Fara í efni
Pistlar

Hefur stríðið í Úkraínu staðið í eitt ár eða átta?

ÚKRAÍNA – VII

Lesia Moskalenko er úkraínsk, blaðamaður til margra ára. Hún kom sem flóttamaður til Akureyrar eftir að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu fyrir ári. Lesia skrifar pistla um Úkraínumenn og heimalandið fyrir Akureyri.net í vetur.
_ _ _

Í kvöld er eitt ár síðan Úkraínumenn vöknuðu upp við vondan draum. Fólk hringdi í foreldra sína, börn og vini: „Stríðið er hafið“ ... Þó hófst það í raun mun fyrr, þegar Rússar réðust inn í land okkar, á Krímskaga og í Donbas árið 2014. Á þeim tíma flúðu heimamenn til Kyiv, Lviv og annarra úkraínskra borga. Næstu átta ár skipulögðu Rússar svo ögrandi aðgerðir á hernumdu svæðunum og bjuggu sig undir meiriháttar stríð.

Við fyrstu sýn virðist árás Rússa á Úkraínu árið 2022 fáránleg. Svo er hins vegar ekki. Eftir Virðingarbyltinguna 2014 áttaði rússneski einræðisherrann sig á því að Úkraína var á hraðri leið frá Rússlandi og sovéskri fortíð. Við erum Evrópuland og viljum vera hluti hins siðmenntaða heims. Hann ákvað því að ná yfirráðum í landinu með valdi áður en okkur tækist ætlunarverkið.

Borgin Mariupol, fyrir innrás Rússa og nú. Hinar myndirnar eru allar teknar í Virðingarbyltingunni árið 2014.

Tilviljun réð því ekki að Joe Biden forseti Bandaríkjanna kom til Kyiv á mánudaginn var, 20. febrúar. Hann lagði blómsveig að minnisvarðanum um hetjurnar sem létu lífið fyrir föðurlandið; það var á þessum degi árið 2014 að Úkraína valdi loks Evrópuleiðina og losaði sig við Viktor Janúkóvitsj forseta, strengjabrúðu Kremlverja. Þann 20. febrúar 2014, í Virðingarbyltingunni,  voru Hinir himnesku hundrað drepnir – Úkraínumenn sem börðust fyrir virðingu og frelsi.

Áður en hann gaf fyrirmæli um að ráðist skyldi á fólk á Maidan torgi í Kyiv, ræddi Janúkóvítsj við Vladimir Pútín í síma. Óyggjandi sannanir liggja fyrir um það; upplýsingar sem Úkraínumenn hafa safnað saman eftir rannsókn. Yfirvöld kölluðu morðin „aðgerð gegn hryðjuverkum.“

Leyniskyttur skutu á óbreytta borgara sem héldu út á götur til friðsælla mótmæla. Hljóð- og myndupptökur sýna fram á að Rússar fóru fyrir morðingjunum, sem flúðu síðan undan réttvísinni til Rússlands. Janúkóvitsj forseti flúði sömu leið og er þar enn í felum.

 

Nokkrar minningar... Euromaidan, eða Virðingarbyltingin, hófst þegar Viktor Janúkóvítsj, þáverandi forseti, stöðvaði undirritun samnings um samstarf Úkraínu og Evrópusambandsins. Í kjölfar þessu hófu námsmenn í Kyiv að mótmæla. Yfirvöld skipuðu öryggissveitum að stöðva friðsæl mótmælin og lúskra á mótmælendum. Eftir að þeir höfðu þurft að þola barsmíðar þustu hundruð þúsunda manna út á götur Kyiv. Fólk kom hvaðanæva af landinu.

Ég man þessa daga vel. Bjó þá í miðborg Kyiv og við fórum á Maidan torg á hverjum morgni. Við höfðum með okkur mat og hlý föt og dvöldum þar þangað til nóttin skall á. Það var mjög kalt en við hlýjuðum okkur við eld af brennandi dekkjum. Fólk kom saman á torginu allan veturinn, allt þar til ný ríkisstjórn tók við völdum. Allir vissu hve mikilvægt var að þrauka einn dag, og svo þann næsta. Þannig gekk það í 94 daga.

Það var skelfilegt þegar vopnaðir lögreglumenn réðust til atlögu á Maidan. Það gerðist alltaf að kvöldlagi svo konur og börn voru beðin um að yfirgefa svæðið áður en kvölda tók. Aðeins þeir sem treystu sér til og gátu barist urðu eftir. Framan af reyndu yfirvöld að berja fólk og eitra fyrir því með gasi. Síðan hófst skothríð. Mestu átökin áttu sér frá frá 18. til 20. febrúar. Fjöldi aðgerðarsinna var drepinn og mörg hundruð manns særðust.

Þann 19. febrúar ræddu leiðtogar andstæðinga Janúkóvitsj við forsetann og að því búnu fullvissuðu þeir fólk um að ekki yrði framar ráðist á mótmælendur. Sendinefnd frá Evrópusambandinu kom til Kyiv til að stöðva átökin en hvað sem öðru leið héldu leyniskyttur ótrauðar áfram og sífellt fleiri voru drepnir á Maidan torgi.

Fulltrúar á úkraínska þingsins komu saman og gerðu drög að yfirlýsingu þar sem þeir fordæmdu dráp á óbreyttum borgurum og lýstu því yfir að framferði öryggissveitanna væri ólöglegt. Þá flúði Viktor Janúkóvitsj til Rússlands.

Þann 21. febrúar kvaddi öll úkraínska þjóðin Hina himnesku hundrað á Maidan. Hundrað líkkistum var stillt þar upp. Yngsta fórnarlambið var 17 ára, sá elsti sem hafði verið drepinn var rúmlega áttræður.

Rússlandi tókst ekki að ná völdum í Úkraínu með aðstoð strengjabrúðunnar Janúkóvítsj og ríkisstjórn hans, svo önnur áætlun var dregin fram. Nokkrum vikum síðar hófst vopnuð innrás Rússa á Krímskaga og þeir innlimuðu úkraínsk landsvæði. Næsta skref var síðan innrás Rússlands í Donbas í apríl 2014.

Við Úkraínumenn vitum að stríðið sem nú stendur yfir hófst árið 2014. Öll þessi átta ár höfum við barist en ekki fengið almennilegan stuðning frá heimsbyggðinni í baráttu okkar. Þjóðir heims trúðu orðum Rússa um að þetta væri ekki innrás heldur innanlandsátök í Donbas og Rússar í Úkraínu væri að vernda einhverja.

Nú hafa þjóðir heims loks áttað sig trúa Úkraínumönnum. Því miður gerðist það ekki fyrr en eftir þjóðarmorð og hið mikla stríð, þar sem við misstum allt of mikið. Úkraína mun binda enda á baráttu sína fyrir frelsi og reisn, baráttu sem hófst 2013 og 2014 með viðarskjöldum og brennandi hjólbörðum á Sjálfstæðistorginu, á vígvellinum með HIMARS, Stinger og Javelin eldflaugum.

OpenAI: Gervigreindarbyltingin á hraðferð – er kapp best með forsjá?

Magnús Smári Smárason skrifar
23. júlí 2024 | kl. 20:00

Er unga fólkið döngunarlaust?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
23. júlí 2024 | kl. 06:00

Þjóðvegir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. júlí 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Syðra-Gil

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:30

Skautun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:00

Fíflin á götum Akureyrar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
20. júlí 2024 | kl. 06:00