Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu í Víðilundi

„Aldur er bara tala“ – ætti sannarlega að vera viðhorf hverrar manneskju í dag, enda viljum við búa þannig um hnútana að allir geti verið virkir og hraustir í sínu lífi, eins og framast er unnt. Aftur á móti, þegar kemur að ýmsum lykilþáttum í uppbyggingu samfélagsins, þá á sama viðhorf kannski ekki alveg við. Jú, aldur er ekkert annað en tala (sem breytist einu sinni á ári, og ekkert við það að athuga), en hópur eldri borgara á Akureyri er hins vegar ört stækkandi og það er tölfræði sem má ekki hundsa!
Með fjölguninni fylgja bæði áskoranir og tækifæri til að skapa betri lífsgæði fyrir alla sem vilja njóta lífsins við góða heilsu fram á efri ár. Þess vegna lögðum við áherslu á það, fyrir síðustu kosningar, að efla félagsmiðstöðvar eldri borgara og stækka þjónustukjarnana. Til að fylgja þessum áherslum eftir þá lögðum við fram tillögu, við upphaf kjörtímabilsins, um stækkun á samkomusalnu í félagsmiðstöðinni Birtu. Tillögunni var því miður hafnað. Meirihluti bæjarstjórnar hefur í staðinn boðið eldri borgurum að nýta sal Naustaskóla. Þetta getur verið ágætis lausn í einhverjum tilvikum en samrýmist hins vegar illa því starfi sem er unnið þar á dagvinnutíma.
Löngu tímabærar endurbætur
Félag eldri borgara (EBAK) hefur verið ötult við að minna á sig og minna á þörfina fyrir bætta aðstöðu. Ef ekki gengur að stækka samkomusalinn í Birtu, þá er tími til kominn að skoða aðra möguleika í stöðunni og vinna slíkt hratt og örugglega. Annar kostur er að horfa til aðstöðunnar í félagsmiðstöðinni Sölku í Víðilundi. Þar hefur lengi verið ákall um að bæta vinnurýmin í kjöllurum húsanna og um leið bæta aðgengis- og öryggismál. Til að bregðast við þessu ákalli, þá munum við leggja það til á næsta bæjarstjórnarfundi að stofnaður verði vinnuhópur, með öllum hlutaðeigendum, um bætta félagsaðstöðu í Víðilundi.
Eitt af meginverkefnum hópsins verður að framkvæma forathugun á aðstöðunni, eins og hún er í dag, og skoða lausnir sem tengja saman í einni framkvæmd; stækkun á matsal, endurbætur á félags- og vinnuaðstöðu í kjöllurum, og betri útiaðstöðu með öruggu aðgengi. Í þessari vinnu mætti t.d. meta hversu hagkvæmt það sé að reisa nýja viðbyggingu út frá matsalnum, sem tengir þá um leið kjallara húsanna (en þeir eru aðskildir í dag). Í slíkri framkvæmd mætti koma fyrir sameiginlegri lyftu, og hugsanlega grafa kjallarana upp að hluta og tengja þannig félagsaðstöðuna við útisvæðið.
Allt eru þetta auðvitað útfærsluatriði sem þyrfti að vinna í nánu samstarfi við húsfélögin í Víðilundi og EBAK.
Maður er manns gaman
Ljóst er að þörfin fyrir öfluga og aðgengilega félagsaðstöðu fyrir eldri borgara á Akureyri mun bara halda áfram að aukast. Félögum í EBAK hefur fjölgað um 40% á síðustu þremur árum (eru nú um 2800 talsins) og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar mun fólki 60 ára og eldri fjölga um 37% á næstu 20 árum á Akureyri.
Þessi þróun kallar sannarlega á framsýna og markvissa stefnumótun af hálfu sveitarfélagsins þegar kemur að uppbyggingu félagsaðstöðu – og að orðum fylgi gjörðir.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson eru bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri


Samstaða, kjarkur og þor

Um nesti, fótbolta og fótbolta kvenna

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar

Bjánarnir úti á landi
