Fara í efni
Mannlíf

600Klifur langt komið og opnar í október

Magnús Arturo Batista og Katrín Kristjánsdóttir á grjótglímuveggnum litríka. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

600Klifur hefur ekki slegið slöku við í sumar. Heilmikið hefur gerst síðan blaðamaður Akureyri.net heimsótti þau Katrínu Kristjánsdóttur og Magnús Arturo Batista í mars síðastliðnum, en þau eiga og reka 600Klifur ásamt eiginmanni Kötu, Hirti Ólafssyni. Risavaxið húsnæðið að Dalsbraut 1 var nánast tómt þá, en í dag eru komnir upp klifurveggir um allt, með litríkum höldum og fótstigum fyrir klifurketti framtíðarinnar. Stefnt er að því að opna herlegheitin 11. október.

Hér má lesa fyrra viðtalið við Katrínu og Magnús um 600Klifur:

 

Upphaflega planið var að opna í sumar, en það var töluvert meiri vinna að koma húsinu í stand fyrir klifurveggi, en búist var við. „Við erum búin að taka húsið algjörlega í gegn,“ segir Katrín, en í stærstum hluta hússins var áður kæligeymsla. „Við erum búin að einangra, endurgera loftið, skipta um þak og setja nýjar pípulagnir og rafmagn.“ Húsið var með stórum rennidyrum til innkeyrslu á fjórum stöðum og einnig er búið að loka þeim öllum og steypa upp á nýtt. 

 

Katrín og Magnús við gatið niður á hæðina fyrir neðan. Hái klifurveggurinn lengst til vinstri á myndinni. Fyrir aftan þau má sjá hluta af 'grjótglímu' veggjum, en þar er frjálst klifur án línu, með dýnum fyrir neðan. Mynd: RH

T.v. Myndin sem var tekin í mars fyrir síðasta viðtal. Hér standa þau Katrín og Magnús nokkurnvegin þar sem gatið í gólfið er komið núna. Vegginn fyrir aftan þau er búið að rífa. T.h. Tölvuteiknuð mynd af salnum sem við fengum í mars, en lengst til hægri er kaffiterían og rýmið fyrir krakka og byrjendur. Hái veggurinn og gatið fyrir miðju. 

Ævintýralegt rými fyrir yngri kynslóðina

Þegar inn er komið, blasir við stórt rými, þar sem kemur kaffitería. Við hliðina á henni er ævintýralegt rými, þar sem eru klifurveggir sem henta börnum og byrjendum með dýnum til þess að passa að enginn meiði sig. Einnig er hægt að príla inn um gat á vegg og komast í spennandi göng upp í lítið rými. 

Við stöndum á sama stað og síðast, þegar blaðamaður spjallaði við Katrínu og Magnús. Þá var ekki margt að sjá, en núna er komið risastórt gat í gólfið, og 13 metra klifurveggur teygir sig upp frá neðri hæð hússins og nær upp í rjáfur. Þar verður línuklifur í boði. „Við háa vegginn verður starfsmaður og það er ekki leyfilegt að fara í vegginn án aðstoðar. Það verður hægt að taka námskeið hjá okkur til þess að læra handtökin við línuklifrið, og ef þú ert komin/n með það, þá getur þú klifrað hérna sjálf/ur,“ segir Magnús. 

 

Í klifurrýminu fyrir krakka og byrjendur. Blaðamaður í þjálfun sá ekki eftir því að koma með mömmu sinni í vinnuna þennan dag. Mynd: RH

Salur fyrir afmælisveislur

Það verður hægt að halda afmæli eða aðra viðburði í 600Klifur, en þegar kaffiterían er tilbúin, kemur 100 fermetra salur ofan á hana sem er ætlaður til þess. „Það er svo gott að hafa þennan sal nálægt klifurrýminu fyrir krakkana, þannig að hægt verður að klifra og leika sér og rölta svo beint upp í salinn í veitingar og veislu. Svo getum við þá nýtt þennan sal í eitthvað annað þegar hann er ekki í leigu, eitthvað íþróttastarf eða hvað sem er,“ segir Katrín.

Þetta verður eiginlega blanda af því að vera klifurhús og skemmtigarður

Allir klifurveggir eru komnir upp og mismunandi litaðir klifursteinar prýða veggina, en leiðunum verður skipt út á 6-8 vikna fresti. „Það er búið að hanna það vandlega, hvernig leiðirnar eru á veggjunum,“ segir Magnús. „Leiðirnar eru hjartað í upplifuninni, en hér er eitthvað fyrir alla. Hver sem er getur prófað léttustu leiðirnar, og svo erum við með allt upp í virkilega krefjandi leiðir sem eru bara á færi atvinnumanna. Við hugsum þetta þannig, að við getum boðið öllum að prófa og svo er þá hægt að æfa sig og vinna sig upp í meira krefjandi leiðir.“

Draumurinn að skapa klifursamfélag

„Okkur langar svo mikið að þetta verði staður sem býður alla velkomna, sama hvar þú stendur gagnvart því að stunda klifur,“ segir Katrín. „Það verður hægt að koma þegar fólki hentar og eyða tíma í að prófa klifur, koma með krakkana eða ekki, fá sér kaffi eða hvað sem fólk vill. Svo verður líka hægt að kaupa áskriftir, árskort eða skiptakort, ef fólk vill það. Svo ætlum við að bjóða upp á námskeið líka.“ 

„Þetta verður eiginlega blanda af því að vera klifurhús og skemmtigarður,“ segir Magnús, þegar blaðamenn í þjálfun kalla á hann frá klifurveggnum, og vilja vita hvað þetta ævintýrahús sé nú eiginlega. Það hefur sennilega sjaldan verið jafn gaman að vera með mömmu í vinnunni. 

 

Blaðamaður í þjálfun yngri, var ekki lengi að taka klifurvegginn til kostanna. Hérna þarf alls ekki að biðja börn að fara að klifra, þau geta ekki annað. Mynd: RH