Fara í efni
Umræðan

Áfram menning og listir á Akureyri

Lífsgæði íbúa Akureyrar eru meðal annars mæld í aðgengi íbúa að fjölbreyttri menningu og listum. Í samfélaginu tengir menning okkur saman og listin, í sínum ótalmörgu myndum, þroskar okkur og nærir sem manneskjur. Styðjandi umgjörð um þessa þætti er verðugt verkefni og hlutverk sveitarfélaga stórt.

Akureyrarbær hefur um áratuga skeið þróast mjög á sviði menningar og lista. Mikil uppbygging hefur átt sér stað, fyrst upp úr 1990 með mikilli uppbyggingu í Listagilinu og svo áfram með opnun Hofs árið 2010, tilurð Menningarfélagsins Hofs og endurbyggingu Listasafnsins og uppbyggingar flóru safna, svo fátt eitt sé nefnt. Þessi ytri skilyrði skapa farveg fyrir fjölbreytt, faglegt og kröftugt menningarstarf. Til að skapa viðeigandi líf og kraft til að hlúa að frumkvæði og krafti á sviði menningar og lista verður jafnframt að beina sjónum að þeim tækifærum sem bærinn getur stutt við til atvinnusköpunar fyrir listafólk. Án framlags og vinnu þess hóps og grasrótar, verður list og menning ekki til.

Áherslur Samfylkingarinnar í menningarmálum fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar eru meðal annars að við teljum nauðsynlegt að uppfæra menningarstefnu bæjarins sem gilti til ársins 2018 og er því útrunnin. Samfylkingin vill halda áfram því sem vel hefur gengið og blása til sóknar í því sem þarf að endurskoða. Við höldum áfram stuðningi við menningarstofnanir á Akureyri; Menningarfélag Akureyrar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Leikfélag Akureyrar innanborðs, Listasafnið á Akureyri og hina fjölbreyttu flóru annarra safna á Akureyri. Einnig er nauðsynlegt að stuðla að menningarupplifunum bæði í Hrísey og í Grímsey, sem gætu verið þáttur í uppbyggingu ferðamennsku. Við viljum hækka framlög í Menningarsjóð og beina sjónum sérstaklega að því að hvetja til atvinnutækifæra fyrir listafólk sem býr og starfar á Akureyri. Þannig sköpum við grundvöll fyrir því að fleira listafólk velji sér búsetu á Akureyri og stuðlum að því að grasrótin fái tækifæri til þess að vaxa.

Jafnframt teljum við hjá Samfylkingunni að skapa þurfi skýrari umgjörð um menningarmál innan bæjarkerfisins. Liður í því getur verið að endurvekja menningarmálanefnd, sem meðal annars hefði það hlutverk að eiga samtal við ríkið um framlög til menningarmála á Akureyri, enda teljum við nauðsynlegt að þau þurfi að hækka í samræmi við þann fjölda landsmanna sem sveitarfélagið þjónar. Samfylkingunni er annt um orðspor og stöðu Akureyrar sem menningarbæjar og því nauðsynlegt að hlúa vel að fyrrgreindum þáttum og jafnframt að blása til sóknar þannig að við stöndum enn frekar undir okkar hlutverki sem svæðisborg, gagnvart öðrum sveitarfélögum hér á Norðurlandi.

Elsa María Guðmundsdóttir skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í næsta mánuði.

Viljum við feluleik í kringum framkvæmdir á vegum hins opinbera?

Ólafur Kjartansson skrifar
03. október 2023 | kl. 10:00

Enn af umhverfismálum í Eyjafirði

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
02. október 2023 | kl. 16:00

Ferðaþjónustan þarf að gæta hófs

Benedikt Sigurðarson skrifar
01. október 2023 | kl. 12:50

Fráleitar hugmyndir við Austursíðu

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
29. september 2023 | kl. 09:00

Rætur Verkmenntaskólans á Akureyri

Bernharð Haraldsson skrifar
24. september 2023 | kl. 22:00

Vanþekking

Eymundur Eymundsson skrifar
22. september 2023 | kl. 09:30