Fara í efni
Umræðan

Er skynsamlegt að sameina skóla?

Er skynsamlegt að sameina skóla? Er skynsamlegt að skólar vinni saman eða er farsælast að hver skóli starfi einn og sér? Svörin við þessum spurningum fást með því að skoða og rýna vel bæði þörf fyrir sameiningu eða samstarfi sem og markmið með slíkum ákvörðunum. Svörin fást ekki með því að álykta út frá skólastarfi fyrir 10, 20 eða 40 árum heldur með því að rýna í þarfir nemenda, endurskoða starfshætti og aðstæður skóla og meta hvort fylgja þurfi stefnu yfirvalda í menntamálum með betri hætti en nú er gert.

Ráðherra mennta- og barnamála orðaði við skólameistara MA og VMA í febrúar á þessu ári hvort raunhæft væri að auka samvinnu skólanna eða jafnvel sameina þá. Tilgangurinn væri að efla og bæta skólastarfið og gera skólana burðugri til að takast á við breytingar í umhverfi þeirra. Það var mat beggja skólameistara að skynsamlegt væri að kanna málið til hlítar í ljósi þeirrar stöðu sem skólarnir eru í. Að hafna því að leita leiða til að bæta stöðu skólanna er ekki valkostur.

Verkefninu var skipt niður í áfanga og í maí skiluðu skólarnir skýrslu með tölulegum gögnum um skólana. Næsti áfangi átti að vera nú á haustdögum þar sem gefa átti skólunum færi á að vinna með nemendum og starfsfólki að því að greina kosti og galla, tækifæri og ógnanir á grunni hugmynda um breytingar og leggja fram gögn og mat á því hvað væri raunhæft og skynsamlegt að gera. Eftir það ætlaði ráðherra að ákveða næstu skref.

Nú er staðan hins vegar sú að ráðherra hefur ákveðið að undirbúa skuli sameiningu skólanna og kemur sú ákvörðun á undan þeirri vinnu sem fara átti fram innan þeirra. Hún setur verkefninu nýjar skorður og í raun aðrar forsendur en upphaflega var gert ráð fyrir. Við höfum ekki fengið tækifæri til að kanna til hlítar hvort og þá hversu skynsamlegt er að auka samstarf eða sameinast, sem er miður. Farið hefur verið þess á leit við ráðherra að haldið verði við upphaflegt verkskipulag svo við getum unnið okkar vinnu og vandað til verka áður en nokkur ákvörðun verður tekin.

Núverandi staða

Báðir skólarnir standa frammi fyrir því að fjárveitingar duga vart fyrir núverandi skólastarfi, hvað þá skólaþróunarverkefnum eða endurnýjun búnaðar svo nefnd séu dæmi. Uppsafnaður rekstrarhalli MA stefnir í 140 milljónir í lok þessa árs sem skýrist einkum af því að vorið 2022 voru innritaðir mun fleiri nemendur en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þá bárust óvenju margar umsóknir frá nemendum sem uppfylltu skilyrðin fyrir inngöngu í MA. Hallinn er því til kominn vegna tímabundinnar fjölgunar í skólanum án þess að fjármagn fylgdi með en ekki vegna óráðsíu eða slælegs rekstrar.

Undanfarin ár hefur fjöldi nemenda á 1. ári í MA farið lækkandi. Nú er svo komið að ef aðsókn á málabraut skólans verður áfram eins og þróunin hefur verið þá mun brautin leggjast af næsta haust. Að sama skapi gengur sífellt erfiðar að halda úti sérhæfðum áföngum. Á undanförnum árum hefur nemendum á bóknámsbrautum framhaldsskólanna fækkað um leið og þeim hefur fjölgað í iðn- og starfsnámi. Spár gera ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram næstu árin.

Nemendum með íslensku sem annað tungumál fjölgar sem veitist okkur snúið að sinna svo vel fari. Aukin þörf er á stuðningi við nemendur vegna vanlíðanar, kvíða eða annarskonar vanda. Félags- og samskiptafærni hrakar hjá ungu fólki og skólunum ætlað að vinna meira með þann þátt. Innleiðing laga um samþættingu þjónustu við börn krefst meira af skólunum og frumvarp um skólaþjónustu einnig.

Mikilvægt er að tryggja sveigjanleika í námi, nægilega margar valgreinar og í raun þarf að skapa umhverfi þar sem aukið sjálfdæmi nemenda um eigið nám er gert mögulegt. Stefnumörkun UNESCO og OECD felur í sér að nám ungmenna skuli byggja á því að þau hafi mikið um eigið nám að segja, auka þurfi ábyrgð nemenda á eigin námi, greinandi hugsun og sköpun en ekki síst tækifærum til að auka félagsfærni.

Starf MA byggir á traustum grunni. Það sem einkennir skólann er að hann er bóknámsskóli, þar er bekkjarkerfi, inntökuskilyrði í skólann byggja á reglugerð, brottfall er með því minnsta sem gerist, félagslíf í skólanum er nemendastýrt, fjölbreytt og öflugt, hefðir eru sterkar og nemendur sem héðan fara vegnar hvað best af öllum framhaldsskólanemum innan HÍ samkvæmt nýlegum gögnum þaðan.

Samstarf, sameining eða óbreytt ástand

Ef horft er til reynslu annarra þjóða af sameiningu menntastofnana liggur fyrir að þegar markmiðið með þeim er að spara hafa sameiningar mistekist í yfir 90% tilvika. Við höfum talað gegn því að leggja í þessa vinnu ef markmiðið er að spara og skera niður svo ekki sé talað um að flytja fjármagnið sem hugsanlega sparast inn í ráðuneytið aftur. Annað sem reynslan kennir er mikilvægi þess að þær stofnanir sem eru sameinaðar haldi sérkennum sínum og menningu og varað er við því að steypa stóra skóla í sama mótið þó svo að ólíkir skólar geti auðveldlega lotið einni yfirstjórn.

Við fyrstu skoðun virðist skynsamlegt að auka samvinnu skólanna á einhverjum sviðum en jafnframt blasir við að gera þurfi skipulagsbreytingar á báðum stöðum ef ávinningur á að nást. Skoða má hvort sameiginleg yfirstjórn ein og sér breyti miklu, hvort sameining upplýsinga- og kennslukerfa sé raunhæf, hvort eitt og sama gæðakerfið geti verið fyrir báða skólana eða nám í báðum skólum verði í sama stafræna umhverfinu. Bera þarf saman valkosti og greina þá og hafa hugrekki til að spyrja ágengra spurninga. Með þeim hætti mun bæði starfsfólk, nemendur og aðrir sem að skólastarfinu koma svara því hvaða kostir eru skynsamlegir svo ná megi þeim markmiðum sem liggja til grundvallar. Mér vitanlega hefur enginn talað fyrir því eða lagt til að leggja af menningu, félagslíf, siði og venjur í MA. Enginn hefur nefnt það í mín eyru að leggja eigi MA niður og það verður ekki tillaga okkar, heldur þvert á móti. Verkefnið okkar er að tryggja og efla nám og menntun núverandi nemenda og þeirra sem eftir eiga að koma til okkar. Við viljum að verðandi nemendur skólanna fái tækifæri til að velja um fjölbreytt og vandað nám hér á Akureyri.

Samfélagið breytist og þróast og skólastarf í takti við það. Ekki er lengur kappsmál að þylja eins margar latneskar sagnir á einum andardrætti líkt og lesa má um í bókinni Minningar úr Menntaskólanum á Akureyri. Skólinn er ekki sá sami og fyrir 25 árum þegar áhersla á lokapróf var enn alls ráðandi og varla nokkur nemandi átti farsíma. En sennilega hefur þróunin verið hröðust á undanförnum 10 árum í takti við breytt samfélag. Vel hefur verið staðið að skólaþróun í MA á undanförnum árum og nám og kennsluhættir þróast jafnt og þétt. Við eigum og munum halda áfram að gera skýrar námskröfur, kröfur um framkomu og uppbyggileg samskipti sem byggja á virðingu, kröfur um frumkvæði, gagnrýna hugsun og sköpun. Þar á þungi menntunar að liggja innan allra námsgreina sem aðalnámskrá kveður á um.

Við stöndum frammi fyrir því að fjárveitingar duga ekki nema fyrir lágmarks rekstri og varla það. Til að gefa nemendum aukið val þá er mikilvægt að kanna hvort sameiginlegt námsframboð skólanna geti leitt til þess og jafnframt hvort það geti gert okkur fært að halda úti sérhæfðum námsáföngum. Ef skoðun okkar leiðir í ljós að við getum eflt námið með aukinni samvinnu þá munum við leggja það til. Það væri ábyrgðarleysi að skoða það ekki til hlítar og sigurþreki skólafólks við brugðið ef hafna á því að leita leiða til að bæta starfið í MA. Verum því í hlutverki forgöngufólks í þessu verkefni frekar en sporgöngufólks og beitum okkur af alefli til að búa verðandi nemendum skólanna gott veganesti til að starfa í lýðræðissamfélagi eða velja sér nám eftir að framhaldsskólanámi lýkur. Það er mitt hjartans mál að standa vörð um starf og menningu MA og mikilvægt að finna hver hugur fólks er til skólans. Áfram mun ég tala gegn því að fara í þessa vinnu ef hagræðing er helsta markmiðið og legg áherslu á að fyrsta skrefið sem tekið verður lúti að auknu samstarfi MA og VMA.

Karl Frímannsson er skólameistari Menntaskólans á Akureyri

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15