Fara í efni
Pistlar

Atlavík

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 90

Það sat í okkur systkinunum að afi og amma hefðu ekki farið til útlanda, aldrei einu sinni um ævina, en þau hefðu þó farið í Atlavík, og það væri áleiðis.

En þau höfðu einmitt orð á því. Hallormsstaðaskógur væri svo erlendis að það nægði þeim alveg að slá niður tjaldhælum sínum í svoleiðis lundi, og halla sér svo aftur í sólstólunum á meðan lognið færði þeim frið í hjarta.

Man alltaf brasið við að tjalda. Og þótt það væri eilíflega þess virði, fylgdi því alltaf nokkurt orðbragð úr munni pabba míns. En hann kynni þetta best sjálfur, svo mamma ætti að huga að ungviðinu og eldra fólkinu á meðan. Og það var spekúlerað í tjaldsúlum svo til seinnipartinn á enda, en hverjar pössuðu saman, var helst til helvítlega orðuð ádrepan á hans vörum.

Svo reis hún nú samt, seglaborgin sjálf, og það voru dýnur á óvörðu grasinu sem máttu heita þægilegar, en þess utan var prímus á miðju gólfinu sem átti að geta yljað öllum þeim sem eitthvað voru að efast nokk um útileguna.

Gleymi ekki græjunum, þeim öðrum sem fylgdu útilegunum í fjölskyldu okkar. En öskubakki mömmu bar þar einna hæst, því það var aldrei fulltjaldað fyrr en hann var kominn á sinn stað. Og það var í hæfilegri hæð við miðja innri súluna svo auðvelt væri að slá af sígarettunum á meðan pabbi var að svæfa okkur litlu krakkana í samanvöðluðum svefnpokunum.

En ég man ekki nokkru sinni eftir því að mér hafi orðið óglatt af þeim óbeinu reykingum, sem síðar voru kallaðar svo.

Því maður lifði sig inn í spennu og þrylli morgundagsins. En næsta dag ætti að tálga oddmjó sverð úr efniviði skógarins í Atlavík og ráðast þaðan til atlögu við Lagarfljótsorminn – og fara þar mikinn og lengi í morgunsárið. En hafa loks betur.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SKYKKJUR

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Sumarfrí

Jóhann Árelíuz skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Þessi þjóð er farin í hundana

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. júlí 2025 | kl. 06:00

Reikningur vegna látins manns

Orri Páll Ormarsson skrifar
25. júlí 2025 | kl. 09:00

Sýprus

Sigurður Arnarson skrifar
23. júlí 2025 | kl. 09:00

Brilljantín

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. júlí 2025 | kl. 11:30