Kúluhús risið ofan Akureyrar
Óvenjuleg bygging er risin rétt ofan Akureyrar, kúluhús, sem vekur athygli og forvitni vegfarenda. Að baki verkefninu standa hjónin Helga Björg Jónasardóttir, vöruhönnuður og kennari, og eiginmaður hennar, Jóhannes Már Jóhannesson, sölustjóri hjá Icefresh. Hjónin ætla sér að flytja inn í kúluna, sem fengið hefur nafnið Hvolf, seinni hluta árs 2026.
„Mig hefur alltaf langað til að byggja kúluhús. Ég veit ekki af hverju, þetta er bara einhver æskudraumur, ég hef alltaf heillast af hinu hringlaga formi og svo er ég líka bara almennt gefin fyrir það að hugsa út fyrir kassann í lífinu,“ segir Helga Björg spurð að því af hverju þau hjónin völdu þetta sérstaka form á húsið sem þau eru með í byggingu sem sitt framtíðarheimili í landi Hesjuvalla.
Á MORGUN – GAMALL DRAUMUR Í KÚLUHÚSI

Efri myndin er tekin sumarið 2025 þegar grindin var risin. Draumurinn er að geta klætt kúluna að utan með gróðri. Neðri myndin er tekin nú í desember af húsinu fokheldu.

Kúluhús dreifð um landið
Kúluhús eru ekki algeng á Íslandi en finnast þó hérlendis, flest eftir arkitektinn Einar Þorstein Ásgeirsson (1942–2015) sem þótti frumkvöðull í rúmfræðirannsóknum og byggingarformum sem byggja á þrívíðri formfræði. Kúluhús Einars eru dreifð um landið og finnast t.d. í Vestmannaeyjum, á Hellu, í Fellabæ við Egilsstaði, á Hofi í Vatnsdal, á Ísafirði og víðar. Eins má einnig finna innflutt kúluhús á landinu sem hafa t.d. verið nýtt í ferðaþjónustunni.
Áður en hjónin hófu framkvæmdirnar við sitt kúluhús segir Helga Björg að hún hafi heimsótt flest kúluhús landsins í leit að innblæstri og skoðaði húsin að innan og utan. Þetta var dýrmætt og gátu þau hjónin nýtt sér reynslu annarra við ákvarðanatöku hjá sér, t.d. ákváðu þau að hækka grunninn á húsinu sínu til að skapa meiri nýtingarmöguleika eftir ráð frá öðrum kúluhúsaeiganda.

Helga Björg segist hafa heimsótt flest kúluhús landsins í leit að innblæstri og skoðaði húsin að innan og utan. Þetta var dýrmætt og gátu þau hjónin nýtt sér reynslu annarra við ákvarðanatöku í sínu eigin kúluhúsi.
Vildu fá teikningar frá Einari Þorsteini
Helga Björg segir að upphaflega hafi þau Jóhannes ætlað sér að fá teikningar að húsinu sínu frá Einari Þorsteini. Þegar þau fóru að huga að þessum málum hafði Helga því samband við hann. Einar Þorsteinn var þá að flytja heim frá Berlín og sagði við hana að hann væri „að bíða eftir að fá teikningar sínar og búslóð“ til landsins og að þau gætu skoðað málið þegar það væri komið í hús. Ferlið tafðist hins vegar og Einar Þorsteinn lést áður en þau náðu að vinna áfram saman eða fá teikningar beint frá honum.
Eftir andlát Einars Þorsteins var Helga Björg í sambandi við dóttur hans sem veitti þeim leyfi til að nota teikningar eða efni frá Einari Þorsteini, ef eitthvað fyndist sem gæti nýst þeim, en verk Einars höfðu verið ánöfnuð Hönnunarsafni Íslands. Helga Björg segist hafa verið í góðu samtali við safnstjórann og fengið að fara yfir efni úr safninu en ekki fundið þar neitt sem nýttist þeim vel. Þau hafi því leitað til arkitektastofunnar Kollgátu á Akureyri og beðið þau um að teikna upp kúluhús frá grunni samkvæmt þeirra eigin hugmyndum, innblásið af hugmyndafræði Einars. „Kollgáta fékk ekkert sérstaklega frjálsar hendur með þetta verkefni,“ segir Helga og hlær. „Ég er náttúrlega vöruhönnuður og var með ákveðnar hugmyndir og skoðanir á þessu öllu. Þetta fór í nokkra hringi hjá okkur en við erum ánægð með útkomuna.“

Séð heim að Hesjuvöllum, gamla íbúðarhúsið til vinstri og kúluhúsið Hvolf til hægri. Mynd: Skapti
Flókið og dýrt ferli
Helga Björg segir að það hafi legið lengi fyrir að þau Jóhannes myndu byggja nýtt íbúðarhús á Hesjuvöllum. Þegar þau keyptu jörðina árið 2010 hafi þau valið hana vegna staðsetningarinnar og landsins en húsakosturinn hafi verið frekar lélegur. Jóhannes var í fyrstu ekki jafn áhugasamur og Helga Björg varðandi kúluhússhugmyndina, en eftir að þau fóru að kynna sér málið og skoða nokkur kúluhús eftir Einar Þorstein hafi hann smám saman heillast af hugmyndinni.
Að sögn Helgu Bjargar hafi kúluformið fyrst og fremst orðið fyrir valinu hjá þeim út frá fagurfræðinni og þessum gamla draumi hennar um að byggja kúluhús. „Það er bæði flóknara og dýrara að byggja kúluhús, frekar en hefðbundnar húsbyggingar, sérstaklega þegar fáir hafa reynslu af slíkum verkum. Það hafa alveg farið margir tímar í trial and error,“ segir Helga Björg og brosir.

Hjónin Helga Björg og Jóhannes eru búin að vera í endurbótum, skógrækt og tilraunum með landnýtingu í landi Hesjuvalla og um leið í einu óvenjulegasta húsverkefni sem sést hefur á þessum slóðum: kúluhúsi sem þau stefna á að flytja inn í árið 2026. Mynd: SNÆ
Formið brýtur vindinn betur
Kúluformið hefur þó ýmsa kosti. Þannig hafi hugmyndafræðin að baki kúluhúsunum, sérstaklega hjá Einari Þorsteini heitnum, verið sú að nýta form til að hámarka styrk, draga úr efnisnotkun og hugsa byggingar sem hluta af landslagi. Einn stærsti kostur kúluhúsanna, að mati Helgu Bjargar, tengist veðrinu. „Kúluformið brýtur vindinn mun betur en hefðbundin kassalaga hús, þar sem engir skarpir hornfletir taka á móti vindinum. Þetta skiptir miklu máli á opnum, vindasömum svæðum,” segir Helga Björg og bætir við að á Hesjuvöllum sé oft mjög sterk suðvestanátt, með vindsprengjum niður Glerárdalinn. Hjónin eru því mjög spennt að sjá hvernig kúluhúsið tekur á móti slíku veðri.
Eins stuðlar kúlulaga formið að jafnari hitadreifingu innandyra. Í þeirra húsi segir Helga Björg að verði gólfhiti og loftskiptikerfi með varmaendurvinnslu, þar sem loft á leið út hitar loft sem kemur inn. Þetta þýðir að það er alltaf ferskt loft innandyra, minni þörf sé á að opna glugga og kynding nýtist betur. Þá segir Helga Björg að gluggasetning í kúluhúsum sé mikilvæg og geti verið kostur ef hún er rétt hugsuð. Í þeirra tilfelli eru gluggar aðallega í austur og norður þar sem útsýnið er fallegast. Þannig fái þau morgunsól en forðist heita suðursól sem getur valdið ofhitnun. Á heildina litið séu því helstu kostir kúluhúsa að þau standist betur vind en hefðbundin hús, stuðli að jafnari hitadreifingu og bjóði upp á góða orkunýtingu. Formið henti vel við íslenskar aðstæður þó að byggingin sé bæði flóknari og dýrari en hefðbundin hús.

Verk í vinnslu sumarið 2025. Mynd: Aðsend

Kúluhúsið upplýst á aðfangadag 2025 Mynd: Aðsend
Veggpláss ekki vandamál
Talið berst að veggplássi innandyra og hvort það séu einhverjir beinir veggir í húsinu? Helga játar því og segir að kúluformið hafi fyrst og fremst áhrif á ytri skel hússins, innra skipulagið sé hefðbundnara en margir halda. Veggpláss er t.d. ekki það vandamál sem fólk oft ímyndar sér. „Svo þarf ekki endilega beina veggi til þess að koma listaverkum fyrir. Þau geta verið í lofti, í rýminu sjálfu eða jafnvel í formi myndbands- eða innsetningarverka,” segir Helga þegar blaðamaður spyr áhyggjufull hvar þau ætli eiginlega að koma öllum fallegu listaverkunum fyrir sem prýða núverandi stofu þeirra hjóna. En Helga hugsar í lausnum eða kannski frekar í hugmyndum og sér tækifæri í vandamálunum. „Það eru alltaf einhver ólæti í höfðinu á mér, “ segir Helga og bætir við að Jóhannes sé jarðbundnari og meti hvort hugmyndirnar séu framkvæmanlegar. Þau séu því gott teymi þó að ólík séu.
Akureyri.net ræðir nánar við Helgu Björgu um kúluhús þeirra hjóna á morgun.
Á MORGUN – GAMALL DRAUMUR Í KÚLUHÚSI