Fótboltaæfing 'Allir með' í Boganum - MYNDIR

Síðasta fótboltaæfing sumarsins hjá 'Allir með' var haldin á mánudaginn var. 'Allir með' er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Þórs og KA, sem gengur út á að fjölga tækifærum fyrir börn með sérþarfir innan íþróttahreyfingarinnar. Síðastliðinn vetur voru inniæfingar í Naustaskóla þar sem ýmsar boltaíþróttir voru æfðar, en ákveðið var að prófa að bjóða upp á fótboltaæfingar í Boganum í sumar. Þröstur Ernir Viðarsson á 13 ára son sem er með þroskahömlun, en þeir feðgar eru mjög ánægðir með æfingarnar.
„Sonur minn hefur mikinn áhuga á fótbolta en hefur ekki getu fyrir hefðbundnar fótboltaæfingar og fúnkerar ekki í hóp með jafnöldrum sínum, þannig að hann var mjög spenntur fyrir að mæta á þessar æfingar,“ segir Þröstur. „Hann hleypur spenntur af stað á æfingarnar og er glaður eftir á.“
Áhersla á að það sé gaman og allir virkir
Margrét Árnadóttir, knattspyrnukona og leikmaður Þórs/KA, er yfirþjálfari á æfingunum. „Það hefur gengið mjög vel, það eru sirka 20 krakkar búnir að vera að mæta, mest höfum við haft 14 í einu. Flest sem hafa verið að mæta koma aftur og aftur, sem hlýtur að vera jákvætt. Aðallega höfum við lagt áherslu á að það sé gaman og að reyna að halda öllum virkum,“ segir Margrét. „Við erum að vinna með stöðvar þar sem eru grunnæfingar í fótbolta, þrautabraut og fleira. Það er svolítið frjálst flæði á stöðvunum, þannig að krakkarnir finni eitthvað við sitt hæfi.“
Hópefli og teygjur í lok æfingar með þjálfunum. Mynd: RH
Fótboltinn heillaði mest
Þröstur er sérstaklega ánægður með hvað það eru margir þjálfarar á breiðum aldri, en sonur hans tengdi fljótlega við þjálfara sem er ekki mikið eldri en hann sjálfur. „Það hentaði honum vel og það er gott að hafa þessa fjölbreytni,“ segir Þröstur. „Sonur minn var að mæta í Naustaskóla í vetur, en það hentaði honum eiginlega betur að mæta í sumar - þar sem það var markvissara sem bara fótbolti, og hann langar að æfa fótbolta. Hinar æfingarnar voru þannig að það var verið að prófa mismunandi íþróttir, sem er flott upp á að krakkarnir finni hvað þeim hentar.“
„Við vorum með æfingar í Naustaskóla síðasta vetur á sunnudögum frá 11-12, þar voru kynningar á ýmsum boltaíþróttum ásamt þrautabraut,“ segir Linda Guðmundsdóttir, íþróttafulltrúi Þórs, en hún hefur haldið utan um skipulag æfinganna. „Við erum að leggja lokahönd á hvernig fyrirkomulagið á æfingunum verður í vetur, verðum með æfingar á sama tíma í Naustaskóla og í fyrravetur. Stefnan er að að byrja með æfingar í október.“