Vilja hvergi vera nema í sveitinni sinni

Það er gullin síðdegissól í Hörgársveit, þegar Gunnella og Jónína Helgadætur, systur og bændur á Syðri-Bægisá í Öxnadal, bjóða blaðamanni með í fjárhúsin. Einstaklega vel heppnaður sauðburður á bænum er að líða undir lok og túnin orðin fallega græn eftir óvenju mikla blíðviðristíð maímánaðar. Systurnar ætla að taka við búskapnum af foreldrum sínum á næstu árum, en þær verða þá fjórði ættliður bænda á Syðri-Bægisá, og miðað við spenninginn í börnum þeirra í kring um lömbin og kýrnar, er fimmta kynslóð að gera sig klára.
Þetta er seinni hluti viðtalsins við Jónínu og Gunnellu. Fyrri parturinn var birtur á Akureyri.net í gær
Í GÆR – SYSTURNAR SAMSTÍGA Í SAUÐBURÐINUM
Krakkarnir, Helena og Hafþór 5 ára og Steinar og Gunnar 3 ára, elska sauðburðinn og mega varla vera að því að sofa né mæta í leikskólann á þessum árstíma. Mynd RH
Aldrei stefnt á neitt annað en búskap
„Það var alltaf draumurinn að verða bóndi, það hefur ekkert annað komið til greina hjá mér,“ segir Jónína. „Ég er fjarnemi í búfræði við Landbúnaðarháskólann samhliða búskapnum, en ég er svo heimakær að ég ákvað að starfa heima með náminu. Námið tekur fjögur ár þegar maður tekur þetta ekki á staðnum. Ég fer reyndar fjórum sinnum á ári í staðarlotur, og það er alltaf mjög skemmtilegt. Það eru kostir við það, að vera að starfa samhliða náminu, vegna þess að ég lifi og hrærist í þessu á meðan og ég er alltaf að tengja námið við það sem ég er að gera heima í búskapnum.“
Það er bara of heitt og þær hanga í skugganum yfir daginn
„Það er dásamlegt að hafa svona gott veður á þessum tíma,“ segir Jónína. „Það er svo gott að koma lömbunum sem fyrst út á græn grös að fara að bíta, þau verða svo heilbrigð og dafna vel úti. Í fyrra komust þau út í tvær vikur í maí en voru sett aftur inn í byrjun júní vegna veðurs. Þá komu upp sjúkdómar og afföll í kring um það. Reyndar eru ekki bara kostir við þetta hitakast, það var ein kind hjá okkur um daginn sem fékk sólarofnæmi! Hún kom hlaupandi inn af túninu og lagðist inn. Við vorum bara heppin að hún var ekki langt frá bænum þegar þetta gerðist, en hún var stökkbólgin í framan og augun voru alveg horfin í bólgu. Hún fékk sprautu og er orðin góð núna, en augun eru eitthvað skemmd, því miður verður líklega að slátra henni í haust.“
„Annar ókostur við mikinn hita er að kindurnar fara minna á beit, þessa daga sem er 22 stiga hiti og sól,“ segir Jónína. „Það er bara of heitt og þær hanga í skugganum yfir daginn. Um leið og fer að kólna með kvöldinu þá hópast þær á túnið og bíta. Ég veit ekki hvort þetta hefur einhver áhrif, mér finnst þær svosem ekkert rýrna. Þetta er allavegana betra fyrir þær en stórhríð!“
Helena Vordís og Hafþór Dalmar eru hjálpsöm og fyrir þeim er ekkert skemmtilegra en sveitastússið. Nú þurfa einhver lömb að fá pela, og það stendur ekki á þessum ungu bændum. Mynd: RH
Fjárhúsin eru besti staðurinn
„Eldri krakkarnir okkar, Helena mín og Hafþór hennar Gunnellu, eru búin að vera mjög dugleg að hjálpa okkur þrátt fyrir að vera bara fimm ára,“ segir Jónína. „Þau hafa tekið á móti lömbum, flutt kindur á milli staða með okkur, verið að marka og allskonar. Þeim finnst óskaplega gaman og þau vilja alltaf frekar fara í fjárhúsin en að fara á leikskólann á morgnana.“ Þó að Gunnar og Steinar, þriggja ára guttarnir, séu ekki háir í loftinu, þá er það greinilegt að þeir eru boðnir og búnir í sveitaverkin líka.
Það er ansi tómlegt í fjárhúsunum núna, en það eru bara tvær óbornar og sauðburðurinn er að klárast í ár. Krakkarnir hafa meira að segja aðstoðað við burðarhjálp, en á hverju ári bætist í reynslubankann. Mynd: RH
Það þarf líka að gæta að fjósinu, en þar eru til dæmis kálfar sem þurfa að fá sitt hey. Aðalbúskapurinn á Syðri-Bægisá er mjókurframleiðsla. Mynd: RH
Mikil stefnumótun og skipulagsvinna í bændastarfinu
Búskapurinn er fjölþættur og það er í mörg horn að líta. Stór hluti þess, að reka búið, er skipulag og undirbúningsvinna. Þær systur eru miklir pælarar þegar kemur að því að skipuleggja starfið á bænum. „Ég hef mjög gaman af öllu sem snýr að þessum krefjandi verkefnum sem koma upp,“ segir Jónína. „Eins og burði og júgurheilbrigði. Ég spái líka mikið í pörunaráætlun og kynbótastarfi. Jarðvinnsla og heyskapur eru líka í miklu uppáhaldi.“
„Það er bara allt skemmtilegt! Það sem er kannski minna skemmtilegt er maður ekkert að spá í, það þarf bara að sinna öllu. Einnig finnst mér spennandi verkefni að koma inn verndandi geni gegn riðu í kindastofninn hér,“ segir Jónína, en það þarf að halda mörgum boltum á lofti á blönduðu búi.
Pabbi systranna, Helgi Bjarni Steinsson, stendur vaktina í fjósinu. Hann og kona hans, Ragnheiður M. Þorsteinsdóttir, sinna búskapnum með dætrum sínum. Mynd: RH
Gunnella með yngri son sinn, Gunnar Jökul. Hún er búin að ákveða að vera bóndi, þó að hún segi ýmsa óvissuþætti vera fyrir hendi varðandi framtíðarhorfur bændastéttarinnar. Mynd: RH
Óvissa og innflutningur valda ugg
„Mér finnst innflutningur búvara svolítið ógnvekjandi,“ segir Jónína, aðspurð um framtíðarhorfur fyrir bændastéttina að hennar mati. „Eins með afurðarstöðvarnar, nú vorum við til dæmis í óvissu varðandi hvert við sendum í slátrun í ár. Það er búið að loka á Blönduósi, þangað sem við höfum sent síðustu 25 árin eða svo. Við höfum komist að á Húsavík í ár. Óvissa er alltaf óþægileg.“
„Ég held reyndar að mjólkin okkar, ostarnir og lambakjötið séu dæmi um vörur sem eru ekkert að fara að hverfa út af innflutningi á öðru,“ segir Jónína. „Þetta er gæðavara sem við þekkjum og kunnum að meta. Íslenska skyrið, smjörið og íslenska mjólkin. Þó að verðið myndi hækka eitthvað og ódýrt, erlent kæmi í kælana í auknum mæli, held ég að fólk myndi ekkert hætta að kaupa íslenskt. En maður veit aldrei. Ef tollar yrðu felldir niður til dæmis, þá yrði það skelfilegt fyrir íslenskan landbúnað.“
Helena Vordís er fimm ára, og hún segir við blaðamann að hún ætli alltaf að vera bóndi. Hún er spennt fyrir heyskap og næstu daga ætlar hún að setja niður kartöflur. Mynd: RH
Gunnella líklegri í stjórnmálin
Jónína þvertekur fyrir að hún ætti að tala máli bændastéttarinnar á stjórnmálasviðinu, en hún segir að systir sín væri hins vegar tilvalin til þess. „Gunnella ætti að fara í pólitíkina,“ segir hún með mikill sannfæringu. „Hún er alveg með röddina í þetta, ég er alltaf að segja við hana að hún ætti að fara í sveitarstjórn og svo bara lengra. Hún kemur hlutunum vel frá sér.“
Ég hugsa alveg stundum hvað sé að fólki, að veðja á þetta, hér eru ekki stöðugar tekjur
Gunnella gengst alveg við því, að vera pólitísk, og er til í að ræða aðeins um horfurnar í íslenskum landbúnaði. „Ég hef líka áhyggjur af innfluttum matvælum,“ segir hún. „Þau eru ódýrari og framleiðslukostnaðurinn hjá okkur er eðlilega meiri, þar sem við erum svo fá. Því meira sem er flutt inn, verður maður óöruggari. Það að vera bóndi í dag, er ekki hálaunastarf. Það er svo mikill kostnaður á móti, og svo ekki sé talað um að það er alltaf hætta á einhverjum sveiflum. Stundum vegna einhvers sem er ekkert á þínu valdi, eins og kalinna túna vegna veðurfars.“
Túnin eru orðin fallega græn eftir hlýindin undanfarið. Tvær kindur með ungviðið sitt rölta um veisluborðið og njóta síðdegisins. Í slæmri tíð geta túnin kalið, eins og hefur gerst á sumum bæjum, sem getur haft mikinn kostnað í för með sér. Mynd: RH
Upplifir samheldni og einhug meðal bænda
„Bændur hafa ekkert upp á að hlaupa til þess að mæta óvæntum kostnaði, annað en að lækka launin sín,“ segir Gunnella. „Ég hugsa alveg stundum hvað sé að fólki, að veðja á þetta, hér eru ekki stöðugar tekjur. Ég held að flestir í bændastéttinni séu mjög samstíga reyndar, varðandi hvað þarf að gera til þess að atvinnugreinin hrynji ekki, og samtalið er mjög virkt. Fólk vill ekki ganga í ESB, sem dæmi, mér finnst vera einhugur um það,“ segir Gunnella að lokum, og það verður gaman að sjá, hvort að hún láti til sín taka í framtíðinni í réttindabaráttu bænda á Íslandi.
Þangað til er að minnsta kosti nóg að gera við girðingarvinnu, sauðburð, foreldrahlutverkið og daglegt amstur í sveitinni, þar sem þeim systrum líður best.
Gaman er að segja frá því að Syðri-Bægisá var valin fyrirmyndarbýli Landssambands kúabænda árið 2019, en foreldrar systranna eru þau Ragnheiður M. Þorsteinsdóttir, frá Þverá í Öxnadal, og Helgi Bjarni Steinsson sem er þriðji ættliður bænda á Syðri-Bægisá í beinan karllegg. Afi hans og amma keyptu jörðina árið 1918.
Þetta var seinni hluti viðtalsins við Jónínu og Gunnellu. Fyrri parturinn var birtur á Akureyri.net í gær
Í GÆR – SYSTURNAR SAMSTÍGA Í SAUÐBURÐINUM
Það eru allskonar geggjaðar græjur í sveitinni, og guttarnir eru eflaust spenntir fyrir þeim degi, sem þeir ná niður í pedalana. Mynd: RH
Blaðamaður kveður systurnar og krakkana í fjósinu, en heyrir kallað þegar hún er komin út. Þá gleymdi meistari Hafþór að kveðja og deyr nú ekki ráðalaus, heldur kastar kveðju undan rennihurðinni á fjósinu. Mynd: RH