Fara í efni
Umræðan

Versta aðstaða íþróttafélaga á Akureyri

Undanfarnar vikur hafa verið að birtast pistlar frá íþróttafélagunum Þór og KA um aðstöðu- og metnaðarleysi bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar þegar kemur að íþróttamannvirkjum bæjarins. Mikið hjartanlega er ég sammála þeim skrifum. Ég held það megi segja að nær öll íþróttafélög bæjarins búi við lakan kost þegar kemur að aðstöðu, eða réttara sagt aðstöðuleysi.

Í skýrslu starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar sem birt var 2019 segir orðrétt: „Í íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA kemur fram að íbúar eru almennt ánægðir með þá aðstöðu sem er til staðar en skort hefur langtímastefnumótun í uppbyggingu íþróttamannvirkja.“ Nú veit ég ekki við hverja var rætt eða hvaðan þessi staðhæfing er komin en þetta er ekki viðhorf þeirra sem æfa íþróttir eða talsmanna félaganna í bænum.

Að þessu sögðu langar mig til að ræða aðeins þá aðstöðu sem Sundfélagið Óðinn hefur mátt búa við síðustu áratugina. Það er mitt mat að sundfélagið er það félag sem má búa við verstu aðstöðu íþróttafélaga hér í bæ. Félagið hefur enga aðstöðu fyrir rekstur sinn, aðra en eitt herbergi á efri hæð Laugargötu 31, en sú aðstaða er nú ekki upp á marga fiska og væri gaman að vita hvert álit heilbrigðiseftirlitsins væri á þeirri aðstöðu. Þegar félagið heldur einhverja viðburð s.s. stjórnarfundi, foreldrafundi, uppskeruhátíð eða aðra viðburði, sem ekki fara fram í vatni, þarf félagið að leigja aðstöðu eða óska eftir að fá að nýta aðstöðu annarstaðar t.d. í skólum bæjarins. Ef við horfum á æfingaaðstöðu félagsins þá eru það Glerárlaug sem er 16m innilaug og hefur verið notuð fyrir yngstu iðkendur félagsins. Sú aðstaða er fyrir löngu sprungin sem gerir það að verkum að langir biðlistar hafa myndast, undanfarin ár, fyrir þau börn sem vilja komast i kynni við vatnið og ná tökum á sundinu áður en skólaganga hefst. Hin æfingaraðstaða félagsins er Sundlaug Akureyrar, þar sem félagið hefur aðgang að 25m útilaug með 6 brautum. Það eru ekki nema ca. 2 ár síðan að það fékkst í gegn að félagið fékk aðgang að öllum brautum svokallaðar „köldu laugar“ á æfingum. Fyrir þann tíma var félagið með aðgang að 4 brautum því almenningur þurfti einnig að hafa aðgang að brautunum. Það fyrirkomulag leiddi oftar en ekki til árekstra við „fastagesti“ laugarinnar og þá sem vildu geta synt sér til heilsubótar. Í dag er staðan þannig að þetta kar er lokað almenningi kl. 16:00-20:00 alla virka daga. Það þýðir bara eitt, fólkið af götunni getur ekki mætt seinnipart dags og synt því engin önnur aðstaða er í boði. Á hverju ári þarf félagið að semja um þá fjölda tíma sem úthlutaðir eru til æfinga og í dag er tímafjöldinn þannig að ekki er hægt að bæta við iðkendum því félagið hefur ekki fleiri tíma til afnota í lauginni. Sundlaug Akureyrar á að heita heimavöllur Óðins. En eins og þið sjáið af skrifum mínum hér að ofan þá hefur félagið einungis aðgang að hálfum heimavelli…já, ég vil meina að þetta er bara hálfur völlur því iðkendur félagsins þurfa að deila honum og allri aðstöðu með öllum þeim sem sækja laugina OG öllum þeim ferðamönnum sem koma í bæinn og vilja svamla í einni flottustu útilaug landsins. Þar sem þetta er heimavöllur sundfélagsins er þetta sú aðstaða félagsins til að halda sundmót. Ef mótið er stærra en bara innanfélagsmót og fleiri lið mæta til þátttöku er aðstaðan gjörsamlega sprungin. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þetta er á góðum vordegi þegar sólin skín og allir vilja njóta góða veðursins á bökkum laugarinnar líkt og gerðis í júní sl. þegar Aldursflokkameistaramót Íslands var haldið á Akureyri. Það mættu um 250 keppendur til leiks frá 20 félögum ásamt þjálfurum og fjölskyldum keppenda sem stóðu á bakkanum til þess að hvetja sitt fólk. Á sama tíma var um 20°C hiti í bænum og bærinn fullur af ferðamönnum. Það er eiginlega hægt að lýsa þessari aðstöðu eins og ef N1 mótið yrði haldið á KA vellinum en liðin fengju bara að nota helminginn af þeirri aðstöðu sem þau hafa í dag því það verður að vera aðstaða fyrir aðra gesti bæjarins að geta leikið sér í fótbolta á sama tíma. Efast um að það færi vel í mótshaldara N1 mótsins.

Sundíþróttin er vetraríþrótt og er æfingatímabilið frá september til júní. Þetta þýðir að yfir köldustu og svörtustu vetrarmánuðina stendur þjálfarinn á bakkanum og þarf nánast að giska á hvað iðkendurnir eru að gera því myrkrið og uppgufunin frá lauginni veldur því að erfitt er að sjá hvað er að gerast úti í miðri laug. Ef frostið fer niður fyrir -10°C þarf að aflýsa öllum æfingum og á Akureyri gerist það ansi oft. Það hefur komið fyrir að iðkendur hafa ekki náð að æfa í nokkra daga í röð, jafnvel viku og hafa síðan átt að mæta á mót. Þetta er bara ekki boðlegt! Ekki í sundi, fótbolta, handbolta, körfu, eða hvað sem Íþróttin heitir.

Þegar kemur að sundmótum er tímabilinu skipt upp í 25m mót fyrir áramót og 50m mót eftir áramót. Eftir áramót en semsagt aðallega keppt í 50m sundlaugum. Iðkendur sundfélagsins Óðins hafa engin tök á að æfa fyrir þau mót öðruvísi en í 25m laug. Þetta getur oft orðið til þess að yngstu keppendur félagsins hrökklast úr liðinu þegar þau mæta á sitt fyrsta stóra mót í febrúar en þá er Gullmót KR haldið. Þangað mæta krakkar frá 10 ára aldri og er þetta oft þeirra fyrsta mót í annarri laug en Akureyrarlaug. Þau börn eru kannski búin að æfa sund í 2-3 ár, alltaf í 25m laug en þarna mæta þau og eiga allt í einu að synda í 50 metra sundlaug. Það sér hver maður í hendi sér ef handboltinn hefði einungis hálfan völl til að æfa sig í en eiga svo að spila á heilum velli. Undirbúningur liðsins er allt, allt annar og varla verður liðið samkeppnishæft við önnur lið. Sú staða er í sundinu, iðkendur sundfélagsins eru að keppa við félög sem hafa aðgang að 50m innisundlaug við fullkomnustu aðstæður.

Í dag er Sundfélagið Óðinn eitt af stærstu sundfélögum landsins og er verið að vinna gríðarlega flott starf í félaginu. Því miður þá bíður aðstaðan ekki upp á að vera með almennilegt afreksstarf og því verður það til þess að allt efnilegasta sundfólkið neyðist til að fara frá félaginu og flytjast til Reykjavíkur, eða erlendis, til að geta fengið æfingu við hæfi. Ég geri mér alveg grein fyrir því að staða bæjarins er flókin og erfitt er bæta aðstöðu allra félaga á einu bretti en það má samt ekki loka augunum fyrir því að Sundfélagið Óðinn er með eina að verstu æfingaraðstöðu bæjarins og er félagið búið að vera að berjast fyrir stöðu sinni í tæp 60 ár. En í ágripi af 30 ára sögu Óðins skrifaði Jóhann Möller þessi orð: „Ánægjulegt er til þess að vita að á 45 ára afmælinu stendur félagið traustum fótum og starfsemin með öflugasta móti. Iðkendur hafa aldrei verið fleiri og gætu reyndar verið enn fleiri ef meira rými væri fyrir hendi í sundlaugum bæjarins. Sá þáttur hamlar helst starfseminni um þessar mundir. Er sorglegt til þess að vita að bæði séu biðlistar af krökkum sem langar að byrja æfa sund og að þeir sem fyrir eru fái ekki það rými sem þeir þurfa til að ná árangri. ...en forráðamenn íþróttamála í bænum hafa ekki enn gert sér grein fyrir því að olnbogabarnið sem skreið af stað 12. september 1962 hefur nú slitið barnsskónum.“ Því tel ég að nú sé komið að því að Akureyrarbær opni augun og geri sér grein fyrir að Sundfélagið Óðinn er eitt af stærstu íþróttafélögum bæjarins og að nú sé loks komin tími á að félagið fá að stækka enn frekar.

Í lokin vil ég taka það fram að þetta er einungis mín skoðun á þessu máli en ekki skrifað í nafni Sundfélagsins!

Fannar Geir Ásgeirsson er í stjórn sundfélagsins Óðins.

Hvert er sveitarfélagið að stefna?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
04. desember 2023 | kl. 11:55

Fyrsti þjónustusamningur Akureyrarbæjar við Grófina geðrækt!

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 15:45

Sammála en þó á móti

Jón Hjaltason skrifar
20. nóvember 2023 | kl. 17:40

Áhugaverð hugmynd að nýtingu Tjaldsvæðisreitsins

Benedikt Sigurðarson skrifar
18. nóvember 2023 | kl. 15:00

Vakning um ofbeldi gagnvart verslunarfólki

Eiður Stefánsson skrifar
17. nóvember 2023 | kl. 12:35

Erfið staða bænda nú er okkur sem samfélagi að kenna

Hólmgeir Karlsson skrifar
15. nóvember 2023 | kl. 10:00