Fara í efni
Umræðan

Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

Það var ánægjulegt að sækja fund hjá Félagi eldri borgara á Akureyri (EBAK) síðastliðinn föstudag. Rétt rúmlega hundrað manns mættu – áhugasamir, upplýstir og málefnalegir. Þar skapaðist gott samtal um þau mál sem brenna mest á eldra fólki í dag. Ábendingar komu víða að og spurningarnar voru margar og skýrar. Það var sérstaklega áberandi að umræðan snerist ítrekað að sömu kjarnamálunum: skerðingum, lífeyrissjóðum en einnig að heilbrigðisþjónustu.

Heyrnartæki – ekki munaður heldur nauðsyn

Þegar fólk eldist verður þörfin fyrir hjálpartæki meiri, rætt var um frekari niðurgreiðslu á gleraugum, tannviðgerðum en oftast kom upp staða heyrnartækja og niðurgreiðslur þeim tengdum. Það er ekki sjálfgefið að hafa efni á góðum heyrnartækjum, sem kosta oft hundruð þúsunda króna og þurfa að endurnýjast reglulega. Samt er það svo að góð heyrn skiptir öllu máli fyrir þátttöku, samskipti og lífsgæði.

Jafnrétti til þátttöku í samfélaginu

Það þarf ekki langa umfjöllun til að átta sig á að aðgengi að heyrnartækjum er jafnréttismál. Ef einstaklingar á efri árum hafa ekki tök á að fjármagna þessi nauðsynlegu hjálpartæki, er verið að útiloka fólk frá eðlilegri þátttöku í samfélaginu – í samtölum, fjölskyldusamskiptum, félagsstarfi og fleiru. Þetta hefur áhrif á líðan og getur leitt til félagslegrar einangrunar sem við viljum öll forðast.

Þess vegna verðum við að skoða hvort hægt sé að gera betur í þessum efnum. Horfa til annarra landa, til dæmis má líta til Bretlands. Þar sjá einkaaðilar um heyrnarmælingar, sjónmælingar og greiningar, en ríkið tekur stærri þátt í kostnaði við hjálpartækin sjálf. Slík skipting getur létt á opinbera kerfinu, aukið framboð og stuðlað að betri þjónustuen ekki síður aukið tækifæri til frekari niðurgreiðslu – svo fremi sem gæði og aðgengi eru tryggð.

Hagræðing sem skilar sér í auknum stuðningi

Þetta er ekki eingöngu spurning um þjónustu – heldur líka um skilvirkni og hagkvæmni. Með því að nýta sérþekkingu og innviði í kerfinu öllu, líkt og gert er í Bretlandi og víðar, væri unnt að veita þjónustuna hraðar og víðar – og á sama tíma nota þá fjármuni sem sparast til að greiða niður heyrnartæki sjálf í auknum mæli. Slík hagræðing myndi gera ríkisvaldi kleift að styðja betur við eldri borgara, sérstaklega þá sem eru tekjulágir, án þess að auka heildarkostnað í kerfinu.

Við þurfum að ræða þetta opinskátt, lausnamiðað og finna leiðir sem virka í íslensku samhengi. Hvort sem það felst í aukinni niðurgreiðslu, breyttri skiptingu á þjónustu og tækjum, reglulegri skimun, samstarfi við einkaaðila eða öðrum lausnum – þá er ljóst að það þarf að bregðast við. Fólk á ekki að þurfa að velja á milli grunnþarfa og þess að geta tekið þátt í samtali við barnabörn sín.

Við í Framsókn höfum talað skýrt fyrir því að setja málefni eldri borgara í forgang – og það gerum við með því að hlusta, mæta til samtals og vinna með þeim upplýsingum sem komafrá fólkinu í landinu. Fundurinn með EBAK var skýr áminning um að margt hefur tekist vel, mörg mál eru enn óleyst – en líka vitnisburður um mikinn vilja fólks til að leggja sitt af mörkum til að leysa þau.

Við ætlum að fylgja málum eftir. Við ætlum að vinna með eldra fólki og félagasamtökum þeirra. Og við ætlum að styðja við öll málefnaleg og framkvæmanleg skref sem miða að bættum kjörum og þjónustu þessa hóps.

Heyrn er ekki munaður. Hún er forsenda fyrir þátttöku – og þátttaka er lífsgæði.

Ingibjörg Isaksen er þingflokksformaður Framsóknar

Fundur með eldri borgurum á Akureyri

Sigurjón Þórðarson skrifar
16. maí 2025 | kl. 16:30

„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
11. maí 2025 | kl. 20:00

75 ár af evrópskri samheldni og samvinnu

Clara Ganslandt skrifar
09. maí 2025 | kl. 16:30

Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu í Víðilundi

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson skrifa
08. maí 2025 | kl. 13:45

Líflínan

Ingibjörg Isaksen skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:00

Samstaða, kjarkur og þor

Björn Snæbjörnsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 15:00