Fara í efni
Umræðan

Styrkari heilbrigðisþjónusta á Norðurlandi

Í heilbrigðisumdæmi Norðurlands bjuggu árið 2020 36.751 manns. Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) og Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) sinna heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi. HSN stýrir heilbrigðisþjónustu í umdæminu en SAk er sérgreinasjúkrahús fyrir Norður- og Norð-Austurland. Fjármagn til HSN hefur á kjörtímabilinu, þ.e. árunum 2017-2021, aukist um 12,9% skv. fjárlögum, án launa- og verðlagshækkana, þ.e. á föstu verðlagi, og sambærileg aukning á fjármagni til SAk er um 9%. Með auknu fjármagni er mögulegt að veita enn betri þjónustu til handa íbúum umdæmisins.

Sterk heilbrigðisstofnun

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) sinnir allri heilsugæsluþjónustu á svæðinu frá Þórshöfn í austri til Blönduóss í vestri. Starfsemin er á sex meginstarfsstöðvum, þ.e. á Húsavík, Akureyri, Dalvík, í Fjallabyggð, á Sauðárkróki og Blönduósi. Heilsugæslustöðvar og heilsugæslusel HSN eru samtals 17 talsins.

Þá rekur HSN sjúkra-, hjúkrunar- og dvalarrými á Húsavík, í Fjallabyggð, á Sauðárkróki og Blönduósi.

Heilsugæsluþjónusta hefur verið styrkt á kjörtímabilinu, til dæmis með auknu fjármagni í heilsueflandi heimsóknir og heilsueflandi móttökur. HSN hefur unnið að innleiðingu heilsueflandi móttaka á öllu starfssvæðinu en markmið þeirra er að tryggja eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt og langvinn heilsufarsvandamál þverfaglega og heildstæða heilbrigðisþjónustu og innleiða skipulagða heilsuvernd fyrir aldraða. Til þessa verkefnis hefur HSN fengið 24,2 milljónir. Sérstök áhersla hefur einnig verið lögð á þjónustu við þau sem eru með sykursýki í heilsugæslunni.

Úrbætur á húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri

Lengi hefur verið kallað eftir úrbótum á húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri. Mikil þörf var á því bregðast við þeirri stöðu, bæði til að bæta starfsumhverfi starfsmanna og laða að starfsfólk - en ekki síður til að skapa betri möguleika til að veita sem besta þjónustu. Á þessu kjörtímabili var ákveðið að bregðast við þessu ákalli og niðurstaðan var að opna tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri.

Annars vegar er þar um að ræða nýja byggingu fyrir Heilsugæslu suður en útboð er fyrirhugað á næstu vikum. Hins vegar er það nýtt húsnæði fyrir Heilsugæslu norður sem verður í leiguhúsnæði. Miklar væntingar eru bundnar við þá umbyltingu sem þetta nýja húsnæði mun hafa í för með sér á starfsaðstæðum og möguleikum til að mæta betur þjónustuþörfum skjólstæðinga heilsugæslunnar.

Endurbætur á húsnæði HSN

Hvað aðrar endurbætur á húsnæði HSN varðar þá standa framkvæmdir við nýtt stigahús við sjúkrahúsið á Húsavík yfir, auk standsetningar á herbergjum þar, en HSN fékk 200 milljóna króna framlag til nýframkvæmda og endurbótaverkefna. Þessar breytingar munu bylta aðstöðu sjúklinga. Einnig er unnið að endurbótum á 2. og 3. hæð á sjúkrahúsinu á Siglufirði.

Efling geðheilbrigðisþjónustu

Sálfræðingum innan HSN hefur fjölgað úr 4.35 stöðum 2016 í 9,2 stöður árið 2021, auk þess sem geðheilsuteymi hefur tekið til starfa innan HSN. Þessar breytingar eru til þess fallnar að efla geðheilbrigðisþjónustu á svæðinu til muna.

Þjónusta við aldraða

Í heilbrigðisumdæmi Norðurlands eru um 383 hjúkrunarrými alls og 49 dvalarrými, í níu byggðakjörnum. Í umdæminu hefur verið unnið að því að bæta aðbúnað íbúa og breyta fjölbýlum í einkarými. Nú er unnið að undirbúningi byggingar nýs 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík. Samkeppni um hönnun húsnæðisins er lokið og er áætlað að nýtt heimili verði tilbúið til notkunar á fyrri hluta árs 2024. Hið nýja hjúkrunarheimili mun leysa af hólmi þau rými sem nú eru í hjúkrunarheimilinu Hvammi, en það húsnæði uppfyllir ekki nútímakröfur um aðbúnað, enda fluttu fyrstu íbúar þangað fyrir 40 árum.

Á Akureyri er unnið að byggingu 60 nýrra rýma sem verður hrein viðbót við þann fjölda hjúkrunarrýma sem fyrir er í bænum. Það heimili á einnig að opna á árinu 2024.

Ég hef á tímabilinu stutt við nýsköpunar- og þróunarvinnu í þjónustu við aldraða á Norðurlandi. Má þar nefna þróunarverkefni um sveigjanlega dagþjálfun sem starfsrækt hefur verið frá febrúar 2019 á Akureyri og hefur gefist mjög vel. Samið var um að nýta rekstrarheimildir 10 hjúkrunarrýma til að fjölga þjónustustundum í dagþjálfun. Með þeim hætti hefur verið hægt að stytta mjög biðtíma eftir dagþjálfun og þjóna mun fleirum en áður var. Eitt af markmiðum með sveigjanlegri dagþjálfun er að styðja við aldraða til að búa lengur sjálfstæðri búsetu á eigin heimili. Þjónustukannanir hafa sýnt fram á að mikil ánægja er með þjónustuna meðal þeirra sem hennar njóta.

Tækjakaup og sjúkraflutningar

Fjármagn til tækjakaupa á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur verið aukið verulega á kjörtímabilinu. Fjármagnið hækkaði um 200 milljónir árið 2018 en á kjörtímabilinu nema fjárframlög til tækjakaupa heilbrigðisstofnananna tæpum 1,3 milljarði samtals. Sérstaklega var horft til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði stofnana, til dæmis á SAk. Jafnframt hófst endurnýjun á sjúkrabílaflota landsins á árinu, en kaup og rekstur bílanna er í samstarfi við Rauða krossinn. Sú endurnýjun er víða kærkomin, enda margir bílar víða komnir á tíma.

Sterkt sjúkrahús

SAk er annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins og gegnir lykilhlutverki í almannavörnum. Sjúkrahúsið er kennslusjúkrahús og þar fer fram öflugt starfsnám háskóla- og framhaldskólanema í heilbrigðisgreinum. Á SAk er einnig miðstöð læknisfræðilegrar þjónustu sjúkraflugs í landinu.

Á sjúkrahúsinu eru meðal annars bráðalegudeildir fyrir fullorðna og börn, göngudeildir, rannsóknadeildir, gjörgæsludeild, skurðstofur o.fl. auk rýma á Kristnesspítala fyrir þá sem þurfa á þjónustu endurhæfingar- og öldrunarlækninga að halda. Öflug göngudeildarþjónusta er starfrækt á sjúkrahúsinu og fer sú þjónusta vaxandi með auknu framboði sérfræðinga. Bráðamótttaka er starfrækt þar og fæðingarþjónusta er rekin á sjúkrahúsinu, þar sem árlega fæðast um 400 börn.

Mikill vöxtur hefur verið í þjónustu við fólk með krabbamein og sinnir almenna göngudeildin nú nær öllum þeim sjúklingum á svæðinu sem þurfa á krabbameinslyfjagjöf að halda. Alvarlega nýrnabilaðir sjúklingar geta nýtt sér blóðskilunarmeðferð á SAk og hefur orðið gífurlegur vöxtur í þeirri þjónustu undanfarin fimm ár.

Á kjörtímabilinu hafa ýmis umbótaverkefnið verið unnin hjá SAk. Sem dæmi má nefna að sett var upp sýkla- og veirufræðideild með nauðsynlegum búnaði og formlegu leyfi til að greina tilkynningarskylda sjúkdóma í desember 2020 og í kjölfarið var til staðar geta á SAk til að greina Covid-19 sýni. Göngudeildarþjónusta við sjúklinga með langvinna sjúkdóma og meltingarmóttaka var fest í sessi árið 2020 og fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið aukin á kjörtímabilinu. Nú nýlega var barna- og unglingageðteymi SAk eflt með 13 milljóna fjárframlagi frá heilbrigðisráðuneytinu.

Mikil áhersla er lögð á eflingu vísinda- og rannsóknastarfs innan sjúkrahússins, til dæmis með því að skapa svigrúm og frjótt umhverfi vísinda- og þróunarstarfa. Ný vísindastefna SAk til ársins 2023, var mótuð og kynnt

Bygging nýrrar legudeildar við SAk

Nú stendur yfir undirbúningsvinna vegna byggingar nýrrar legudeildarálmu við SAk á Akureyri. Gert er ráð fyrir að húsið verði um 10.500 m² og frumathugun vegna verkefnisins er á lokametrunum og stefnt að samkeppni í kjölfarið. Bygging nýrrar legudeildar við SAk er langþráð og mun bæta aðstöðu á sjúkrahúsinu til muna.

Heilbrigðisþjónustan í heilbrigðisumdæmi Norðurlands hefur sannarlega verið styrkt á fjölbreytta vegu á kjörtímabilinu. Starfsemi hefur verið efld með auknum fjárframlögum svo mögulegt hefur verið að ráðast í ný verkefni og efla þjónustu sem fyrir var, auk þess sem fjármagn hefur runnið til tækjakaupa og framkvæmda. Við þurfum að halda áfram að efla heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni enn frekar á næsta kjörtímabili, öllum landsmönnum til heilla.

Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra.

Er heimanám verkfallsbrot?

Stjórn foreldrafélags Lundarskóla skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 11:45

Sjúkrahúsið á Akureyri

Logi Einarsson skrifar
05. nóvember 2024 | kl. 10:20

Kosningaloforð og hvað svo?

Björn Snæbjörnsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 18:00

Hegðaði sér eins og einræðisherra

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 17:00

Af hverju ætti ungt fólk að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Anton Berg Sævarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 12:12

Áfram sterkar konur í leiðtogahlutverkum!

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 17:17