Fara í efni
Umræðan

Að fá að eldast með reisn og njóta virðingar

Ein helsta stefna Flokks fólksins í komandi sveitarstjórnarkosningum snýr að málefnum eldri borgara, þeim dýrmæta hópi samfélagsins sem hefur alið upp og brauðfætt okkur yngri kynslóðina. Eldri borgarar er mjög breiður hópur einstaklinga með mismunandi þarfir og því verður þjónusta Akureyrarbæjar að vera fjölbreytt og laga sig að þörfum og óskum þeirra.

Flest sveitarfélög eru að auka þjónustu sína við eldri borgara enda er það í takti við þá þróun sem þarf að eiga sér stað til að koma til móts við þarfir þeirra. Á Akureyri eru starfræktar félagsmiðstöðvarnar Birta og Salka sem hafa hingað til verið vel sóttar af eldri borgurum. Það segir sig sjálft að þegar eldri borgurum fjölgar á Akureyri þá þrengist um þá og þess vegna skýtur skökku við að hluti af starfsemi Punktsins skuli hafa verið fluttur í Víðilund, í Sölku, á síðasta ári. Á Punktinum hefur til þessa verið unnið frábært og metnaðarfullt starf fyrir alla Akureyringa og þá ekki síst fyrir viðkvæma hópa samfélagsins, fólk sem glímir við veikindi af einhverju tagi og félagsleg vandamál. Eftir flutning Punktsins í Víðilund hefur eldri borgurum fundist að þrengt hafi verið allverulega að þeim og þeirra starfsemi. Þeir hafa jafnvel haft orð á því að einn daginn verði búið að ýta þeim út úr eigin félagsmiðstöð. Á sama tíma og þetta gerist hefur Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) óskað eftir því að fá stærra rými fyrir starfsemi sína en sú beiðni hefur engan árangur borið til þessa. Þessi gjörningur Akureyrarbæjar er óskiljanlegur í augum flestra Akureyringa og er hvorki til þess fallinn að auka félagsþátttöku eldri borgara né þeirra sem vanir voru að nýta sér þjónustu Punktsins. Því er ljóst að það skortir skilning og virðingu gagnvart báðum þessum hópum og þörfum þeirra.

Ákvörðun um lokun Glerárlaugar er annað mál sem brunnið hefur mjög á eldri borgurum og er ekki til þess að þeim liði þannig að þeir njóti virðingar í samfélaginu. Glerárlaug hefur verið mikið nýtt af eldri kynslóðinni enda lítil og í rólegu umhverfi. Þessi ákvörðun er í algjörri andstæðu við þá stefnu Akureyrarbæjar að auka lýðheilsu og hvetja til meiri hreyfingar meðal ellilífeyrisþega. Eftir töluverð mótmæli meðal eldri borgara ákvað Akureyrarbær að bakka með þá ákvörðun að loka alveg og verður Glerárlaug opin eitthvað áfram virka daga en aðeins frá kl. 18-21. Mörgum finnst það erfiður tími til að nýta sér þar sem flestir vilja borða kvöldmatinn sinn heima og sjá kvöldfréttir. Flest sveitarfélög á landinu bjóða eldri borgurum og öryrkjum frítt í sund en hjá Akureyrarbæ þurfa ellilífeyrisþegar að borga en ekki öryrkjar. Þetta ósamræmi í gjaldskrá vekur furðu margra.

Bílastæðagjald hefur einnig komið illa við eldri borgara. Margir eldri borgarar munu ekki sjá sér lengur fært að fara í miðbæinn á eigin bíl þar sem greiða þarf nú fyrir bílastæðin og finnst þeim það vera flókin aðgerð s.s. að nota öpp eða gjaldvélar. Það er dapurt að hugsa til þess að fólk sem leitar sér læknisþjónustu á heilsugæslunni þurfi nú að punga út fyrir bílastæðagjaldi líka.

Það er ljóst að þessar aðgerðir Akureyrarbæjar koma illa við eldri borgara og eru alls ekki til þess fallnar að auka lífsgæði þeirra heldur þvert á móti að skerða þau. Þessar aðgerðir koma á óvart vegna þess að þær voru gerðar á sama tíma og Akureyrarbær er rekinn með 762 milljóna króna afgangi.

Það er mat og sannfæring okkar í Flokki fólksins að Akureyrarbær eigi að standa sig miklu betur í málefnum eldri borgara. Eldri borgarar þurfi sterkan málsvara í bæjarstjórn sem sjái til þess að gengið verði í að leysa málefni aldraðra án tafar. Eldri borgarar hafa ekki tíma fyrir neitt slór og slugs og því er það mat okkar að það sé ærin ástæða til þess að að koma á fót hagsmunafulltrúa aldraðra innan Akureyrarbæjar.

Málfríður Þórðardóttir skipar 2. sæti á lista Flokk fólksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45