EYRARPÚKINN - 52
Þegar bekkjarbræðrum þótti nóg komið af harðstjórn minni og sjálfsánægju dró ég mig í hlé og kvað hreinlegast að þeir réru sinn sjó án mín.
Þeir gætu haft þetta eins og þeir vildu og stóð ekki til að ég færi að spila undir stjórn Stebba Rut að undirlagi Þorsteins Vilhelmssonar sem skaust niður Hlíðarfjall á skíðum og kunni skriðsund en vissi ekkert um eðli knattspyrnunnar.
Skildu leiðir við hitastokkinn.
Tveim dögum síðar lék fjórði bekkur bé undir stjórn Steina og Stebba og búið að stokka upp liðið og senda suma fram en aðra aftur en Sveinbjörn Guðmundsson kominn til halds og trausts á miðjuna og Steina Villa í senterinn.
Fylgdist ég með leiknum úr herbergisglugga mínum.
Að vísu sá ég ekki á völlinn því það rétt glitti í syðra markið á milli húsa Rúna Jóhanns og Sigga Svan en það sem ég sá og heyrði gladdi hjartað.
Það var þóf um allan völl og liðið rétt marði 1-1 jafntefli gegn pottormum úr öðrum bekk og voru slökustu úrslit á okkar skólatíð. Mátti ég hafa mig allan við að skellihlægja ekki í skólanum daginn eftir svo skælbrosandi var ég.
Og var nú annað hljóð í strokknum þegar þeir komu til mín hver af öðrum bekkjarbræðurnir og sögðust aldrei hafa haft neina trú á þessu fyrirkomulagi, þeim hefði verið att útí þetta af Þorsteini Vilhelmssyni. Var ég bljúgur líka og eftir nokkrar fortölur á hitastokknum tilbúinn að ræða málið.
Ég gat hugsað mér að taka við fyrirliðastöðunni aftur, stjórn og æfingum liðsins en þá þýddi ekkert helvítis múður, ég hlyti að ráða einn og alfarið.
Eða höfðu þeir Steini og Stebbi eitthvað frekar til mála að leggja?
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Í hita leiksins er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.