Fara í efni
Pistlar

Hin séríslenska hlyntegund

TRÉ VIKUNNAR - VII

Einangrun landsins hefur komið í veg fyrir að allskonar trjágróður, sem að jafnaði þrífst við svipuð veðurfarsskilyrði og hér eru, hafi numið hér land. Halda má því fram að sérstæða íslenskrar flóru sé tegundafábreytni og skortur á fjölbreytni. Samt er það svo að víða um heim eru til afskekktar eyjar sem eru umvafðar fjölbreyttum gróðri. Því dugar einangrunin ekki ein og sér til að útskýra þessa tegundafátækt. Ástæða fátæktarinnar er sú að gróðurfarið á Íslandi er mótað af ísöld sem útrýmdi nánast öllum gróðri landsins. Hann hefur því ekki fengið að þroskast og þróast í nema um tíu þúsund ár eða rúmlega það. Suðlægari eyjar þurftu ekki að ganga í gegnum slíkar hörmungar. Sumar þeirra búa því yfir gróðri sem hefur þróast á eigin forsendum í mörg hundruð árþúsund en ekki bara þessi tíu. Slíkar eyjar hafa allskonar gróður sem er einlendur. Það merkir að hann finnst aðeins þar og hvergi annars staðar. Þessi grein fjallar um trjátegund sem var, eða stefndi í þá átt að verða, einlend á Íslandi. Svo kom ísöld og skemmdi allt saman.

Fræ á garðahlyn, Acer pseudoplatanus, í garði í Síðuhverfi í nóvember 2022. Haustvindarnir hafa rifið dálítið í vængina en fræin hanga enn á trénu. Þessi tegund vex villt í Mið-Evrópu. Ljósmynd: Sigurður Arnarson. 

Ísöld

Fyrir ísöld var hér allt annað veður og mun fjölbreyttari flóra en nú er. Áður hefur verið um það fjallað á þessum síðum í fáeinum pistlum og fleiri eru væntanlegir. Í þeim kemur fram að gróður hafði fengið að þróast hér í margar milljónir ára áður en ísöld skall á. Hún er talin hafa hafist fyrir um 2,6 milljónum ára. Hér, í pistli um landnám blæaspa, er aðeins fjallað um gróður á ísöld. Þessi pistill fjallar um birki fyrir ísöld og skyldleika þess við birki sem nú er ræktað í landinu og hér er pistill um gróður fyrir ísöld. Væntanlegir eru pistlar um beyki sem eitt sinn óx á Íslandi og um fenjavið sem nú er löngu horfinn. Ef til vill kemur meira síðar.

Krossanesborgir norðan við Akureyri í desember 2019. Þar má sjá jökulsorfnar klappir eftir ísaldarjöklana. Ljósmynd: Sigurður Arnarson. 

Ísöldin var ekki eitt samfellt kuldaskeið. Þá skiptust á hlýskeið og kuldaskeið. Á hlýskeiðum tókst þeim gróðri sem tórði af kuldaskeiðin að breiðast út en hopaði síðan aftur í næsta kuldaskeiði. Smám saman fækkaði tegundunum en nú er almennt talið að samt sem áður hafi allmargar tegundir lifað af öll kuldaskeiðin. Aðrir telja að allur gróður hafi horfið á ísöld og það jafnvel oftar en einu sinni. Um það má lesa í áðurnefndum pistli um blæaspir. Ein af þeim tegundum sem hvarf á ísöld, eða jafnvel áður en hún skall á, er tré vikunnar: Vænghlynur eða Acer askelssonii.

Plöntusteingervingar úr Surtarbrandsgili við Brjánslæk sem Jóhannes Áskelsson safnaði og greindi. Myndin fengin héðan en hana tók Margrét Hallsdóttir.

Nafnið

Á íslensku heitir þetta horfna tré vænghlynur. Ástæða þess er sú að vængurinn á fræinu er óvenju stór. Reyndar er það svo að samkvæmt grein Friðgeirs Grímssonar og félaga (2005) hefur óvenjumikið fundist af stórvöxnum fræjum og aldinum í setlögum á Vestfjörðum og Vesturlandi frá síðari hluta tertíer. Auk fræja af hlyni hafa stór fræ af vænghnotu og álmi einnig fundist. Þessi tré uxu hér fyrir um 12 til 6 milljón árum. Ef ísöld hefði ekki skollið á verður að telja líklegt að þessi tré væru hér enn. Ef þróunin hefði haldið hér áfram væru þessi tré sennilega hvergi annars staðar í heiminum. Þá hefðum við einlend tré hér á landi.

 

Jóhannes Áskelsson, jarðfræðingur, í vettvangsferð með nemendum sínum. Myndin er fengin héðan en hana tók Sigurður Steinþórsson.

Latínuheitið er Acer askelssonii. Acer er gamalt heiti á ættkvísl hlyntrjáa en seinna nafnið er mjög áhugavert. Askelssonii er til heiðurs hinum virta, norðlenska jarðfræðingi Jóhannesi Áskelssyni (1902-1961). Samkvæmt Wikipediu fæddist hann í Fnjóskadal en foreldrar hans bjuggu lengi á Skuggabjörgum í Dalsmynni. Sérgrein hans innan jarðfræðinnar var einmitt rannsókn steingervinga.

Aldur

Menjar um vænghlyn hafa ekki fundist í elstu setlagasyrpum Íslands. Það þarf þó ekki að merkja að tegundin hafi ekki verið hér til staðar, heldur einfaldlega að engar vísbendingar eru um þessi tré í þeim. Menjar um vænghlyn finnast í fjórum setlagasyrpum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Leifar tegundarinnar eru bæði aldin og laufblöð og eru allalgeng í setlögum frá seinni hluta tertíer. Þær hafa fundist í setlögum sem eru 12–6 milljón ára gömul eða frá seinni hluta míósen, sem er tímabilið fyrir um 24-5,2 milljónum ára. Engin sýni hafa enn fundist frá plíósen tímabilinu sem þá tók við (nánar um þessi tímabil tertíer má lesa hér) og stóð fram að ísöld sem hófst fyrir um 2,6 milljón árum. Það er nokkrum tilviljunum háð hvort menjar um tré varðveitist í jarðlögum. Því vitum við ekki fyrir víst hvort hlynurinn var hér á plíósen og dó út á ísöld, eða hvort hann dó út á plíósen. Myndin hér að neðan sýnir nöfn og aldur þessara jarðlaga.

Smellið hér til að lesa pistilinn í heild.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistill um Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30