Þór/KA í humátt á eftir toppliðunum

Þór/KA sigraði Fram 3:1 í dag á útivelli í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðið er því með 12 stig og í fjórða sæti að sex umferðum loknum. Toppliðin, Breiðablik og Þróttur, eru með 16 stig og FH er í þriðja sæti, einu stigi á undan Þór/KA.
Sigurinn var mjög sanngjarn því Þór/KA var sterkara liðið stærstan hluta leiksins. Framarar ógnuðu nokkrum sinnum og hefðu getað skorað meira en „Stelpurnar okkar“ hefðu sannarlega getað gert það líka.
- 0:1 – Þór/KA náði forystu á 20. mínútu eftir hraða sókn. Sonja Sigurðardóttir sendi boltann hárnákvæmt inn fyrir vörn Fram, Amalía Árnadóttir náði að skjóta framhjá markverðinum sem kom langt út á móti, boltinn fór í stöngina fjær og út í markteiginn en Amalía var fyrst á vettvang og skoraði. Þetta var hennar fyrsta mark í efstu deild Íslandsmótsins.
- 0:2 – Hálftími var liðinn þegar Þór/KA skoraði aftur. Sandra María Jessen fékk frábæra sendingu fram vinstri kantinn frá bakverðinum Henríettu Ágústsdóttur, lék inn í vítateig og sendi boltann í netið, á milli nærstangarinnar og markvarðarsins. Afar vel gert hjá Söndru Maríu.
Fáránlegt brot
Óhjákvæmilegt er að nefna að aðeins mínútu eftir að Sandra María skoraði braut Framarinn Alda Ólafsdóttir illa á Henríettu úti á miðjum velli og var áminnt með gulu spjaldi. Segja má að Alda hafi verið heppin að sleppa með gult fyrir fáránlegt og gróft brot; hún elti Henríettu uppi og þrumaði hana niður. Leikurinn var stöðvaður drjúga stund á meðan stumrað var yfir Henríettu, hún hélt áfram leik en var skipt af velli þegar aðeins rúm mínúta var liðin af seinni hálfleik.
- 1:2 – Murielle Tiernan minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks með föstu skoti af stuttu færi eftir langa aukaspyrnu inn á teig.
- 1:3 – Sandra María skoraði aftur á 60. mínútu. Hægri bakvörðurinn, Angela Mary Helgadóttir, sendi boltann glæsilega utan af kanti inn á vítateig þar sem Sandra María skaust fram fyrir varnarmann og skallaði í fjærhornið. Frábærlega gert.
Sandra María, markadrottning og besti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra, skoraði ekki í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar í ár en nú er allt orðið hefðbundið á ný. Í raun skiptir ekki máli hver kemur boltanum í markið í leikjum, svo lengi sem Þór/KA vinnur, en í stóra samhenginu er samt mikilvægt að Sandra María skori. Þá líður örugglega öllum betur en ella ...
Næsti leikur Þórs/KA er gegn Stjörnunni á heimavelli næsta laugardag og síðan sækja stelpurnar Þróttara heima í Laugardalinn, laugardaginn 7. júní.


Heyrn er ekki munaður – hún er þátttaka

„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“

75 ár af evrópskri samheldni og samvinnu

Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu í Víðilundi
