Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Strandgata 7

Kannski mætti kalla Strandgötu 7 „þjóðhátíðarhús“, en byggingarleyfið fyrir því var afgreitt þann 17. júní. Var það reyndar löngu áður en sá dagur varð þjóðhátíðardagur Íslendinga ...

Ofarlega við Strandgötu, í Miðbænum, standa fjögur reisulegt og glæst timburhús. Þau eru nr. 7-13 við Strandgötu og eiga það sameiginlegt, að vera byggð 1907 og standa á einskonar brunareit en forverar allra þessara húsa brunnu til grunna þann 18. október 1906. Þar brunnu til ösku a.m.k. sjö tiltölulega nýleg hús (það elsta var byggt 1885 eða 21 árs) og misstu um 80 manns heimili sín en ekki varð manntjón. Hlýtur það að teljast kraftaverk, því menn lögðu sig í mikla hættu við slökkvistarf og einnig tíðkaðist þá, að hlaupa inn í brennandi hús til að bjarga verðmætum. Þá breiddist eldur hratt út í timburhúsunum, sem einangruð voru með m.a. hálmi, spónum og reiðingi, svo eflaust áttu margir fótum fjör að launa.

Oddeyrarbruninn mun hafa átt upptök sín í stórhýsinu Horngrýti, Strandgötu 5, og breiddist fljótt yfir í Strandgötu 7 og þaðan austur eftir götunni. Þessi hús voru byggð um 1902-1905 og voru ein þau stærstu og glæsilegustu í bænum. Strandgata 5 var þrílyft á háum kjallara og með burstum og nafnið Horngrýti til komið vegna sérkennilegra bursta sem skreyttar voru útskurði. Strandgata 7 var einnig þrílyft og með miklum turni á vesturenda og því kallað Turnhús. Af myndum að dæma virðast þessi hús hafa verið á stærð við t.d. Menntaskólann (Gamla Skóla, sem þá var Gagnfræðaskóli) og Samkomuhúsið. Fullyrða má, að upprunalegu glæsihýsin við Strandgötu 5 og 7 hafi enginn núlifandi maður séð berum augum.

En á grunni Turnhússins var það hús sem nú stendur á Strandgötu 7 byggt árið 1907. Var þar á ferðinni Jósef Jónsson sem átti Turnhúsið er það brann og hafði þar starfrækt verslun. Fékk hann að reisa hús, 20x15 álnir, á álnar háum grunni, með bakskúr upp að þaki, 3,5x3,5 álnir. [Ein alin, álnir í ft., er 63 cm] Framhlið hússins skyldi fylgja „hinni ákveðnu húsalínu“ og austurstafn skyldi 10 álnir frá húsi Kolbeins Árnasonar [Strandgata 9]. Þetta ákvað Bygginganefnd á fundi sem hún hélt þann 17. júní, en árið 1907 voru jú tæp 40 ár í lýðveldisstofnun svo sá dagur var ekki orðinn sá hátíðisdagur sem hann nú er.

Strandgata 7 er tvílyft timburhús með lágu aflíðandi risi, panelklætt á veggjum og með bárujárni á þaki. Á bakhlið er viðbygging með aflíðandi, einhalla þaki. Krosspóstar eru í gluggum efri hæðar en síðir „verslunargluggar“ á neðri hæð, og lætur nærri, að suður- og vesturhlið neðri hæðar sé einn gluggi. Bárujárn er á þaki og panelklæðning á veggjum. Um er að ræða tiltölulega nýlegar klæðningar, settar á húsið við endurbætur fyrir aldarfjórðungi. Frá upphafi var húsið klætt bárujárni en stórbrunar á borð við þann sem hér varð haustið 1906 vöktu menn til umhugsunar um eldvarnir. Fólust þær aðgerðir í því, að klæða hús að utan óbrennanlegum efnum á borð við járn, blikk og steinskífu og hefta þannig útbreiðslu elds á milli húsa.

Jósef Jónsson, sem byggði húsið, var frá Borgarhóli í Öngulsstaðahreppi. Hann starfaði lengi vel sem ökumaður þ.e. ók vögnum (bílar ekki komnir til sögunnar) en gerðist síðar verslunarmaður. Á meðal barna hans var Jóhannes, glímukappi og athafnamaður, löngum kenndur við Hótel Borg. Ekki er ólíklegt að Jóhannes glímukappi hafi komið að byggingu hússins með föður sínum. Árið 1915 er eigandi hússins Kristín Eggertsdóttir frá Kroppi í Hrafnagilshreppi og rak hún þarna hótel. Kaupfélag Verkamanna og verkalýðsfélög eignuðust húsið árið 1930. Þar höfðu þau fundarsal og skrifstofuaðstöðu um áratugaskeið og margir kannast við húsið sem Verkalýðshúsið, en á neðri hæð voru verslanir, m.a. vefnaðarvörudeild og saumastofa um miðja öldina. Síðustu áratugi 20. aldar var húsgagnaverslunin Augsýn þarna til húsa. Árið 1997 var hafist handa við endurbyggingu hússins sem þá var orðið nokkuð hrörlegt. Á meðal þeirra sem stóðu að þeim framkvæmdum voru hin valinkunnu Grétar Örvarsson og Sigríður Beinteinsdóttir (Sigga og Grétar í Stjórninni). Síðsumars 1997 var opnaður í Strandgötu 7 veitinga- og skemmtistaðurinn Kaffi Akureyri og var hann starfræktur fram yfir 2010. Frá endurbótum hefur veitinga- og skemmtistaðarekstur verið í húsinu og nú er þar veitingastaðurinn Sjanghæ.

Strandgata 7 er látlaust og reisulegt hús og í mjög góðri hirðu, enda aðeins rúmir tveir áratugir frá stórkostlegum endurbótum. Í Húsakönnun frá 2014 er húsið sagt „hafa mikið gildi fyrir götumynd Strandgötu sem hluti heildstæðrar götumyndar“ (Landslag 2014:69) auk þess sem það er aldursfriðað þar sem það er orðið aldargamalt. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð, að undanskilinni viðbyggingu og gluggaskipan hefur eitthvað verið breytt gegnum tíðina. Húsið er skemmtilegrar og snotrar götumyndar við „miðbæjarhluta“ Strandgötu, vestan Glerárgötu. Um er að ræða fjögur hús, öll byggð árið 1907 eftir Oddeyrarbrunann og öll hlutu þau gagngerar endurbætur árin 1997-2004. Götumynd Strandgötu allrar, frá Bótinni og niður á Oddeyrartanga, er með þeim heilsteyptari og glæstari í bænum, að mestu skipuð húsum frá áratugunum 1880-1920. Myndin er tekin þann 8. desember 2021.

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 328, þ. 17. júní 1907. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vefnum: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1902-1921 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Jón Hjaltason. 2016. Bærinn brennur. Akureyri: Völuspá útgáfa

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00