Fara í efni
Pistlar

Roskin hjón á Syðri Brekkunni

Sífellt færra kemur á óvart í lífi roskinna hjóna á Syðri Brekkunni og hver dagur er þar öðrum líkur. Tilveran er svo tilbreytingarsnauð að heimsóknir í apótek til að sækja nýja skammta af hægðalyfjum og tannlími eru kærkomin tækifæri til að bregða út af vananum og hitta fólk.

Nýlega kom þó kvöld sem virtist lofa góðu og hljómaði spennandi. Konan átti að vera mætt í saumaklúbb klukkan sjö og klukkutíma síðar hófst karlakórsæfing hjá mér.

Tveir viðburðir á sama kvöldinu hjá okkur!

Hún gat ekki verið með mér í kvöldmat svo ég nýtti mér tækifærið og keypti mér sperðla til að sjóða.

Rétt fyrir sjö, þegar hún var búin að mála sig og klæða fyrir klúbbinn, voru sperðlarnir búnir að krauma sinn tilskilda tíma. Enginn á að fara svangur á kóræfingu. Garnagaul er eðlilega ekki vel séð þar – eða heyrt, réttara sagt.

Nánast á sama augnabliki og ég byrjaði að gæða mér á kræsingunum heyrði ég konuna leggja af stað í klúbbinn.

Nokkru síðar, þegar ég hafði gumsað í mig sperðlunum með kartöflum og grænum baunum og þreif mig eftir atganginn, var gengið inn um útidyrnar. Heyrðist mér sem sú innganga væri dálítið lúpuleg.

Við nánari athugun reyndist það vera eiginkonan sem hafði farið fýluför því hún var einu kvöldi of snemma í klúbb.

Ég tók séntilmannlega á móti henni með viðmóti þess manns sem hefur orðið þess áskynja að hann er kvæntur konu með fyrstu einkenni af elliglöpum. Digrum og sefjandi rómi hughreysti ég hana enda var hún strax þá farin að ásaka sig fyrir aulaháttinn. Ég benti henni á að ekkert væri óeðlilegt við að konur á sjötugsaldri rugluðust á dagsetningum.

„Svona, svona,“ sagði ég og dreif mig síðan staffírugur og glottandi á karlakórsæfinguna þótt ég hefði á leiðinni óneitanlega töluverðar áhyggjur af konum sem ekki vita almennilega hvenær þær eigi að mæta á löngu boðaða saumklúbbsfundi.

Síðan ók ég þangað þar sem karlakórinn átti að æfa. Grunsamlega fáir bílar voru þar á bílastæðinu og allt slökkt í salnum.

Ég var frekar skömmustulegur þegar ég kom heim og ljóst varð að ég hafði ruglast enn meira á dagsetningu karlakórsæfingarinnar en eiginkonan á dagsetningu saumaklúbbins.

Svona er nú líf roskinna hjóna á syðri Brekkunni.

Andrúmsloftið getur verið spennu þrungið og jafnvel eitrað. Þó er held ég ekki ástæða til sérstakra samfélagslegra viðbragða að svo stöddu.

Færi á hinn bóginn svo, að ég mætti í saumaklúbb en Bryndís mín á karlakórsæfingu, gæti verið ástæða til að gera íslenska heilbrigðiskerfinu viðvart þannig að það sé undir það búið að gera tilhlýðilegar ráðstafanir vegna roskinna hjóna á Syðri Brekkunni.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Regnbogagífur og börkur gífurtrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
19. júní 2024 | kl. 11:00

Samtalsráðgjöf við spunagreind, leiðbeiningar fyrir mannfólk

Magnús Smári Smárason skrifar
18. júní 2024 | kl. 12:00

Stillansar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. júní 2024 | kl. 11:30

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00