Fara í efni
Umræðan

Starfsemin stöðvuð tímabundið á Akureyri

Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke, heimilislæknar Heilsuverndar sem starfa bæði á Akureyri og í Kópavogi.
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) krefjast að tveir heimilislæknar sem starfað hafa á Akureyri á vegum heilsugæslunnar í Urðarhvarfi í Kópavogi hafi eingöngu aðsetur á síðarnefnda staðnum. Starfsemin á Akureyri hefur því verið stöðvuð tímabundið og að óbreyttu geta læknarnir ekki starfað þar. Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke hafa haft aðstöðu á Læknastofum Akureyri.
 
Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook síðu Heilsuverndar.
 
Þar segir meðal annars:
 
  • Aðstaðan á Læknastofunum á Akureyri var ætluð til að koma til móts við þarfir skráðra skjólstæðinga heilsugæslunnar, sem búa á Akureyri og vilja hitta heimilislækni sinn.
  • Læknastofur Akureyrar eru í viðurkenndu umhverfi þar sem möguleiki á þverfaglegu samstarfi er mikill og góð reynsla af þjónustu við sjúklinga á öllum aldri með mismunandi heilsufarsvanda er til staðar.
  • Það kemur á óvart að SÍ skuli krefjast þess að umræddir læknar hafi eingöngu aðsetur í Urðarhvarfi 14.
  • Starfsemin á Akureyri verður stöðvuð tímabundið, en óskað hefur verið eftir fundi með Sjúkratryggingum og Heilbrigðisráðuneyti í kjölfar bréfs SÍ. Læknafélag Íslands hefur málið til skoðunar samhliða.
  • Heilsugæslan Urðarhvarfi telur kröfu SÍ að ekki standast og þarf að skera úr um það ósamræmi að sjúkratryggðir megi lögum samkvæmt skrá sig hvar sem er á heilsugæslustöð óháð búsetu og sækja þjónustu hvar sem er óháð búsetu, heilsugæslustöðvum sé uppálagt að taka við skráningum óháð búsetu, en ætla svo að meina þjónustuaðilum að flytja þjónustu sína, á eigin kostnað, nær skjólstæðingum sínum til að veita þá þjónustu sem óskað er eftir.

Yfirlýsing Heilsuverndar er svohljóðandi:

Heilsugæslunni Urðarhvarfi hefur borist bréf frá Sjúkratryggingum Íslands, sem kemur að óbreyttu í veg fyrir að Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke, heimilislæknar, starfi í aðstöðu á Læknastofum Akureyrar. Valur hóf störf 2. janúar síðastliðinn og Guðrún hefur störf núna þann 1. mars.
 
Aðstaðan á Læknastofunum á Akureyri var ætluð til að koma til móts við þarfir skráðra skjólstæðinga heilsugæslunnar, sem búa á Akureyri og vilja hitta heimilislækni sinn. Læknastofur Akureyrar eru í viðurkenndu umhverfi þar sem möguleiki á þverfaglegu samstarfi er mikill og góð reynsla af þjónustu við sjúklinga á öllum aldri með mismunandi heilsufarsvanda er til staðar.
 
Lögum samkvæmt er sjúkratryggðum, skjólstæðingum heilsugæslustöðva, frjálst að velja sér heilsugæslustöð og heimilislækni óháð búsetu og leita eftir slíkri þjónustu með skráningu í gegnum vef Sjúkratrygginga Íslands. Þá hefur heilbrigðisráðuneytið úrskurðað að ekki megi stöðva nýskráningu einstaklinga á heilsugæslustöð sem eru búsettir utan þjónustusvæðis stöðvarinnar.
 
Megin starfsstöð beggja læknanna, Vals Helga og Guðrúnar Dóru verður í Heilsugæslunni Urðarhvarfi þar sem fram fer heildstæð þjónusta heilsugæslustöðvar samkvæmt kröfulýsingu. Valur Helgi hefur sinnt skráðum skjólstæðingum stöðvarinnar, bæði þar og með fjarvinnu, með rafrænum hætti gegnum Heilsuveru og í síma. Því til viðbótar er mögulegt að sinna vitjunum eftir því sem við á. Báðir læknarnir munu vinna með sama hætti og eru ráðnir í fullt starf.
 
Í framangreindu bréfi Sjúkratrygginga er vísað til þess að heilbrigðisráðherra sé heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að framfylgja stefnu um heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni. Þá hefur ráðherra heimildir til þess að ákveða hvort og þá í hvaða mæli tiltekin heilbrigðisþjónusta sé veitt með greiðsluþátttöku ríkisins, hvar og af hverjum.
 
Í þeirri aðstöðu, sem Heilsugæslan Urðarhvarfi hefur til afnota á Akureyri felst enginn viðbótarkostnaður fyrir hið opinbera. Ekki er farið fram á greiðslur vegna þessa húsnæðis. Skjólstæðingar Heilsugæslunnar Urðarhvarfi, sem eru búsettir á Akureyri, eru sjúkratryggðir og greiðslur vegna þeirra fara fram samkvæmt fjármögnunarlíkani höfuðborgarsvæðisins. Þær eru lægri en þær sem greiddar eru fyrir skjólstæðinga til heilsugæslustöðva sem starfa á landsbyggðinni. Sjúkratryggingar halda utan um greiðslur milli líkana óháð staðsetningu þjónustunnar og tryggja þannig fullkomið jafnræði milli aðila og sama gjald er tekið fyrir þjónustuna óháð rekstraraðila. Þá eiga skjólstæðingar sama rétt til þjónustu um allt land óháð skráningu þeirra á tiltekna heilsugæslustöð. Gildir slíkt um heimahjúkrun, skólahjúkrun og vaktþjónustu.
 
Síðustu 5 ár hefur Heilsugæslan í Urðarhvarfi endurtekið verið í hópi 4 bestu heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins. Það er niðurstaða kannanna sem Sjúkratryggingar Íslands gera meðal skjólstæðinga heilsugæslustöðva. Í því felst að skjólstæðingar Heilsugæslunnar í Urðarhvarfi kunna vel að meta gæði, öryggi og þjónustustig stöðvarinnar. Þá kemur fram í reglulegu yfirliti að hún stendur sig vel í samanburði við aðrar stöðvar. Starfsánægja er mikil og ríkur vilji til þjónustu við skjólstæðinga sína og því eðlilegt að stöðin vilji koma til móts við þá á Akureyri.
 
Það kemur á óvart að Sjúkratryggingar skuli nú krefjast þess að umræddir læknar hafi eingöngu aðsetur í Urðarhvarfi 14. Starfsemin á Akureyri verður því stöðvuð tímabundið, en óskað hefur verið eftir fundi með Sjúkratryggingum og Heilbrigðisráðuneyti í kjölfar þessa bréfs Sjúkratrygginga. Læknafélag Íslands hefur málið til skoðunar samhliða.
 
Heilsugæslan Urðarhvarfi telur það ekki standast og þarf að skera úr um það ósamræmi að sjúkratryggðir megi lögum samkvæmt skrá sig hvar sem er á heilsugæslustöð óháð búsetu og sækja þjónustu hvar sem er óháð búsetu, heilsugæslustöðvum sé uppálagt að taka við skráningum óháð búsetu, en ætla svo að meina þjónustuaðilum að flytja þjónustu sína, á eigin kostnað, nær skjólstæðingum sínum til að veita þá þjónustu sem óskað er eftir.

Það er þörf fyrir aukna skaðaminnkun á Akureyri

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
15. október 2024 | kl. 11:30

Varði ekki viðsnúninginn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
15. október 2024 | kl. 11:00

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50