Þórsarar á toppinn? – KA-menn leika í Eyjum

Karlalið bæjarins í knattspyrnu leika bæði í dag á Íslandsmótinu. Þórsarar taka á móti Keflvíkingum í Boganum kl. 14.00 og á sama tíma hefst leikur ÍBV og KA í Vestmannaeyjum.
Viðureign ÍBV og KA er í sjöundu umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins. Tveir aðrir leikir eru á dagskrá í dag og umferðinni lýkur á morgun.
Fjórir leikir fór fram í gær í þriðju umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins, og tveir síðustu verða í dag, auk leiksins í Boganum mætast Þróttarar og Grindvíkingar í Laugardalnum
- Lengjudeild karla í knattspyrnu
Boginn kl. 14:00
Þór - Keflavík
Þórsarar eru með fjögur stig að tveimur leikjum loknum; gerðu jafntefli heima gegn HK og unnu Leikni í Reykjavík. Njarðvík, Fylkir, HK og ÍR eru öll með fimm stig eftir þrjá leiki þannig að með sigri geta Þórsarar farið á toppinn. Það geta Þróttarar einnig, þeir eru líka með fjögur stig.
Keflvíkingar eru stigi á eftir Þórsurum þannig að vinni gestirnir í Boganum í dag færu þeir á toppinn svo fremi Þróttarar fagni ekki sigri. Keflvíkingum var spáð 2. sæti í deildinni fyrir leiktíðina, af fyrirliðum og þjálfarum í deildinni, og Fylki 1. sæti. Keflavík sigraði Fjölni á útivelli í fyrstu umferð en tapaði síðan heima fyrir Þrótti. Í nefndri spá voru Þórsarar settir í 5. sæti. Þeir hafa byrjað af krafti og búast má við spennandi leik í Boganum í dag.
- Þórsarar auglýsa upphitun í Hamri frá kl. 12. Þar verður plötusnúður, grill og andlitsmálun fyrir börnin
KA-menn hafa verið í mótbyr í upphafi Bestu deildarinnar og eru neðstir með aðeins fjögur stig eftir sex leiki. Þeir gerðu jafntefli við KR heima í fyrstu umferð og unnu FH á heimavelli í 4. umferð en hafa tapað fyrir Víkingum, Valsmönnum og Skagamönnum á útivelli og fyrir Breiðabliki heima.
- Besta deild karla í knattspyrnu
Þórsvöllur kl. 14:00
ÍBV - KA
KA hefur gert sex mörk í jafn mörgum leikjum en fengið á sig 15 þannig að lykilatriði er að bæta varnarleik liðsins. ÍBV er með sjö stig að sex leikjum loknum; Eyjamenn Fram og Stjörnuna, gerðu jafntefli við Aftureldingu en töpuðu fyrir Víkingi, Vestra og KR. Þá komst ÍBV í átta liða úrslit bikarkeppninnar í vikunni með sigri á KR í Reykjavík.
Ekki munar nema þremur stigum á KA og ÍBV þannig að nái KA-strákarnir að gyrða sig í brók og vinna í dag verða þeir jafnir Eyjamönnum að stigum.
Leikur ÍBV og KA verður sýndur beint á Stöð2 Sport5


Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“

75 ár af evrópskri samheldni og samvinnu

Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu í Víðilundi
