Í Hreiðarsskóla

EYRARPÚKINN - 2
Fullur eftirvæntingar hélt ég af stað upp Eyrarveginn.
Ertu í smábarnaskóla greyið söng í Simma þegar hann skældi sig framan í mig en ég kunni nafngiftinni illa.
Hreiðarsskóli tveggja hæða hús með lágu risi og eins og hálfkarað þrátt fyrir háan aldur þar sem það húkti á horni Geisla- og Gránufélagsgötu.
Hreiðar Stefánsson gékk hljóðandi um stofuna með litla flugvél í hægri hendi og sagði Sss! enda samdi Hreiðar æfingabók í hljóðlestri sem hét Óskasteinninn á tunglinu ásamt konu sinni Jennu Jónsdóttur.
Fór allt í baklás þegar Hreiðar beygði sig yfir mig hvæsandi Segðu H! og ætlaði maður aldrei að losna undan þeim andardrætti og þó lagði ég mig fram í leirhnoði og mótaði margar styttur af Hreiðari sitjandi á klósettinu.
Segðu H! geltum við strákar uppí stelpurnar lakkríssvartir.
Vermdi ég skammarkrókinn oftast allra og skápinn kalda en Palli Sól sat aftastur þegar hann var ekki í skammarkróknum eða skápnum niðri, teiknaði herskip og fýldi grön.
Palli var eldhærður og árinu yngri en við hin og settur í í smábarnaskólann sökum oflæsis frá unga aldri.
Hann minnti mig á söguna um Palla sem var einn í heiminum.
Bárum við saman bækur okkar og kölluðum Gagn og gaman Kúk og piss.
Sól, sól, sól.
Óli sá stól.Lóa sá sól.
Og þó setan væri ekki löng í smábarnaskólanum ætluðu stundirnar aldrei að líða þegar ég barðist við bókstafina eins og fugl í búri en hjartað söng norðangarranum lof og prís.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Hreiðarsskóli er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.


Eldhúsdagsumræður

Lýsið frá Tona og Jónda

„Við erum einu skrefi frá því að sagan endurtaki sig“

„Ég yfirgaf ekki Rússland, Rússland yfirgaf mig“
