Fara í efni
Umræðan

Góð frammistaða en tap við ömurlegar aðstæður

Sigurður Höskuldsson þjálfari Þórs getur verið ánægður með margt í leik sinna manna en tap varð engu að síður staðreynd. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 3:2 fyrir Keflvíkingum í gærkvöldi á útivelli. Þrátt fyrir tap voru mikil batamerki á leik liðsins frá síðasta leik, 3:0 tapi fyrir ÍBV á heimavelli, því ekki vantaði baráttuna og viljann að þessu sinni.

Satt best að segja er erfitt að meta hverju tapið var um að kenna. Var það óheppni, klaufaskapur eða værukærð? Hugsanlega blanda af þessu öllu en hafa verður í huga að aðstæður voru hræðilegar meðan á leiknum stóð, hávaðarok og mikil rigning þannig að varla var hundi út sigandi. Miðað við það var í raun mesta furða hvað liðin náðu að sýna. Bæði náðu góðum spilköflum þótt afar erfitt væri að hemja boltann og bæði hefðu getað skorað mun meira miðað við færi. Þórsarar geta sannarlega nagað sig í handarbökin að hafa ekki hreinlega tryggt sér sigur, eða að minnsta kosti komið sér í mjög góða stöðu, snemma í síðari hálfleik þegar þeir fengu nokkur dauðafæri.

Keflvíkingar náðu forystu þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af leiknum. Boltinn var sendur inn á markteig frá hægri og þegar Aron Birkir markvörður hugðist grípa hann rákust þeir saman, hann og miðvörðurinn Birgir Ómar með þeim afleiðingum að markmaðurinn missti boltann og Oleksii Kovtun gat ekki anað en skorað.

Aðeins 10 mín. síðar jafnaði Rafael Victor. Vilhelm Ottó sendi inn í teig af vinstri kanti, framherjinn tók boltann laglega niður og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í fjærhornið án þess að varnarmaður fengi nokkuð að gert.

Aron Ingi Magnússon gerði seinna mark Þórs í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir rúman hálftíma komust heimamenn yfir á ný. Boltinn var sendur inn á markteig þar sem Guðjón Pétur Stefánsson var óvaldaður, hann skallaði í stöng og Mihael Mladen var fyrstur að átta sig þegar boltinn beið þess í markteignum sem verða vildi, ef svo má segja. Mladen danglaði fæti í boltann og skoraði í tómt markið.

Þórsarar léku á móti rokinu í fyrri hálfleikinn og höfðu það því í bakið þegar komið var út á ný eftir hálfleiksfund. Og færin létu ekki bíða eftir sér; Alexander Már skaut yfir Keflavíkurmarkið úr afbragðsfæri aðeins fáeinum andartökum eftir að seinni hálfleikur hófst, Rafael Victor þrumaði boltanum í stöng einni mínútu síðar og Alexander hitti ekki markið í enn einu dauðafærinu skömmu seinna. Ótrúlegt að Þórsarar skyldu ekki skora og á 11. mín. hálfleiksins fengu gestirnir enn eitt dauðafærið. Victor sendi boltann inn á markteig, Marc Rochester Sörensen var aleinn fyrir opnu marki en skallaði framhjá. Ótrúlegt að Þórsarar skyldu ekki vera búnir að jafna og komast yfir þegar þarna var komið sögu

Loksins, loksins náði Þór svo að jafna á 62. mín. eftir glæsilegt spil spil. Þar var Aron Ingi Magnússon á ferðinni; hann sem sendi boltann framhjá Ásgeiri markverði og í netið.

Leikurinn róaðist eftir þetta, bæði lið reyndu þó greinilega að sækja til sigurs. Keflvíkingar fengu tvö dauðafæri sem ekki nýttust en þegar Þórsarar freistuðu þess að gera sigurmarkið í lokin voru það heimamenn sem komust enn einu sinni. Komið var í uppbótartíma þegar þeir náðu skyndisókn og Kári Sigfússon skoraði.

Þórsarar urðu fyrir blóðtöku þegar 10 mín. voru eftir: miðjumaðurinn Árni Elvar Árnason var borinn meiddur af velli en ekki er vitað hve alvarleg meiðslin eru. Birkir Heimisson var fjarri góðu gamni í gær vegna meiðsla eins og gegn ÍBV á dögunum en gert er ráð fyrir að hann verði með í næsta leik. Þá var varnarjaxlinn Ragnar Óli Ragnarssoni í banni.

Þórsarar eru nú í áttunda sæti með 17 stig eftir 15 leiki, sex stigum frá fimmta sæti sem veitir rétt til þátttöku í umspili um sæti í Bestu deildinni næsta sumar.

Næsti leikur er Njarðvík á heimavelli eftir rúma viku, laugardaginn 10. ágúst

Leikskýrslan

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00

Grunnskólarnir okkar allra

Sindri Kristjánsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 06:00