Fara í efni
Umræðan

Treystir Viðreisn þjóðinni í raun?

Fyrir þingkosningarnar fyrir rétt rúmu ári sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, í Spursmálum á mbl.is að þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sótzt yrði á nýjan leik eftir inngöngu í Evrópusambandið væri mikil málamiðlun af hálfu flokksins. „Það er ekki farið beint í aðild­ar­viðræður. Við för­um alltaf í þjóðar­at­kvæðagreiðslu á und­an. Og það er mik­il mála­miðlun af okk­ar hálfu,“ sagði hún í þættinum. Hins vegar hefur Þorgerður, líkt og aðrir fulltrúar Viðreisnar, ítrekað haldið því fram að hún treysti þjóðinni fyrir málinu. Nú síðast á Alþingi á föstudaginn.

Hvernig er það að treysta þjóðinni í málinu að segja það mikla málamiðlun af hálfu Viðreisnar að fram fari þjóðaratkvæði um það? Vitanlega gengur það ekki upp. Ef Þorgerður og flokkurinn hennar treysta þjóðinni í raun þarf varla málamiðlun af hálfu hans í þeim efnum? Það er raunar aðeins ein ástæða fyrir því að umrætt þjóðaratkvæði er fyrirhugað. Tilgangurinn með því er að reyna að koma hreyfingu á málið fyrst ekki er þingmeirihluti fyrir því á Alþingi, kosinn af íslenzkum kjósendum. Væri slíkur þingmeirihluti fyrir hendi er þannig alveg ljóst að ekkert þjóðaratkvæði væri á dagskrá um málið.

Markmiðið er að reyna að setja pólitískan þrýsting á þingið verði niðurstaða þjóðaratkvæðisins hagstæð fyrir Viðreisn fyrst kjósendur hafa ekki kosið meirihluta fyrir því að setja inngöngu í Evrópusambandið á dagskrá í þingkosningum. Flokkurinn lagði ekki einu sinni í það að gera þjóðaratkvæði um það að hluta af kosningastefnu sinni. Það er ástæða fyrir því. Sumarið 2024 lét Evrópuhreyfingin Maskínu gera skoðanakönnun fyrir sig þar sem kannað var hvort áherzla á þjóðaratkvæði um málið væri til þess fallið að skila flokkum auknu fylgi eða ekki. Niðurstöður könnunarinnar voru aldrei birtar.

Fulltrúar Viðreisnar ræddu Evrópusambandsmálið síðan varla í aðdraganda kosninganna nema að frumkvæði fjölmiðlamanna og kjósenda. Þá var slegið í og úr hvort um skilyrði yrði að ræða fyrir stjórnarsamstarfi. Sú reyndist síðan auðvitað raunin strax eftir kosningarnar þegar ekki þurfti lengur að hafa áhyggjur af kjósendum. Nú síðast kom fram í nýsamþykktri skýrslu þings Evrópusambandsins um norðurslóðir að sambandið hefði í hyggju í samstarfi við ríkisstjórnina að reka einhliða áróður fyrir þjóðaratkvæðið um ætlaða kosti inngöngu í það. Einmitt. Viðreisn treystir kjósendum. Einmitt.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum) og Norðlendingur að ætt og uppruna.

Hvað þarf að gerast til að stórauka framboð íbúða og lækka verðið?

Benedikt Sigurðarson skrifar
13. desember 2025 | kl. 11:30

Braskvæðing almannagæða – fúsk og græðgi

Benedikt Sigurðarson skrifar
12. desember 2025 | kl. 08:00

Innflytjendur, samningar og staðreyndir

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
12. desember 2025 | kl. 06:00

Húsnæðisbóla

Benedikt Sigurðarson skrifar
11. desember 2025 | kl. 10:00

Eftir Hrun

Benedikt Sigurðarson skrifar
10. desember 2025 | kl. 13:00

Heimili er ekki „fjárfestingarvara“

Benedikt Sigurðarson skrifar
09. desember 2025 | kl. 13:00