Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Gamla Gróðrarstöðin á Krókeyri

Ein af eyrunum undir Akureyrarbrekkunum er Krókeyri. Líkt og hin eiginlega Akureyri er Krókeyrin að mestu orðin umlukin síðari tíma uppfyllingum. Á Krókeyri er m.a. safnasvæði Iðnaðarsafnsins og Mótorhjólasafnsins auk græns unaðsreits sem e.t.v. fáir vita af, þ.e. Gróðrarstöðvarreiturinn. Þar stendur einnig háreist timburhús frá upphafi 20. aldar, Gamla Gróðrarstöðin. Það var reist af Ræktunarfélagi Norðurlands, undir forystu Sigurðar Sigurðarsonar.

Gamla Gróðrarstöðin er tvílyft timburhús á háum kjallara með háu risi. Á bakhlið, nær norðurstafni er mjótt útskot (stigabygging) sem nær upp að þakbrúnum. Allt er húsið járnklætt, veggir jafnt sem þak og krosspóstar í flestum gluggum. Á framhlið neðri hæðar eru póstarnir víðari með margskiptum póstum. Bretti eða bönd eru undir gluggum og eru þau samfelld eftir hliðum hússins og sams konar bönd eru á efstu hæðarskilum undir stöfnum. Á þakskeggjum og þakbrúnum má sjá skreytta, útskorna sperruenda en slíkt var meðal einkenna katalóg- eða sveitserhúsa, veglegra húsa, sem komu tilsniðin frá Noregi. Húsið mælist um 11x8m á kortavef og útskot nærri 2x2m.

Um aldamótin 1900 átti sér stað ákveðin vakning í trjárækt á Eyjafjarðarsvæðinu og raunar landinu öllu. Um var að ræða mikið brautryðjendastarf en trú manna á slíkri ræktun hérlendis hafði framan af verið takmörkuð. (Trúlega hefðu fáir trúað því þá, að eftir rúma öld yrðu Akureyrarbrekkurnar bókstaflega „viði vaxnar milli Stóra- Eyrarlands og fjöru“). Hluti þessarar skógræktarbyltingar var stofnun Ræktunarfélags Norðurlands árið 1903 að frumkvæði Sigurðar Sigurðarsonar frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Hann hafði verið ráðinn skólastjóri landbúnaðarskólans á Hólum haustið 1902. Á meðal nýjunga, sem hinn ríflega þrítugi Fnjóskdælingur stóð fyrir, voru sérstök námskeið fyrir bændur. Var það á einu slíku, á útmánuðum 1903, sem hugmyndin að Ræktunarfélaginu varð til og þann 26. mars bundust 46 norðlenskir bændur þar fastmælum um stofnun Ræktunarfélagsins og greiðslu fjárframlags, sem samanlagt nam 500 krónum. Formlegur stofnfundur var svo haldin 11. júní um sumarið og skipuðust æðstu embætti þannig, að formaður var Páll Briem amtmaður, téður Sigurður Sigurðsson gjaldkeri og ritari var Stefán Stefánsson skólameistari (sbr. Steindór Steindórsson 1952:2-3).

Ræktunarfélagsmenn tvínónuðu ekki við hlutina, því um vorið 1903, nokkru fyrir formlega stofnun, hófust þeir handa við jarðvinnu, girðingarvinnu og sáningu á 25 dagsláttu (um 8 hektara) landi, sem Akureyrarbær lét félaginu í té, í Naustagili og við Krókeyri. Var þessi velgjörningur bæjarins, sem afgreiddur var 17. júní 1903, „kvaðalaus með öllu, að öðru en því, að landið skyldi tekið til notkunar samkvæmt tilgangi félagsins innan 5 ára, að öðrum kosti félli það aftur til bæjarins“ (Steindór Steindórsson 1952:11). Mjög fljótlega, líklega allt frá upphafi, sáu Ræktunarfélagsmenn nauðsyn þess, að byggja hús á svæði sínu sem hýsa ætti tilraunastöð. Var það á Aðalfundi félagsins í maí 1905 sem samþykkt var að „[...] félagið verji alt[svo] að 7000 krónum til að byggja hús í líkingu við það sem teikning 1 segir“ (Stefán Stefánsson 1906:9). Því miður fylgir ekki sögunni hver gerði umrædda teikningu 1. Mögulega var um að ræða teikningar frá norskum „katalógum“ og húsið komið tilhöggvið, eða hönnun þess byggst á katalóghönnuninni. Teikningar frá byggingu hússins virðast ekki hafa varðveist en á vef Héraðsskjalasafnsins má finna teikningu af húsinu (ath. þarf að fletta aftast í skjalið) frá því að rafmagn var lagt í það fyrst. Það hefur væntanlega verið árið 1922 en þá um haustið var rafmagni frá Glerárvirkjun hleypt á Akureyri.

Þann 2. nóvember um haustið [1905] hélt Bygginganefnd Akureyrar fund á lóð Ræktunarfélags Norðurlands og bókaði, að félaginu væri leyft, eftir beiðni sinni, að reisa íbúðarhús, tvílyft timburhús á háum kjallara, 10 álnir (6,3m) frá girðingu. Austurhlið í réttri stefnu við girðingu og norðurhlið í réttri stefnu við stólpa norðanmegin við girðingarhliðið. Húsið 16 álnir að lengd og 12 álnir að breidd (u.þ.b. 10x7,5m). Á aðalfundi Ræktunarfélagsins þann 21. júní 1906 sagði Aðalsteinn Halldórsson „[...]frá húsbyggingu félagsins í tilraunastöð þess á Akureyri, og sem nú er vel á veg komin. Jafnframt lagði hann fram uppdrátt af húsinu“ (Stefán Stefánsson 1907:14). Ekki var greint frá höfundi uppdráttar, frekar en fyrri daginn, en freistandi að giska á, að Aðalsteinn Halldórsson hafi verið byggingarstjóri hússins og gert að því endanlega teikningu. Aðalsteinn (1869-1941), sem fæddur var að Björk í Öngulsstaðahreppi, var á þessum tíma forstjóri Tóvélaverksmiðjunnar á Gleráreyrum. Hann var síðustu ár ævi sinnar bóndi í Reykhúsum í Hrafnagilshreppi. Húsinu, sem fullbúið var sumarið 1906, er lýst í þessu sama ársriti: „Aðalhúsið er allstórt og vandað 16 ál. langt og 12 ál. breitt tvílyft með 4 ál. háum steinkjallara. Þar er kenslustofa[svo] og svefnherbergi fyrir nemendur og verkamenn, íbúð fyrir aðalstarfsmann, skrifstofa, tilraunastofa, frægeymsluherbergi og gott rúm í kjallara fyrir verkfærasýningu. Húsið var virt í vetur albúið 7,925 krónur“ (Stefán Stefánsson 1907:7).

Þannig var þetta hús nokkurs konar „fjölnotahús“ þ.e. skóli, heimavist, vinnubúðir og íbúðarhús fyrir tilraunastjóra. Húsið virðist fyrst birtast í manntölum bæjarins árið 1909 og þá undir nafninu Ræktunarfélag Norðurlands. Þar er efst á blaði Þóra Sigurðardóttir húsfrú, þrjú börn og tvær vinnukonur (einnig sögð búsett á Hólum í Hjaltadal). Páll Jónsson, 26 ára ráðsmaður, er einnig þarna búsettur og þá Jóninna Sigurðardóttir sem titluð er skólastýra, auk ellefu námsmeyja. Á þessum árum fór fram matreiðslukennsla í Gróðrarstöðinni, sem Jóninna annaðist. Jóninna Sigurðardóttir var valinkunn fyrir frumkvöðlastarf sitt á sviði heimilisfræði og matreiðslukennslu og sendi frá sér, líklega einu fyrstu matreiðslubók sem gefin var út á íslensku, Matreiðslubók fyrir fátæka og ríka, árið 1915. Það ár settist önnur merk kona að í Gróðrarstöðinni, Guðrún Þ. Björnsdóttir frá Veðramóti en hún annaðist garðinn og kenndi garðyrkju í Gróðrarstöðinni til ársins 1923, að hún gerðist skólastjóri Kvennaskólans á Blönduósi. Guðrún mun hafa verið fyrsta lærða garðyrkjukonan á Íslandi. Guðrún giftist Sveinbirni Jónssyni byggingameistara, sem löngum var kenndur við Ofnasmiðjuna. Árið 1924 tók Jóna M. Jónsdóttir við umsjónarstarfi garðsins og gegndi hún því í tvo áratugi eða til 1946 (Bjarni og Sigurður 2000:33).

Árið 1916 var Gróðrarstöðin virt til brunabóta og lýst á eftirfarandi hátt: Kjallari var hólfaður í fimm rými tvö að framan (austan) og þrjú að aftan. Á neðri hæð, sem kölluð var „gólf“ voru fjögur herbergi og forstofa, þar af þrjú herbergi „við bakhlið.“ Á efri hæð eða lofti voru alls fjögur herbergi og eldhús, það síðarnefnda „undir bakhlið.“ Á rishæð eða efralofti voru alls þrjú herbergi, tvö norðanmegin og eitt sunnanmegin. Alls voru í húsinu tvær eldavélar og fjórir kolaofnar. Ennfremur „Við bakhlið hússins er skúr er nær upp að veggbrún, í honum er stigi upp á efraloft. Við suðurgafl hússins er aðaltrappa“ (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 1). Mál hússins voru sögð 10x7,8m, hæðin 12,6m og þess getið, að 33 gluggar voru á húsinu. Allt var húsið járnklætt. Hér má sjá mynd af Gróðrarstöðinni sem líklega er tekin skömmu eftir byggingu hússins. (Á Sarpinum segir að myndin sé tekin á bilinu 1925-32 en það stenst tæplega, því eins og sjá má í brunabótamatinu var húsið allt járnklætt árið 1916. Á fyrrnefndu árabili var auk þess vaxinn upp töluverður trjágróður í kringum húsið).

Brjóstmyndir af tveimur forvígismönnum Ræktunarfélags Norðurlands, Páli Briem og Sigurði Sigurðssyni.

Förum nú hratt yfir sögu. Um margra áratuga skeið fóru fram plönturannsóknir og tilraunir í Gróðrarstöðinni, á vegum Ræktunarfélagsins í rúma fjóra áratugi en árið 1947 tók ríkið við umsjón með þeirri starfsemi. Þá var búið í húsinu um áratugaskeið, m.a. var hér íbúð forstöðumanns tilraunastöðvarinnar. Árið 1952 keypti Tilraunaráð ríkisins hins vegar húsið Háteig, næsta hús sunnan við Gróðrarstöðina og varð það íbúðarhús tilraunastjóra. Síðustu áratugi hefur Gróðrarstöðin fyrst og fremst verið skrifstofuhúsnæði. Árið 1974 fluttist tilraunastarfsemin á Möðruvelli í Hörgárdal og eignaðist Akureyrarbær þá húsið. Um árabil, eða til ársins 2001, hýsti húsið Garðyrkjudeild og síðar Umhverfisdeild Akureyrarbæjar. Frá árinu 2005 hefur Gamla Gróðrarstöðin verið aðsetur Akureyrarskrifstofu Skógræktar ríkisins. Þannig er skemmst frá því að segja, að alla þessa öld og tæplega tvo áratugi betur hefur húsið verið aðsetur gróður- og trjáræktartengdrar starfsemi. Húsið hlaut gagngerar endurbætur á vegum Fasteigna Akureyrarbæjar á fyrsta áratug 21. aldar, járn endurnýjað á veggjum og þaki og skipt um fúna viði í burðavirki og nú er húsið allt hið glæstasta og nánast sem nýtt væri.

Gamla Gróðrarstöðin er vitaskuld aldursfriðuð þar eð hún er byggð fyrir 1923 en sögulegt gildi hússins í sögu búnaðar- og trjáræktar hlýtur að vera all verulegt. Gamla Gróðrarstöðin er sérlega skemmtilegt hús, háreist og glæst hús sem nýtur sín vel þrátt fyrir að vera umvafið trjágróðri. Má segja að það að garðurinn og húsið myndi einskonar órofa heild. Gróðrarstöðvarreiturinn er auðvitað mikill unaðsreitur en virðist ekki sérlega fjölsóttur og er þannig einhvers konar leynd, græn perla í sunnanverðum Innbænum. Saga hans spannar 120 ár og er samofin sögu Gróðrarstöðvarinnar. Um Gróðrarstöðvarreitinn, ræktunarstarfsemina og tilraunirnar sem fram fóru í Gróðrarstöðinni á síðustu öld væri hægt að skrifa langan pistil, sjálfsagt þykka bók, en sá sem þetta ritar lætur duga hér, að birta nokkrar svipmyndir úr unaðsreitnum við Gróðrarstöðina.

Myndirnar eru teknar 29. maí 2010, 26. apríl 2020 og 9. september 2023. Þá eru einnig svipmyndir úr trjáskoðunargöngu sem Skógræktin stóð fyrir þann 31. ágúst 2014, undir leiðsögn Bergsveins Þórssonar og Sigurðar Arnarsonar.

Heimildir:

Bjarni Guðleifsson, Sigurður Blöndal. 2000. Gróðrarstöðin á Akureyri. Í Bjarni Guðleifsson (ritstj.) Ásýnd Eyjafjarðar Skógar að fornu og nýju. (bls. 33) Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 303, 2. nóv 1905. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Stefán Stefánsson. 1906. Fundargerð frá Aðalfundi Ræktunarfélags Norðurlands 25.-27. maí 1906. Í Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 3. árg. 1905 (útg. 1906) bls. 3-9. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3111788#page/n5/mode/2up

Stefán Stefánsson. 1907. Fundargjörð frá Aðalfundi Ræktunarfélags Norðurlands 21.-22. júní 1906. Í Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 4. árg. 1906 (útg. 1907) bls. 13-17. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3111905#page/n0/mode/2up

Stefán Stefánsson. 1907. Ræktunarfélagið (Yfirlit). Í Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 4. árg. 1906 (útg. 1907) bls. 3-12. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3111905#page/n0/mode/2up

Steindór Steindórsson 1953. Ræktunarfélag Norðurlands 1903-1953. ÍÍ Ræktunarfélag Norðurlands: Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 2. hefti 49 -50. árg. 1952 (útg. 1953) bls. 3-54. Sótt á timarit.is, slóðin https://timarit.is/page/3115780#page/n0/mode/2up

Ýmislegt af timarit.is og herak.is, sjá tengla í texta. Heimilda sem vísað er í beint (orðrétt) er sérstaklega getið í heimildaskrá.

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30