Lækka fasteignaskatt en útsvar óbreytt
Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,31% í 0,28% á Akureyri á næsta ári og á atvinnuhúsnæði lækkar hún úr 1,63% í 1,61%. Álagður skattur mun því lækka alls um 180 milljónir milljónir kr. á íbúðarhúsnæði í bænum en um 22 milljónir á atvinnuhúsnæði.
Fasteignamat er reiknað út árlega af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Tilkynnt var um mitt ár að fasteignamat íbúðarhúsnæðis á Akureyri muni hækka um 10,6% á milli áranna 2025 og 2026 og þá ákváðu bæjaryfirvöld, vegna áskorunar Félags atvinnurekenda til sveitarfélaga , að láta reikna út mismunandi sviðsmyndir við mögulega lækkun á fasteignaskattsprósentu.
Lækkunin var samþykkt í bæjarstjórn í gær. Álagningarprósenta fasteignaskatts segir um hve hátt hlutfall af fasteignamati húsnæðis greiðar þarf yfir árið.
Hér má sjá dæmi um hvað breytingin þýðir varðandi íbúðarhúsnæði:
- Fasteignamat 100 milljónir kr. – fasteignaskattur 280 þúsund – 30.000 kr. lægri en skatturinn hefði orðið með óbreyttri álagningarprósentu.
- Fasteignamat 75 milljónir kr. – fasteignaskattur 210 þúsund – 22.500 kr. lægri en hefði orðið.
- Fasteignamat: 50 milljónir kr. – fasteignaskattur 140 þúsund – 15.000 kr. lægri en hefði orðið.
- Vert er að geta þess að útsvarsprósentan verður óbreytt á Akureyri eða 14,97% – sem er leyfilegt hámark.
- Útsvar er sá hluti tekjuskatts sem rennur til sveitarfélaga og gert er ráð fyrir að útsvarstekjur Akureyrarbæjar verði 18,26 milljarðar króna; hækki um 3,6% frá útkomuspá ársins 2025.
Fasteignaskattsprósenta lækkar!
Tjaldsvæðisreiturinn eða Húsmæðraskólatúnið?
Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu
Græni dagurinn