Fara í efni
Menning

„Lífið er stöðug æfing og stöðug hrörnun“

Egill Logi Jónasson, bæjarlistamaður Akureyrar. Mynd: RH

„Að vera listamaður snýst rosalega mikið um að trufla fólk og biðja um að fá að gera eitthvað,“ segir Egill Logi Jónasson, bæjarlistamaður Akureyrarbæjar. „Það er góð þjálfun að venja sig á að senda bara fyrirspurnir út um allt á fólk og svo segir það þá bara nei eða hundsar mann. Það er rosalega stór partur af listamannslífinu að takast á við höfnun. Ég er orðin nokkuð góður í því en ég verð samt alltaf svolítið leiður.“

Blaðamaður situr með Agli, sem er jafnvel þekktari í listaheiminum sem hliðarsjálfið Drengurinn Fengurinn, í Kaktus í Listagilinu og spyr hann hvort að hann hefði getað orðið eitthvað annað en listamaður. Öll vötn renna til Dýrafjarðar, og Egill virðist vera svona týpa sem hefði alltaf orðið listamaður, sama hvað hann hefði reynt.

 

Vinnustofa Egils er í Kaktus. Það er í tísku í samfélaginu í dag að vera með hvetjandi skilaboð á veggnum, og Egill fer ekki varhluta að því. Mynd: RH

Skömminni skárra að vera listamaður

„Mig langaði svosem ekki að verða neitt, og ég hafði í rauninni ekki trú á því að ég gæti orðið listamaður,“ segir Egill. „Af tvennu illu, annars vegar að vinna í hefðbundinni vinnu og hins vegar að vera listamaður - finnst mér eiginlega betra að vera listamaður. Þó maður sé að vinna ógeðslega mikið og sé oft næstum því farinn yfirum, þá held ég bara að það væri erfitt fyrir mig að vera til, án þess að vera að listast eitthvað. Kannski er það bara stöðugur raunveruleikaflótti.“

„Ég er mjög þunglyndur og neikvæður í grunninn,“ segir Egill. „En svo finnst mér líka svo fyndið að vera þunglyndur og neikvæður. Það er bæði fyndið en líka varhugavert. Ef maður segir eitthvað neikvætt í gríni og segir það mjög oft, þá fer það held ég að hafa áhrif. En kannski er listin og húmorinn einhver leið til þess að afvopna erfiðar aðstæður. Það er allt mjög fyndið, sem við erum að gera hérna. Ég reyni að horfa á það þannig.“

Jákvæðni tekur of mikið á

„Mér finnst í rauninni ótrúlega erfitt að vera jákvæður,“ segir Egill og hlær. „Það verður strax eitthvað væmið og óþægilegt. Ég er til dæmis þannig, að fyrstu viðbrögð við öllu er að segja nei. En ég hef verið að þvinga sjálfan mig til þess að fara út fyrir þægindaramann stundum. Mig langar yfirleitt ekkert að gera hluti, breyta til eða taka að mér verkefni. En það er víst gott fyrir bisness að gera hluti og setja myndir af því á netið.“ 

 

Nýjasta lag Drengsins Fengsins kom út í síðustu viku og heitir 'Ég vil vera sexually liberated (ekki bara dónakall)' Hér er lagið á Spotify.

Raunveruleikaflótti strigapokans

Drengurinn Fengurinn er þekktur fyrir að vera með strigapoka á hausnum með spurningamerkjum á. Andlit Egils sést ekki þegar hann er í hlutverki Drengsins. Blaðamaður veltir því upp, hvort að upphaflega hugmyndin með pokanum væri að fela sig - eitthvað í ætt við þennan raunveruleikaflótta sem Egill nefnir. „Já það var það fyrst, en svo fór mér bara að finnast það svo áhugavert að vera innan um venjulegt fólk með grímu. Þetta er samt bögg líka. Ég sé ekkert alltaf nógu vel og ég svitna helling í þessu,“ segir Egill.

Ég er á móti listamannalaunum, nema þegar ég fæ þau

Það kemur á daginn að Egill er alltaf með grímuna í töskunni sinni. Blaðamaður spyr, hvort að hann setji hana stundum upp, svona fyrirvaralaust í daglegu amstri. „Ég geri það reyndar ekki, mér finnst óþægilegt að vekja athygli á sjálfum mér. En lífið er stöðug æfing og stöðug hrörnun, þannig að ég hef þvingað sjálfan mig til þess að setja hana upp í Bónus eða á kaffihúsi og taka myndir,“ segir Egill, en hann nefnir það reyndar í svipinn að gríman og vörumerkið Drengurinn Fengurinn gæti verið til sölu. „Það er allt falt fyrir rétt verð, áhugasamir mega hafa samband við mig beint,“ segir listamaðurinn. 

 

T.v. Egill var mjög glaður að hljóta nafnbótina Bæjarlistamaður Akureyrarbæjar, en það var á sumardaginn fyrsta á þessu ári, og hann er ennþá starfandi bæjarlistamaður. T.h. Drengurinn Fengurinn spilar með Stráknum Fáknum. Myndir: Facebook síða Egils.

Drengurinn og hljómsveitin hans

Fyrir þau sem ekki vita hver munurinn er á Drengurinn Fengurinn og Strákurinn Fákurinn, þá er Drengurinn Fengurinn hliðarsjálf Egils og kemur fram sem sólóartisti. Strákurinn Fákurinn er hinsvegar hljómsveit, sem Drengurinn Fengurinn er meðlimur í ásamt Agnieszku Staroń og Kęstutis Balčiūnas. „Ég sem mest af lögunum, en það koma allir með eitthvað. Það væri alveg gaman ef við værum að semja allt saman en það er bara flóknara. Þá þyrfti ég kannski að muna hvað ég er að gera,“ segir Egill um lagasmíðar hljómsveitarinnar. 

Framtíðarplönin af ýmsu tagi

„Það er alltaf svo mikið stuð á sumrin á Akureyri, endalausar hátíðir og svona. Á veturna þarf eiginlega að skipuleggja eitthvað skemmtilegt,“ segir Egill. „Ég er til dæmis að standa fyrir tónleikaröðinni Textavarpinu í Kaktus og það verður eitthvað fljótlega á döfinni í því. Svo er ég að fara að spila á Airwaves í fyrsta sinn, sem ég er mjög spenntur fyrir. Svo er á planinu að fara í stúdíó í nóvember, þá förum við á Stöðvarfjörð og tökum upp í Stúdíó Síló.“

 

Tónlistin (og gleðin) ræður ríkjum hér, í upptökustúdíói í Kaktus. Myndir: RH

Afkastamikill og fjölhæfur listamaður

Egill er líka myndlistamaður, en hann átti til dæmis verk á sýningu Myndlistarfélagsins sem var opnuð í Færeyjum nýlega. „Ég hef reyndar ekki málað núna í næstum því ár, núna hef ég meiri áhuga á að láta prenta á boli eitthvað sem mér finnst töff,“ segir Egill. „Það er bara svo margt sem mig langar að gera, og núna er ég mest í músík og bolum.“

Það er fullt af óútgefnu efni í fórum Egils, hvort sem um ræðir mynd eða hljóð, sem hann er að vinna í að koma á framfæri. Hann verður seint sakaður um að vera latur listamaður, þar sem hann hefur gefið út heilmikið af tónlist og skapar og málar þess á milli. „Sko, það er rosalega fínt, að þurfa ekki að vera alltaf í einhverju panikki að redda pening,“ segir Egill varðandi kosti þess að vera bæjarlistamaður Akureyrarbæjar.

Þó ég vinni rosalega mikið og eyði rosalega miklum tíma í að vera listamaður er það aldrei nóg 

„Kannski tekur fólk mig frekar alvarlega sem listamanni, ef ég er bæjarlistamaður,“ heldur Egill áfram. „Þá er maður kannski með einhverja viðurkenningu um að maður sé að gera eitthvað rétt. Kannski þarf ég það sjálfur, þessa viðurkenningu. Ef maður getur lifað á því að vera listamaður, hlýtur maður að vera góður listamaður.“

„Ég vinn reyndar líka í Klettaborg íbúðakjarna hjá bænum,“ segir Egill um hina vinnuna sína.„ Margir bera miklu meiri virðingu fyrir því, heldur en því að vera listamaður. Þó ég vinni rosalega mikið og eyði rosalega miklum tíma í að vera listamaður er það aldrei nóg. Svo fer maður að afsaka sjálfan sig og telja klukkustundirnar sem fara í þetta, til þess að sanna sig. Ég er alltaf með minnimáttarkennd, að vera ekki í hefðbundinni vinnu.“ 

 

Það er ákveðin veisla að heimsækja Egil á vinnustofuna í Kaktus, en hann er með fjölmörg málverk og listaverk af forvitnilegu tagi út um allt. Myndir: RH

Af hverju þurfum við þessar listir? 

Egill er beðinn að svara því, hvers vegna það er mikilvægt að hafa listamenn í samfélaginu. „Það er gaman að fullorðið fólk sé ennþá að leika sér eins og krakkar,“ segir Egill eftir þónokkra umhugsun. „Að vera listamaður er svolítið eins og að vera barn ennþá, og þó að einhverjir séu kannski að gera einhverja list sem ég fíla ekki þá finnst mér samt svo gaman að þau séu að gera list. Fullorðinsföndur. Að gera eitthvað sem er ekki fjárhagslega arðbært.“

„Ég er á móti listamannalaunum, nema þegar ég fæ þau,“ segir Egill og hlær. „Einu sinni fékk ég þannig og þá var það mjög gaman. Þau eru annars mjög asnaleg. Mér finnst asnalegt að velja einhverja listamenn fram fyrir aðra, í rauninni. Það ættu bara allir að vera á listamannalaunum, leyfa samfélaginu að hrynja aðeins. Það yrði gott ár.“

Rómantík hins frjálsa listamanns er flókin

„Ég er svosem alltaf í stöðugri innri baráttu varðandi það, hvenær er ég að gera eitthvað af því að mig langar til þess og hvenær er ég að gera eitthvað til þess eins að græða peninga,“ segir Egill um praktísku hliðina á listalífinu. „Það skemmir dálítið rómantíkina, þegar maður fer að hugsa hvernig á ég að græða á þessu? Svo verður fólk svolítið móðgað þegar ég segi að ég ætli að fá borgað. Ekkert oft, en stundum.“ 

„Það væri reyndar alveg gaman að vera listamaður í sjálfboðavinnu,“ segir Egill. „En þá þarf maður að vera í hinsegin vinnu líka og þá hefur maður engan tíma. Þá fer allt til andskotans.“

„Mér finnst listalífið á Akureyri mjög öflugt. Bæði miðað við höfðatölu og ekki miðað við höfðatölu. Það mætti samt koma meira af ungu listafólki, það er alltof mikið af því að krakkarnir flýji suður eftir framhaldsskóla,“ segir Egill að lokum.


Samfélagsmiðlar Egils: