Fyrsta skáldsaga Nínu fær frábæra dóma

Er hægt að skrifa um endalok mannkyns á fallegan hátt? Nína Ólafsdóttir, rithöfundur og líffræðingur, segist orðin þreytt á heimsendasögum þar sem maðurinn stendur einn uppi að lokum, umkringdur sviðinni jörð og dauða. „Það er bara ótrúverðugt að allt endi með okkur,“ segir Nína. „Við erum frekar ný tegund, og við höfum ekki einkenni tegunda með langa þróunarfræðilega sögu. Fjölmargar tegundir á jörðinni væru betur til þess fallnar að lifa af, og munu gera það. Jörðin mun lifa okkur af.“
Nína býður blaðamanni í rótsterkt rithöfundakaffi að heimili sínu við Aðalstræti, en hún gaf einmitt út fyrstu bók sína, Þú sem ert á jörðu, hjá Forlaginu í byrjun september, þar sem við kynnumst síðustu mannveru jarðarinnar. Í vikunni sem leið var fjallað um bókina í Kiljunni hjá Agli Helgasyni, þar sem hún frékk frábæra dóma og sögð líkleg til þess að stela senunni í jólabókaflóðinu.
Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Nínu Ólafsdóttur, seinni hlutinn birtist á morgun á Akureyri.net
- Á MORGUN – SKRIFAR UM ENDALOK MANNKYNS Á LJÓÐRÆNAN HÁTT
Leit að svörum og annarri mannveru
„Sagan er um konu sem elst upp í nyrstu byggðum jarðar, á heimskautasvæði,“ segir Nína um söguþráðinn. „Hún er þarna að reyna að draga fram lífið, án flestra nútímaþæginda. Það er fremur óljóst hvað hefur átt sér stað í samfélagi mannanna, en við vitum að það er eitthvað stórt. Við fylgjum henni svo í ævintýralegt ferðalag þar sem hún leiðir okkur í gegnum ólík vistkerfi jarðar í leit sinni að annarri mannveru og svörum.“
Þessi saga lét mig ekki í friði. Hún sat bara í mér og ég varð að skrifa hana
„Á leiðinni fer mikið fyrir endurliti hennar til fyrri tíma. Þarna er sorg, mennska, söknuður og óvissa,“ segir Nína. „Það á sér svo stað samtal við náttúruna þar sem hún kemur við, ýmsar hugleiðingar um stöðu mannsins og náttúrunnar.“
Það varð að vera töggur í henni
„Kveikjan að sögunni hófst með heimskautasvæðunum og aðalpersónunni, Arnaq. Ég vissi að síðasta manneskjan á jörðinni þyrfti að vera eins og hún. Hún þurfti að hafa gríðarlega þekkingu á umhverfi sínu og vera tengd náttúrunni,“ segir Nína. „Verkefnin sem hún tekst á við í sögunni eru þess eðlis að hún þarf að vera klár, hraust og vön að lifa af landinu. Sagan hefst á skálduðum stað - en ég er að hugsa til Grænlands. Ég las mér töluvert til um grænlenska menningu í rannsóknarvinnunni fyrir bókina, ræddi við og fékk dýrmætan yfirlestur og rýni frá fólki sem þekkir vel til“
„Þetta var alltaf kona,“ segir Nína staðföst, aðspurð um það, hvort að einhverntíman hafi komið til greina að aðalpersónan væri karlmaður.
Útgáfuhóf 'Þú sem ert á jörðu' var haldið í Pennanum Eymundsson við Austurstræti í september. Bókin hefur fengið góða dóma, meðal annars í menningarblaði Morgunblaðsins og Kiljunni. Mynd: aðsend.
Það þurfti félagsskap
„Hundurinn kom næst, en upphaflega var það eiginlega bara vegna þess að þetta var hálf einmanalegt,“ segir Nína og brosir, en hún er sjálf alin upp við að hafa hunda á heimilinu. „Hún þurfti einhvern til þess að veita sér félagsskap og tala við. Hundar eru samofnir menningunni á Grænlandi, mikilvægir veiði- og ferðafélagar. Þeir auðvelda fólki lífið þannig að það lá beinast við, að hún fengi að hafa með sér hund.“
„Tæknin hefur látið undan á einhvern hátt þegar sagan gerist,“ segir Nína. „Þegar Arnaq lítur um öxl, fáum við ýmsar vísbendingar um að sambandið hafi rofnað. Það er talað um sjónvarp, síma og annað sem gefur til kynna að sagan gerist í nálægri framtíð. Internetið er horfið og rafmagnið er farið. Þegar við hittum hana, þá er allt þetta tæknilega sem við reiðum okkur á í dag farið.“
Heimsfaraldurinn ýtti undir trúverðugleikann
„Ég var byrjuð að skrifa þegar heimsfaraldurinn reið yfir,“ segir Nína. „Það sem gerðist í heiminum í kjölfarið, alls kyns aukaverkanir þess að minnka frelsið og loka á ýmis kerfi, vakti mig til umhugsunar um hvað við erum í raun háð því að hlutirnir gangi. Mér fannst alveg glitta í það þarna, hvað manngerð kerfi eru í raun viðkvæm. Kannski þarf minna til en við höldum, til þess að allt fari á hliðina.“
Bókin er í raun bara ég að reyna að ná utan um hugleiðingar mínar um manninn og náttúruna
„Ég hafði áhyggjur af því þegar ég var að skrifa söguna, að staða mannkyns í bókinni væri of langsótt, en eftir heimsfaraldurinn fannst mér það kannski bara ekkert svo langsótt eftir allt saman. Það er hægt að ímynda sér allskyns heimsenda í dag, mér fannst meira sannfærandi að orsökin væri vegna samverkandi þátta - ekki bara vegna loftslagsbreytinga.“
Bakgrunnurinn er í líffræði
Nína er með mastersgráðu í sjávar- og vatnalíffræði frá Háskólanum á Hólum, en hún lauk öllum námskeiðum í mastersnáminu á Svalbarða. Eftir útskrift fékk hún vinnu við ferskvatnsrannsóknir hjá Veiðimálastofnun, en sú stofnun sameinaðist Hafrannsóknarstofnun 2016 og eftir það starfaði Nína þar í mörg ár. Hún bjó lengi á Ólafsvík og starfaði þar við botnsjávarrannsóknir á vegum stofnunarinnar ásamt manninum sínum Jóhanni Garðari Þorbjörnssyni. Nú búa þau á Akureyri ásamt ársgömlum syni sínum, Heiðari Blika.
Vísindastörfin eru að baki í bili, en núna hefur Nína ákveðið að helga sig ritstörfunum. Það voru þó vísindastörfin sem kveiktu neista í gömlum draumi um að skrifa bók, það var þar sem Nína fann sína rödd á ritvellinum.
Myndir frá rannsóknarstörfum Nínu. Myndir: aðsendar
Minnkaði vinnuna til þess að geta skrifað
„Það var um 2020, sem ég var byrjuð að skrifa þessa sögu,“ segir Nína um bókina sína. „Á einhverjum tímapunkti tók ég ákvörðun um að minnka starfshlutfallið mitt hjá Hafró, til þess að hafa tíma til þess að skrifa. Ég vissi kannski ekki alveg strax að ég væri með eitthvað sem ég gæti ef til vill gefið út - en þessi saga lét mig ekki í friði. Hún sat bara í mér og ég varð að skrifa hana. Sama hvað ég reyndi að leggja hana til hliðar, þá kom alltaf eitthvað upp sem minnti mig á hana.“
Alltaf skrifað til þess að skilja
„Ég man eftir því frá unglingsaldri, að hafa þörf fyrir að skrifa,“ segir Nína. „Það voru mjög mikið dagbókarskrif til þess að komast í gegnum umbrotatímabil unglingsáranna og allt sem þeim fylgir. Ég skrifaði eiginlega til þess að komast að því hvernig mér leið eða hvað mér fannst. Þetta er svona enn í dag, þó ég sé ekki endilega manneskja sem skrifar alla daga.“
„Þegar ég þarf að átta mig á einhverju, eða fá botn í eitthvað mál, þá eru skrifin alltaf leiðin mín þangað,“ segir Nína. „Ég skrifa held ég alltaf fyrst, áður en ég tek samtalið. Bókin mín er í raun bara ég að reyna að ná utan um hugleiðingar mínar um manninn og náttúruna, og hvert við stefnum saman.“
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Nínu Ólafsdóttur, en sá seinni verður birtur á morgun á Akureyri.net.
- Á MORGUN – SKRIFAR UM ENDALOK MANNKYNS Á LJÓÐRÆNAN HÁTT