhjá blaðamanni.


Myndir: Rakel Hinriksdóttir
Bæjarlistamaður Akureyrar, Egill Logi Jónasson, eða Drengurinn Fengurinn, bauð í heimsókn í vinnustofu sína í Kaktus. Þar er gaman að koma, en listaverk hans eru iðandi af lífi og hvetjandi skilaboðum.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Fótboltaæfing 'Allir með' í Boganum er skemmtilegt framtak. Hér má sjá umfjöllun og fleiri myndir.

Mynd: Ármann Hinrik
Frábær stemning var á AVIS velli Þróttar í Laugardal þar sem 2.642 áhorfendur sáu Þór vinna Þrótt 2:1 í lokaumferð næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar. Með sigrinum tryggðu Þórsarar sér sigur í deildinni og þar með sæti í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, sumarið 2026 eftir 12 ára fjarveru.

Mynd: Ármann Hinrik

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Leikmenn Þórs tollera þjálfarann, Sigurð Heiðar Höskuldsson, eftir leikinn.

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Það eru nú yfirleitt engin vettlingatökin í hokkíinu. Blaðamaður hefur alltaf gaman af því að ná mynd af kollegum sínum að störfum, en þarna efst til hægri má sjá Harald Ingólfsson, sem gjarnan skrifar um hokkíleikina fyrir akureyri.net. Svipurinn gefur til kynna að honum þykir mögulega nóg um þessi slagsmál!

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Stór stund í lífi Karls Guðmundssonar, Kalla, átti sér stað í haust, þegar hann keyrði hjólastólinn sinn sjálfur í fyrsta sinn með augnstýringu. Kalli er sá fyrsti hér á landi sem notar þennan búnað. Hér má lesa umfjöllun og sjá fleiri myndir:
OKTÓBER

Myndir: Rakel Hinriksdóttir
Harry Potter dagarnir í Glerárskóla eru orðnir að föstum lið sem nemendur (og starfsfólk) skólans bíða í ofvæni.

Krakkar á öllum aldri í Harry Potter íþróttatíma! Hér má sjá umfjöllun og fleiri myndir frá Harry Potter deginum.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Merkileg „viðbygging“ við Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli varð að veruleika 1. október. Um er að ræða fremsta hluta Boeing 757-223 þotunnar Eldfells, sem Icelandair afhenti safninu að gjöf fyrir nokkrum misserum, og skagar nú út úr norðurgaflinum. Innangengt verður í þotuna úr safninu. Hér má sjá myndasyrpu af því hvernig verkið gekk fyrir sig:

Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Nína Ólafsdóttir gaf út sína fyrstu bók fyrir jólin, sem sló í gegn og seldist frábærlega. Nína bauð í kaffi og það var gaman að ná þessari mynd af henni með gönguvagninum og vatnskönnu sonarins, en Nína er ekki bara búin að gefa út metsölubók - heldur líka vera í fæðingarorlofi með frumburðinn. Viðtal við Nínu birtist í tveimur hlutum:

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Strákarnir í 2. aldursflokki KA í fótbolta komust í 2. umferð Evrópudeildar ungmenna. Þeir fengu PAOK frá Grikklandi í heimsókn 22. október, til stóð að spila á Greifavelli KA og daginn áður var útlitið gott. Að morgni leikdags var hins vegar kominn 20 cm jafnfallinn snjór og þótt hitalagnir séu undir gervigrasinu og hópur manni hafi byrjað að skafa snjó af vellinum snemma morguns dugði það ekki til og leikurinn var færður inn í Bogann. Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA fylgist hér með snjómokstri úr stúkunni.

Myndir: Skapti Hallgrímsson
Meðal hljómsveita sem komu fram á tónlistarhátíðinni Eyrarrokki á Verkstæðinu við Strandgötu var sú gamalkunna akureyrska gleðisveit, Skriðjöklar, sem lék þá í fyrsta skipti opinberlega í 13 ár! Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, var titlaður dansari í sveitinni á árum áður en söng auk þess við raust í þetta skipti, fjörlega klæddur eins og sjá má. Aðalsöngvari Skriðjökla, Ragnar Gunnarsson – Raggi Sót – átti ekki heimangengt en Karl Örvarsson, í ljósum jakka við hlið Loga, leysti Ragnar af á Eyrarrokki.

NÓVEMBER

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Bekkurinn var þétt setinn í Akureyrarkirkju sunnudaginn 16. nóvember þegar fram fór hátíðarmessa í tilefni 85 ára afmælis kirkjunnar sem var daginn eftir; hún var vígð sunnudaginn 17. nóvember árið 1940. Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir prédikaði og gengur hér úr kirkju, til hægri, ásamt Hildi Eir Bolladóttur sóknarpresti. Á milli þeirra er sr. Aðalsteinn Þorvaldsson.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Nemendur sundskóla Óðins köfuðu eftir gulli og gersemum, með góðum árangri, á árlegum sjóræningjadegi í Glerárlaug, líklega vinsælasta degi skólaársins.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
KA og Þór mættust í fyrsta skipti í fjögur ár í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Leikið var í KA-heimilinu, færri komust að en vildu og stemningin var frábær. Þórsarinn Brynjar Hólm Grétarsson skorar hér snemma leiks þrátt fyrir óborganleg tilþrif Bruno Bernat, markvarðar KA, en KA-menn fögnuðu sigri þegar upp var staðið; sigruðu 32:28.
DESEMBER

Mynd: Þorgeir Baldursson
Hjónin Gunnlaugur Sverrisson og Ingibjörg Anna Sigurðardóttir voru á meðal þeirra sem renndu sér í Hlíðarfjalli 4. desember, þegar almenningi var hleypt í skíðabrekkurnar í fyrsti skipti í vetur. Þau voru með þeim allra fyrstu sem fóru í lyftuna Fjarkann eftir að hann var ræstur og sögðust hafa beðið spennt eftir því að komast í fjallið; hefðu keyrt uppeftir þriðja hvern dag í aðdraganda opnunarinnar til kanna aðstæður! Þau eru engir nýgræðingur á skíðum – Gunnlaugur sagði akureyri.net að þetta væri 59. veturinn sem hann renndi sér í Hlíðarfjalli!

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Óvenjuleg bygging er risin rétt ofan Akureyrar, kúluhús, sem vekur athygli og forvitni vegfarenda. Að baki verkefninu standa hjónin Helga Björg Jónasardóttir, vöruhönnuður og kennari, og eiginmaður hennar, Jóhannes Már Jóhannesson, sölustjóri hjá Icefresh. Hjónin ætla sér að flytja inn í kúluna, sem fengið hefur nafnið Hvolf, seinni hluta árs 2026. Viðtal við þau birtist í tveimur hlutum:

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Fjölbreytt dagskrá var í Lystigarðinum nokkrum dögum fyrir jól þegar Orkusalan og fleiri buðu upp á fjölskylduviðburðinn JólaStuð. Þessi unga stúlka fylgdist sem dáleidd með syngjandi jólasveinum á sviðinu.

Mynd: Skapti Hallgrímsson
Hið árlega gamlárshlaup UFA Eyrarskokks var þreytt að morgni gamlársdags. Þátttakendur voru hátt í 100 og óvenju skrautlega klæddir af hlaupurum að vera, en það er orðin hefð í þessu skemmtilega hlaupi. Þarna er t.d. knapi, annar frá hægri, og sá við hlið hans er klár með reiðskjótann!