Fara í efni
Umræðan

Hvað þarf að gerast til að stórauka framboð íbúða og lækka verðið?

Húsnæðismarkaður í klessu – 5

1. Skilgreina þarf íbúðir í þéttbýli sem heimili og áskilja lögheimilskvöð þannig að annað hvort sitji eigendur íbúð eða langtíma leigu-/búseturéttarsamningi sé þinglýst á eignina.

2. Sveitarfélög þurfa að standa við þá skyldu að ganga frá skipulagi og lóðamálum þannig að unnt verði að byggja íbúðir af allskonar gerðum og stærðum – og í mismunandi rekstrarformum - þannig að bæði ríkir og fátækir, ungir og eldri og margvísleg sambýlisform finni hagkvæman stað til að njóta búsetuöryggis. Það er fráleit krafa byggingarreglugerðar að íbúðir skuli byggjast utan um „hjónaherbergi“ og tilteknar stærðir á geymslum eða þvottahúsum. Nauðsynlegt er að til verði „öríbúðir“ og einnig að íbúðir séu með sveigjanlegum útfærslum sem geta breyst með kynslóðunum - með t.d. leigueiningum eða vinnustúdíó – eða „ömmuíbúð/unglingaíbúð.“ Fjölbýlisíbúðir og kjarnar mættu einnig bjóða upp á sameiginlegar lausnir – rými fyrir hitting og óformleg kaffihús - - þvottahús og skýld svæði þar sem fólk hittist án sérstakrar boðunar.

3. Neytendavæðing íbúðabygginga - er líklegast leiðin til að rjúfa skortstöðuna og fákeppnisokur á bankamarkaði og þar sem margir stærri verktakar hafa breytt sér í fjárfestingar(brask)félög.

a) Annars vegar þarf að tryggja byggingarsamvinnufélögum og íbúðafélögum (sjálfseign/samvinnufélögum) þeirra forgang um lóðir á kostnaðarverði – til að byggja og reka búseturéttarfélög eða sjálfseignarfélög – þar sem úthlutunin verður viðvarandi kvöð á eignum og ekki til fénýtingar fyrir síðari eigendur. Þarna geta íbúðafélög eldri borgara leikið mikilvægt hlutverk og sama væri með stórauknar íbúðabyggingar í þágu námsfólks.

b) Hins vegar þarf að tryggja lánaleiðir fyrir byggingar undir beinni stjórn neytenda sjálfra og íbúðafjárfestingar í sjálfbærum félögum almennings. Slíkt gerist ekki nema með með beinni og óbeinni milligöngu hins opinbera með endurnýjuðum Húsnæðislánasjóði eða Lánasjóði sveitarfélaga. Nærtækast virðist að leggja „skyldusparnað“ á sjóðasöfnun lífeyrissjóðanna sem ríkið endurlánar síðan til neytendafélaga/sjálfseignarfélaga verðtryggt miðað við fasteignavísitölu með minimal vöxtum og einungis 0,2% ábyrgðarálagi. Verðtrygging lána til einstaklinga verður að banna til allrar framtíðar eins og tíðkast á ESB/EES svæðinu og meðal allra siðmenntaðra þjóða.

4. Brýnt er að innleiða regluverk um leigumarkað - eins og best hefur gefist meðal þýskumælandi Evrópu og í Svíþjóð og útiloka íbúðahamstur og tilviljanakenndar breytingar frá leigu- og yfir í séreign. Með það að markmiði að heimilisöryggi verði útgangspunktur - framyfir skammtíma ávöxtunargræðgi - og þess vegna þarf að áskilja að leigustarfsemi verið leyfisskyld og háð eftirliti - þannig að leiga umfram eigin (einu) íbúð verði vistuð hjá fagaðilum sem fylgja reglum og lúta aðhaldi.

5. Viðvarandi íbúðaskortur verður ekki upprættur nema með stórfelldu byggingarátaki - - í anda „Viðlagasjóðs“ - þar sem kannski 20 þúsund íbúðareiningar verða byggðar til hliðar við hinn almenna fjárfestadrifna markað. Slíkt átak þarf að stofnast með frumkvæði ríkisvaldsins og í samstarfi við sveitarfélög og stéttarfélög – og ekki síður með samvinnu við hagsmunafélög eldri borgara, öryrkja og stúdenta. Skjótvirkasta leiðing til fjöldaframleiddra bygginga er með samvinnu við verksmiðjur í nágrannalöndum - - og einnig má reyna útboð á innlendum/EES markaði þar sem Viðlagasjóður leitar hagstæðustu verða hjá öflugum verktökum - innlendum eða erlendum eftir atvikum.

Samfélagsbanki

Ríkisstjórnin er bókstaflega í dauðafæri til að rjúfa fákeppnisokur bankanna með því einu að setja Landsbankanum breytta stefnu. Stefnu sem lækkar verulega arðsemiskröfu bankans og minnkar þannig vaxtamuninn. Áhugavert er að Inga Sæland ráðherra húsnæðismála og velferðar almennings – og líka þeirra fátæku hefur einmitt orðað þennan möguleika í nýlegu Kastljósviðtali. Á grundvelli markaðshlutdeildar Landsbankans mundu hinir bankarnir neyddir til „að keppa“ um viðskipti - - og þyrftu þá um leið að lækka sína vexti. Þessi breyting er einmitt tímabær akkúrat núna - þegar stefnir í harkalegan samdrátt í efnahagslífi vegna öfgafullrar hávaxtastefnu Seðlabankans í alltof langan tíma. Verðbólgan mundi hjaðna - nánast yfir nótt - og allskonar atvinnurekstur gæti fjármagnað sig að nýju á hóflegum kjörum. Landsbankinn yrði ekki raunverulega að „samfélagsbanka“ með því að vera sett stefna um hóflega arðsemiskröfu og þess vegna væri mikilvægt að samhliða væri lögum um fjármálafyrirtæki breytt þannig að samvinnubanki í eigu samvinnufélags og svæðisbundnir sparisjóðir í anda „sparkassekerfisins“ í Evrópu gætu orðið til og tekið þátt í að bæta skilyrði – hver á sínu svæði. Núna er það nánast Sparisjóður Suður Þingeyinga einn sem getur talist samfélags-sparisjóður þótt hlutafélags-slagsíðan sé verulega farin að grafa undan getu sjóðsins til að standa undir svæðisbundnum væntingum um hagkvæm viðskipti og framlag til menningar og velferðar.

Benedikt Sigurðarson er eftirlaunamaður á Akureyri og fv. framkvæmdastjóri Búfestis hsf. Hann hefur talsverða sérþekkingu á málefnum samvinnufélaga og neytendadrifins rekstrar og heldur áfram að láta sig skipulags- og byggingarmál varða.

Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi

Benedikt Sigurðarson skrifar
12. desember 2025 | kl. 08:00

Innflytjendur, samningar og staðreyndir

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 06:00

Húsnæðisbóla

Benedikt Sigurðarson skrifar
11. desember 2025 | kl. 10:00

Eftir Hrun

Benedikt Sigurðarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 13:00

Heimili er ekki „fjárfestingarvara“

Benedikt Sigurðarson skrifar
09. desember 2025 | kl. 13:00

Opið bréf til heilbrigðisráðherra

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
08. desember 2025 | kl. 17:30