Fara í efni
Mannlíf

Systurnar samstíga í sauðburðinum

Systurnar á Syðri-Bægisá með krakkaskarann sinn, lamb og hunda. F.v. Gunnar, Hafþór, Gunnella, Helena, Steinar og Jónína. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Jónína Þórdís og Gunnella Helgadætur eru samrýmdar systur. Það er ekki nóg með að þær eigi báðar tvö börn á næstum því nákvæmlega sama aldri, heldur búa þær hlið við hlið á Syðri-Bægisá í Öxnadal í Hörgársveit og starfa þar sem bændur ásamt foreldrum sínum. Systurnar eru af fjórða ættlið sömu fjölskyldu sem stundar búskap á bænum, en í dag er uppistaðan í mjólkurframleiðslu og sauðfjárbúskap. Síðustu vikur hafa verið annasamar eins og gengur með kindurnar í sauðburði, en þegar blaðamaður Akureyri.net heimsækir systurnar eru bara tvær kindur óbornar og fólkið byrjað að vinna vel á svefntapinu.  

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við systurnar á Syðri-Bægisá. Seinni hlutinn verður birtur á morgun á Akureyri.net

Á MORGUN – VILJA HVERGI VERA NEMA Í SVEITINNI SINNI

 

Krakkarnir eru nýlega komin heim af leikskólanum þegar blaðamaður kemur í heimsókn, og eru boðin og búin að vísa veginn út í fjárhús. Tveggja ára aldursmunur skiptir sköpum þegar hliðið er annars vegar, en hjálpin er aldrei langt undan. Mynd: RH

Hver nennir að sofa og fara í leikskóla í sauðburði?

Það spillir sannarlega ekki fyrir að vera með liðtæka aðstoðarmenn, en krakkarnir elska sauðburðinn og taka fullan þátt. „Það hefur reyndar verið frekar erfitt að fá þessi börn til svefns á kvöldin í sauðburðinum, hausinn er alltaf í fjárhúsunum, þau vilja ekki missa af neinu,“ segir Gunnella um ungu bændurna. Synir hennar, Hafþór Dalmar Arnarsson, 5 ára og Gunnar Jökull Arnarsson, 3 ára, láta ekki standa á sér þegar þarf að sinna lömbunum eða aðstoða kindurnar við að bera.  

Þetta hentar reyndar mjög vel! Við skiptumst á að passa og sinna búskapnum

Jónína sver fyrir það, að þær systur hafi ekki skipulagt barneignirnar, þó að við vitum að bændur séu sérfræðingar í því að skipuleggja burð. Börnin hennar, Helena Vordís Arnþórsdóttir og Steinar Helgi Arnþórsson, eru líka 5 og 3 ára, en það munar 13 dögum á eldri krökkunum og þremur mánuðum á þeim yngri. „Þetta hentar reyndar mjög vel! Við skiptumst á að passa og sinna búskapnum. Ég tek reyndar fram að þó að við séum mjög samrýmdar systur þá erum við oft mjög ósammála! En það leysist alltaf.“ Jónína er yngri, hún verður þrítug á árinu, en Gunnella er 32 ára.

 

Syðri-Bægisá er í Hörgárdal austanverðum, rúmlega 20 km frá Akureyri. Íbúðarhúsin tvö, sem standa fremst, eru heimili systranna. Gunnella býr með sonum sínum í hvíta og gráa húsinu, en Jónína býr með börnum sínum tveimur og eiginmanninum Arnþóri í timburhúsinu. Gamli bærinn stendur fyrir aftan, með tveimur burstum. Hann var byggður 1929 og þar búa foreldrar systranna, Ragnheiður M. Þorsteinsdóttir, upphaflega frá Þverá í Öxnadal, og Helgi Bjarni Steinsson sem er þriðji ættliður bænda á Syðri-Bægisá. Mynd: RH

Gamla íbúðarhúsið séð frá fjárhúsunum. Falleg bygging. Mynd: RH

Fjölbreyttur búskapur á Syðri-Bægisá

„Kindurnar eru eiginlega hobbí, svona innan gæsalappa,“ segir Jónína. „Við erum aðallega með kýr, 60 mjólkandi kýr og 25 kvígur í uppeldi, en það eru um 220 kindur og í ár eru um 210 að bera og við erum með um 360 lömb. Það er gott að hafa kindurnar með og við gætum alveg fjölgað þeim ef við vildum, það er meira pláss í húsunum, en þetta er ágætt svona.“ Á bænum eru líka naut til kjötframleiðslu, rúmlega 20 hænur, tveir hundar, tveir hestar og köttur. 

„Ég, pabbi og mamma erum í fullu starfi sem bændur og störfum ekkert annað með,“ segir Jónína. Gunnella er líka aðallega bóndi, en þó starfar hún líka sem nuddari á Akureyri. „Ég skal vera hreinskilin í þessu viðtali,“ segir Gunnella þegar blaðamaður spyr hana um sauðburðinn. „Systir mín er meiri sauðfjárbóndi en ég, ég er miklu meiri kúabóndi. En ég tek mjög mikinn þátt í sauðburðinum og hef gaman af honum, en ég fæ alveg nóg af því að þetta er rosalega mikil vinna. Það er erfitt, en þegar upp er staðið þá er þetta alltaf þess virði og það er gaman að sjá lömbin fæðast.“

 

Hafþór Dalmar er bara fimm ára, en hann kann handtökin upp á tíu. Þetta lamb þarf að fá pela, og það er nú lítið vandamál fyrir frændsystkinin að redda því. Mynd: RH

Steinar Helgi, þriggja ára, heldur hér á lambinu, svo að Hafþór geti gefið því pelann. Helena Vordís fylgist með, en hún er komin í vinnuhanskana og segir blaðamanni að það standi til að setja niður kartöflur um helgina. Mynd: RH

Fann hvað sveitin togaði, eftir búsetu í borginni

Hápunkturinn í burðinum er á svona tíu daga tímabili, en í heildina tekur sauðburðurinn um 20-30 daga á Syðri-Bægisá. „Nú eru bara tvær eftir, en við í rauninni höldum ekkert sérstaklega upp á það þegar sú síðasta er borin, þá er það bara næsta verkefni,“ segir Gunnella. „Það er orðið rólegt í þessu núna þannig að ég var bara í girðingarvinnu í dag að undirbúa rekstur á fjall. Lífið heldur áfram og það er sjaldan logn í kringum sveitafólk.“ 

„Ég hef alltaf verið rosalega mikið náttúrubarn og liðið vel í sveitinni,“ segir Gunnella. „Svo flutti ég suður og var í fjögur ár í nuddnámi í Reykjavík. Þá fann ég hvað mest, hvað ég vildi vera í sveitinni, og varð hundrað prósent viss um að minn staður væri hér. Ég saknaði tengslanna við náttúruna og dýrin.“

Upphaf sumarsins er skemmtilegasti tími ársins í sveitinni, finnst mér. Allt að lifna við eftir langan vetur

„Það hefur gengið lygilega vel og lítið um burðarhjálp,“ segir Jónína um sauðburðinn í ár. „Ég veit í rauninni ekki hvort við höfum bara valið eitthvað einstaklega góða hrúta eða hvað, en það hafa verið svo lítil afföll og mjög lítið um dauð fóstur. Síðasta ár var skelfilegt, þá gekk allt á afturfótunum, þannig að við erum ofboðslega glöð með þetta núna. Ég held að við séum með metfjölda lamba í ár.“ Jónína tekur fram að það hafi verið svolítil áhersla á það í kynbótastarfinu, að skera niður þær kindur sem eiga erfitt með burð. „Það hefur sýnt sig, að það gerist oft ár eftir ár, að sömu kindur eiga erfitt með að bera,“ bætir Jónína við.

 

Jónínu finnst skemmtilegast þegar mest er um að vera í sveitinni. Mynd: RH

„Mér finnst þetta æðislegt,“ segir Jónína að lokum um sauðburðartímann. „Það er svo mikið kraðak, svo mikið í gangi og maður veit oft varla hvað klukkan er. Mér finnst gaman að standa í allskonar veseni, þegar það er svona mikið að gera. Upphaf sumarsins er skemmtilegasti tími ársins í sveitinni, finnst mér. Allt að lifna við eftir langan vetur.“ 


Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Jónínu og Gunnellu. Seinni hlutinn birtist á Akureyri.net á morgun.

Á MORGUN – VILJA HVERGI VERA NEMA Í SVEITINNI SINNI