Fara í efni
Pistlar

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Nýlega var ég á ferðinni í Ólafsfirði. Þaðan á ég indælar minningar. Ég byrjaði minn prestsskap þar ytra og kom þangað nývígður haustið 1986, algjörlega blautur á bak við eyrun, reynslulaus og með lítið sjálfstraust. Þá var nú gott að söfnuðurinn var skilningsríkur, umburðarlyndur og uppörvandi. Ég lærði allt það mikilvægasta um starf sálnahirðisins af Ólafsfirðingum. Þakkarskuld mín við þá fyrir það verður aldrei að fullu greidd.

Ég var yngsti prestur landsins þegar ég hóf störf í landnámi þeirra Ólafs bekks og Gunnólfs gamla. Strákslegt útlit mitt var prestslegum virðuleika ekki til framdráttar. Þroskinn seinn og lélegur eins og skeggvöxturinn.

Fljótlega eftir komuna út eftir var ég beðinn að skíra barn í heimahúsi. Þegar ég birtist þar í stofunni, klæddur prestaskyrtu og með hempu og pípukraga í ferðatösku, sat þar meðal skírnargesta unglingsstelpa, gestkomandi, búsett í fjarlægum landshluta. Þegar hún sá hinn ungæðislega prest rak hún upp stór augu og spurði svo allir heyrðu: „Er þetta prestur?“ – með áherslu á þetta.

Þegar henni var svarað játandi sagði hún hneyksluð: „Erðanú prestur!“ – enda presturinn í hennar sveit roskinn og virðulegur karl eins og prestar á þeim tíma áttu að vera.

Eiginkona mín, prestsfrúin eða madamman, var tveimur árum yngri en ég – og hefur heldur dregið í sundur með okkur síðan. Hún leit alls ekki út fyrir að vera eldri en hún var. Þennan fyrsta vetur okkar í Ólafsfirði átti togarasjómaður erindi upp á prestssetur því hann ætlaði að panta skírn. Hann hafði ekki hitt nýja prestinn áður og var töluvert eftirvæntingarfullur þegar hann hringdi dyrabjöllunni.

Bryndís mín kom til dyra og skírnarpabbinn sagði: „Sæl, vinan, er pabbi þinn heima?“

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2024 | kl. 20:00

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00