Fara í efni
Pistlar

Úkraína – beiskja á jólum

ÚKRAÍNA – IV

Lesia Moskalenko er úkraínskur blaðamaður til margra ára. Hún kom sem flóttamaður til Akureyrar eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu fyrr á þessu ári. Lesia skrifar pistla um Úkraínumenn og heimalandið fyrir Akureyri.net í vetur.
_ _ _

Hvítar lendur, hvítar elfur, hvítir trjálundir; mjallhvít jörð tekur á móti heilögum Nikulási þar sem hann kemur á leiðaranda úr för sinni úr himnaríki. Þannig hefst úkraínsk barnagæla um heilagan Nikulás sem birtist aðfararnótt 19. desember ár hvert með gjafir handa börnunum. Að þessu sinni reyndist nóttin sú arna hins vegar hvorki hvorki kyrrlát né töfrandi í Úkraínu.

Sprengjum var enn einu sinni varpað á Úkraínu þetta kvöld. Þegar ég skrifa þetta hér á Akureyri hefur fjölskylda mín verið án rafmagns og hita í litla þorpinu skammt frá Kyiv. Aðeins stöku sinnum get ég heyrt raddir minna nánustu því símasamband er stopult.

Ekki taka það óstinnt upp þótt við séum sorgmædd eða áhyggjufull. Það er ekkert launungarmál að jólin verða mjög erfið í Úkraínu, sorgin fyllir mörg hjörtu. Of mörg sæti verða auð við jólaborðið. Missirinn er yfirþyrmandi, alltof margar jólagjafir rata heldur ekki í hendur barnanna sem þær voru ætlaðar vegna þess að Rússarnir drápu börnin.

Teikning pólska listamannsins Pavel Kuchins á forsíðu vikublaðsins Wprost sem gefið er út í heimalandi hans.

Þessa nótt heilags Nikulásar lét fjölskylda lífið í borginni Kryvyi Rih þegar rússneskt sprengja féll á húsið. Faðir, móðir hálfs annars árs drengur fundust í rústum hússins. Mér skilst að um 450 börn hafi látið lífið í sprengjuárásum eða fallið fyrir byssukúlum, um 13.000 ungum Úkraínumönnum verið rænt og fluttir nauðugir úr landi. Og svo var það tveggja daga gamli drengurinn; hann lést þegar rússneskt flugskeyti lenti á fæðingarheimilinu.

„Ekki hafa áhyggjur,“ segir mamma við mig í símanum. „Þetta kemur engum á óvart. Við vissum að Rússar myndu ráðast á okkur um hátíðarnar. Vorum handviss um það. En ég get reyndar ekki enn trúað því að svona nokkuð geti raunverulega gerst í miðri Evrópu á 21. öldinni.“

Við getum verið viss um að Rússar láta sprengjum rigna yfir Úkraínu á jólunum og þegar við ættum að fagna nýja árinu. Skilaboðin til okkar með sprengjuregninu eru þau að Guð sé ekki til. Að enginn geti stöðvað eða refsað fyrir illskuna sem leyst hefur verið úr læðingi. Að enginn geti verndað Úkraínu. Enginn nema við sjálf.

Gerið það fyrir okkur að trúa því að sigur Úkraínu sé mögulegur. Við þörfnust þess! Leggið aldrei framar trúnað á þá sem réðust lævíslega á okkur og fela sig á bak við lygar.

Allir Úkraínubúar eiga sér eina ósk. Við munum óska okkur um jólin – og óskin mun sannarlega rætast!

Íbúar Kyiv - Kænugarðs - leita skjóls fyrir sprengjuregninu á neðanjarðarlestarstöðvum.

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30