Ég lenti í dag hér á Akureyri, eftir flug frá Manchester. Já, fyrsta ferð mín eftir að ný flugstöð var vígð með pompi og prakt, enda þvílík lífsgæði fyrir okkur sem búum á Akureyri og Norðlendinga alla.
En upplifunin var HRÆÐILEG, þar sem tvær vélar frá Easy Jet voru samtímis á vellinum, ein komin frá London er við komum frá Manchester. Já takk, okkur var boðið upp á að standa úti í frosti a.m.k. í 20 mínútur, eftir að koma úr heitri vélinni.
Í fyrsta lagi er það ótrúlegt klúður hjá stjórnendum Isavia að byggja þannig nýbyggingu fyrir flug erlendis frá, að ekki sé möguleiki á að taka á móti 2 millilandaflugvélum af minni gerðinni í einu með stuttu millibili.
Í öðru lagi, að Isavia spari svo á landsbyggðinni að skömm sé að, meðan hallir rísa í Keflavík.
Í þriðja lagi er þessi skammsýni að valda megnri óánægju bæði meðal Íslendinga og ekki síður meðal ferðamanna.
Norðlendingar sjá þá þróun fyrir, að millilandaflug til Akureyrarborgar sé rétt að hefjast.
Langar mig einnig að benda á, það sem betur mætti fara í vegabréfaskoðun. Tvær raðir yrðu þannig að Íslendingar færu í aðra röðina en gestir með erlend vegabréf í hina, eins og við sáum í Englandi.
Að síðustu skora ég á samgönguráðherra, sem fékk þetta í fangið að bregðast við STRAX svo erlend flugfélög sem hafa viljað sinna þessum markaði, hætti ekki vegna lélegra aðstæðna.
Læt myndir frá því fyrr í dag fylgja.
Sigrún Gísladóttir hefur lengi stundað rekstur í ferðaþjónustu.
