Fara í efni
Umræðan

Liðsheild og árangur

Akureyri er frábær kostur þegar kemur að vali á búsetu. Akureyri er stærsti byggðakjarni utan höfuðborgarsvæðisins og það eru ekki margir staðir sem geta boðið allt það sem Akureyri hefur upp á að bjóða. Hér er ekki aðeins besta veðrið heldur stutt í náttúruna og aðstæður til íþrótta og útivistar almennt góðar. Stuttar vegalengdir, fjölskylduvænt umhverfi, fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf og hátt hlutfall faglærðra starfsmanna í skólum eru dæmi um mikilvæga þætti í okkar samfélagi sem við getum verið stolt af.

Það hefur lengi blundað í mér að taka þátt í bæjarmálum á Akureyri og leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að Akureyrarbær verði framsækinn, líflegur og aðlaðandi staður að búa á. Staður þar sem ungir sem aldnir fá að njóta sín í umhverfi sem er fjölbreytt, skemmtilegt og fullt af tækifærum. Staður þar sem hægt er að vaxa úr grasi í heilbrigðu umhverfi, sækja sér fjölbreytta menntun, njóta lífsins, stofna fyrirtæki, starfa og sinna áhugamálum við bestu mögulegu aðstæður og gæði á hverjum tíma.

Mín reynsla úr atvinnulífi og íþróttum er sú að liðsheild skilar árangri. Mismunandi eiginleikar, hæfni, þekking, skoðanir og opinská samskipti eru nokkrir lykilþættir í því samhengi. Í liðsheild þar sem er samheldni, traust og virðing eru í hávegum höfð verður til sameiginleg sýn, markmið verða skýr og styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Liðsheild er lykill að árangri.

Ég mun sem oddviti L-listans í komandi kosningum kappkosta að stefnumörkun sé skýr og að virk hlustun og samvinna við bæjarbúa skili sér í sterkri liðsheild samfélaginu okkar til heilla. Með sameiginlegri framtíðarsýn sem er byggð á fjárhagslega sterkum grunni gerum við okkur kleift að vaxa, takast á við áskoranir, ná þeim markmiðum sem við setjum okkur og auka lífsgæði allra.

L-listinn er bæjarlisti og óháð stjórnmálaafl sem hefur eingöngu hagsmuni bæjarins og bæjarbúa að leiðarljósi. Samsetning af reynslumiklum bæjarfulltrúum, nýjum frambjóðendum og kraftmiklu fólki með breiðan grunn af þekkingu og hæfni er styrkleiki L-listans í komandi kosningum.

Gunnar Líndal Sigurðsson skipar efsta sæti L-listans við bæjarstjórnarkosningarnar 14. maí

Friðum Eyjafjörð

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
19. júní 2025 | kl. 10:00

Þróunarskref í þágu velferðar barna

Kristín Jóhannesdóttir skrifar
19. júní 2025 | kl. 09:00

Hvorki „allt lokað“ né „allt opið“

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
18. júní 2025 | kl. 19:30

Frelsið til þess að ráða eigin málum

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
18. júní 2025 | kl. 17:00

Þankar ferðalangs um búsetu við landamæri

Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar
17. júní 2025 | kl. 06:00

Akureyrarbær brýtur gegn viðmiðum Barnvæns sveitarfélags

Ungmennaráð Akureyrar skrifar
14. júní 2025 | kl. 10:00