EYRARPÚKINN - 49
Það var talað um fríið mánuðum saman undir viðkvæðinu Sjáumst í sumarfríinu, geri það í sumarfríinu enda þær langþráðu vikur lausn margs vanda sem steðjaði að húsi og verðlaunalóð.
Pabbi svaf örlítið fram eftir á morgnana og fékk sér kaffi í sæmilegri ró og hlustaði á útvarpið. Smuga að Stefán Íslandi birtist á öldum ljósvakans með Áfram veginn í vagninum ek ég eða Einar Kristjáns með Hamraborgina háa og fagra og þá helst fyrir hádegisfréttir.
Frjáls af stimpilklukku verksmiðjunnar fór fjárbóndinn höndum um garðinn, dyttaði að og bætti.
Kalkaði Einar húsið kríthvítt utan í byrjun frís ef veður leyfði og voru seremóníur við kalkið í stóru gulu fötunni og fylgdist ég nauið með pabba þegar hann blandaði duft og vatn. Varð að passa uppá hár um áferðina. Bleytti ég veggina áður en pabbi kalkaði og var ábyrgðarstarfi.
Málaði karl lista og gluggakistur úr málningu sem til féll í skúrnum og var fjölskyldan sjaldan sammála honum um litavalið sem var praktískt og fagurgrænt þakið ekki málað að óþörfu. Mamma hafði ýmislegt til að mála að leggja en hristi mest höfuðið yfir þessum manni.
Þegar fjölskyldan flutti úr Melgerði var aðeins ein hrísla á lóðinni og sprændi húseigandi, Þóroddur garðyrkjustjóri Guðmundsson, upp við hana á hverjum morgni og var hríslupíslin nær dauða en lífi þegar pabbi tók hana að sér.
Lýsti Axel granni okkar þvaglátum Þórodds kímnislega. Nú var gullöld garðsins græna og við sálguðum fíflum feðgar.
Fólk flanaði ekki að neinu í sumarleyfum og margir unnu í fríum sínum. Ferðalög í lágmarki og bílakostur og liðu þrjú fjögur ár milli heimsókna okkar í Vopnafjörð. Um langan veg að fara og pabbi lítið fyrir að liggja uppá fólki um hásláttinn enda minnugur orða ættingjans sem keyrði okkur uppí Hauksstaði á Willýsnum Í lagi að skjóta ukkur sem komið svo sjaldan!
Lóðin hirt og snyrt og slett í sprungur stéttar. Tígulsteinar sóttir og greyptir í gangstíga, greinar sagaðir af trjám og lakkað í sárin. Takið til í skúr og gróðurhúsi og skipt um nokkrar rúður.
Yfir öllu ró júlímánaðar eftir snjóavetur og ískalt vor.
Í einu sumarfríi keypti pabbi á mig grænu smekkbuxurnar hjá Steina Austmar í Strandgötu og sólgleraugu úr plasti og sendi mig í Hörgárdalinn til Sigrúnar því mamma lá á spítalanum. Mitt fyrsta verk var að týna sólbrillunum útá túni og grét þær sáran.
Pabbi málar girðingarnetið í hvítum bol í brúngulum vinnubuxum með vasaklútinn rauðdröfnótta uppúr rassvasanum.
Tóbaks-Steini staldrar við Ægisgötumegin með hendur á baki, tekur pabba tali um dag og veg og býður í nefið.
Sumarfrí með sól í heiði.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Sumarfrí er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.