Fara í efni
Pistlar

„Paska“ í Úkraínu

ÚKRAÍNA – VIII

Lesia Moskalenko er úkraínsk, blaðamaður til margra ára. Hún kom sem flóttamaður til Akureyrar eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu fyrir ári. Lesia skrifar pistla um Úkraínumenn og heimalandið fyrir Akureyri.net í vetur.

  • Útgáfufélag Akureyri.net, Eigin herra ehf., fékk í vetur samfélagsstyrk frá Norðurorku til þess að greiða fyrir þýðingar á pistlum Lesiu.

_ _ _

„Vaknaðu, það er margt sem við þurfum að gera í dag.“ Þannig var amma vön að vekja mig þegar ég var barn. Ég aðstoðaði hana alltaf við að undirbúa páskana og hún kenndi mér að baka páskabrauð, sem við nefnum paska. Í Úkraínu köllum við páskahátíðina nefnilega Paska.

Úkraínska páskabrauðið „paska“

Ég fer á fætur og fram í eldhús. Þar snarkar í eldi í stóra ofninum okkar, það er heitt og viðarlykt í lofti. Amma segir mér frá því hvernig Sovétríkin lögðu blátt bann við því að haldin væru jól og páskar en fólk hefði ekki tekið í mál að kasta hefðum sínum fyrir róða. Við hefjumst handa við að búa til deig í paska. Mjólk, sykur, mörg egg, smjör, ger, hveiti, rúsínur. Ég er lítil stúlka og hef óskaplega gaman af því að þegar deigið reynir að flýja úr pottinum og að ég geti borðað það og skreytt Páskabrauðið. Lyktin er orðin ómótstæðilega girnileg. „Þú munt alltaf muna þetta þegar þú verður orðin eldri,“ segir amma ...

Hefðbundin skreytt úkraínsk egg, „pysanka“

Síðustu daga hafa Úkraínumenn, eins og aðrir kristnir menn í veröldinni, undirbúið páskahátíðina.

Langafasta í aðdraganda páskahátíðarinnar stendur alls í 49 daga. Síðasta vika fyrir páska er sérstaklega mikilvæg. Á miðvikudegi og fimmtudegi þarf að undirbúa allt; þá er bakað, eggin lituð og húsið þrifið. Síðasta fimmtudag fyrir páska kölluðum við mjúka fimmtudaginn.

Úkraínsk börn í kirkju um páska.

Þessa viku bökum við paska - hefðbundna hátíðarbrauðið. Við litum líka egg og skreytum. Þau fyrri kallast krahsanka - það eru einfaldlega egg sem við málum í mismunandi litum. Hefð er fyrir því að að farið er með krashanka í kirkju og þau eru blessuð ásamt páskabrauði og síðan borðuð. Frá grárri forneskju höfum við líka gert pysanka - skreytt egg með táknum, myndum af blómum, dýrum og fiskum, þetta er borið á með vaxi og þar til gerðum verkfærum. Skreytingar á pysanka eru mismunandi eftir héruðum í Úkraínu.

Hátíð risastórra páskaeggja í borginni Lviv.

Fólk klæðir sig hátíðlega fyrir páskana, fer til kirkju um kvöldið og hlýðir á páskamessuna. Þeir sem einungis vilja láta blessa páskakökurnar geta farið í næstu kirkju að morgni sunnudagsins í þeim tilgangi. 

Annað árið í röð halda Úkraínumenn páskana hátíðlega í skugga stríðsins. Á síðasta ári, þegar Rússar réðust inn í Úkraínu, fögnuðu flestir landsmenn páskum heima í ljóti hættunnar af því að ögra Rússum.

Að þessu sinni segjum við: „Kristur er upprisinn! Úkrína mun rísa upp á ný!“ 

Hefðbundinn vordans um páskahátíðina í Úkraínu.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00