Jóhann Árelíuz skrifar
07. desember 2025 | kl. 06:00
EYRARPÚKINN - 68
Segularmböndin fóru eins og eldur í sinu um landið upp úr 1960.
Armböndin voru úr silfurlitum málmhlekkjum eða eirlitum og skyldi segullinn sjúga í sig hylgræna vessa líkamshrósins og hreinsa ræsi anda og sálar.
Fyrir segulkraftinum féllu svo pössunarsamir menn sem pabbi og Ingólfur frændi og víða í Vopnafirði skartaði fólk hlekkjum silfurs og eirs og báru sumir tvö armbönd til betri tíðar og man ég Möggu föðursystur með eirlitt vinstra og silfur hægra og hefðu fengist nógu stór armbönd hefðu hinir verst höldnu haft þau um hálsinn líkt og Suðurhafsstúlkur blómakransa enda segularmböndin á allra vörum og úlnliðum.
Ingólfur bar eirlitan segul að sólu í hlaði Skjaldþingsstaða og þó krafturinn hefði örlítið dofnað eftir sigur Viðreisnar 1963 hafði bóndi enn nokkra trú á lækningarmætti hinna dýrkeyptu hlekkja, heyrnin hafði jú ekki versnað til muna.
Og víst var kraftur í armböndum atarna, maður gat togað túkall upp af borði með þeim nýjum en þau eldri héldu einni krónu.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Segularmböndin er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.