Fara í efni
Pistlar

Úkraínskt jólahald: Hvað er Didukh?

ÚKRAÍNA – V

Lesia Moskalenko er úkraínskur blaðamaður til margra ára. Hún kom sem flóttamaður til Akureyrar eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu á nýliðnu ári. Lesia skrifar pistla um Úkraínumenn og heimalandið fyrir Akureyri.net í vetur.
_ _ _

Úkraína hefur frá öndverðu verið bændasamfélag. Margir helgisiðir okkar eru því tileinkaðir uppskerunni; litið er á siðina sem einskonar töfra þeirra sem yrkja jörðina.

Jólatré voru Úkraínumönnum algjörlega framandi fyrir 150 árum. Tákn okkar um jól og áramót voru allt annars eðlis. Á þessum hátíðisdögum að vetri var komið fyrir í húsinu töfratré sem gert var úr hveitiaxi, höfrum, rúg og hör, allt fest saman með litskrúðugum böndum. Þetta var kallað Didukh (sem hægt er að þýða sem afi, elsti karlmaðurinn í fjölskyldunni) og var tákn og minning um forfeðurna. Fólk trúði því að andi hinna gengnu lifði í þessu töfratré yfir vetrartímann.

Didukh var komið fyrir á besta stað í húsinu en eftir hátíðirnar var farið með það út og annað hvort gefið nautgripunum að éta eða brennt.

Sú hefð að skreyta jólatré barst til Úkraínu vestan úr Evrópu, líklega frá Þýskalandi. Fyrir 150 árum hófu auðugir aðalsmenn að skreyta jólatré á heimilinum sínum. Fólkið í þorpunum vissi hins vegar ekkert um jólatré fyrr en löngu síðar og hélt áfram þeim sið að fagna jólum með Didukh.

Úkraínska jólatréð hefur lent í ýmiskonar hremmingum. Rússneska bolsévikastjórnin réðst inn í Úkraínu árið 1919 og réð yfir landsvæði okkar allt til 1991. Á tímum Sovétríkjanna var Úkraínumönnum bannað að halda jólin hátíðleg, að skreyta jólatré, að syngja jólalög. Trúarbrögð voru bönnuð sem og allar úkraínskar hefðir, trúarlegar og veraldlegar. Textum hefðbundnu jólasöngvanna var breytt; í stað Jesú, sem vegsamaður var í söngvunum, komu nöfn hugmyndafræðings bolsévismans og kommúnismans, Vladimir Lenin og harðstjórans Stalín.

Síðar meir gáfu stjórnvöld í Sovétríkjunum leyfi til þess að nýju ári væri fagnað og fólk mátti skreyta jólatré, en jólahald var bannað eftir sem áður. Nú til dags vilja margir Úkraínumenn ekki hafa neitt með það að gera sem tengist Sovéttímanum, ekkert hafa saman að sælda við Rússland.

Íbúum Úkraínu í dag þykir ofur vænt um að skreyta jólatréð fyrir hátíðarnar. Þeim fjölgar líka sem taka upp þann gamla sið að fá sér hinn hátíðlega og töfrandi Didukh. Fjöldi handverksmanna framleiðir litla didukha til sölu og boðið er upp á kennslu í að búa þá til. Í borginni Lviv er stórum Didukh komið fyrir á torginu fyrir jólin og söngvar sungnir. Það er góð skemmtun bæði fyrir heimamenn og ferðafólk.

Við viljum endurvekja okkar gömlu hefðir  og halda þær þannig í heiðri. Og deila þeim með heimsbyggðinni!

Aðventa

Magnús Smári Smárason skrifar
10. desember 2024 | kl. 16:16

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00