Fara í efni
Pistlar

Gráþröstur

TRÉ VIKUNNAR - 142

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Talið er að í heiminum öllum séu til um 90 tegundir þrasta, Turdus spp. Þrjár tegundir þeirra hafa verpt nokkuð reglulega á Íslandi hin síðari ár. Tvær þeirra, skógarþröstur, T. iliacus og svartþröstur, T. merula, teljast til íslenskra fugla enda alveg öruggt að þeir verpa hér á hverju ári. Sú þriðja, gráþrösturinn, T. pilaris, er fyrst og fremst algengur haust- og vetrargestur sem kemur gjarnan í október og nóvember. Flestir fara þrestirnir svo í burtu þegar hinir dæmigerðu farfuglar koma til landsins. Oftast verða sumir eftir sumarlangt og reyna hér varp. Því má segja að gráþrösturinn hafi knúið hér dyra og sé á mörkum þess að setjast hér að. Við vitum ekki fyrir víst hvort komið sé að því að telja megi hann reglulegan varpfugl hér á landi. Sennilega er bara tímaspursmál hvenær við föllumst á að hann tilheyri íslenskum varpfuglum.
 
Gráþröstur er skógarfugl vikunnar.
 
Gráþröstur er tíður vetrargestur á Íslandi. Þegar þessir fuglar komu til landsins er ósennilegt að þeir hafi búist við þessum hvítu móttökum. Á fyrri myndinni lætur fuglinn vængina lafa og er var um sig og tilbúinn til að flýja ef þörf er á. Seinni myndin sýnir mun rólegri fugl. Með því að hnipra sig saman sparast orka sem fer í að halda fuglinum heitum. Myndirnar voru teknar veturinn 2018. Það gerði Elma Benediktsdóttir.

Heimkynni

Gráþröstur verpir í skógum og kjarrlendi í Norður- og Mið-Evrópu og í Asíu. Varp hans hefur einnig verið staðfest í Skotlandi og á Grænlandi að sögn Aðalsteins Arnar Snæþórssonar og Jóns Geirs Péturssonar (1992). Engu að síður telst hann ekki til árlegra varpfugla þar.

Mjög misjafnt er á milli ára hversu mikið berst hingað af gráþresti á haustin. Líklega ráða veður og vindar á fartíma því hvort hann berast hingað yfir höfuð og þá hversu margir fuglar. Má nefna að mjög fáir gráþrestir bárust hingað haustið 2025. Talið er að flestir þrastanna séu farfuglar á leið frá sumarstöðvum sínum á Norðurlöndunum til vetrarstöðva á Bretlandseyjum. Þangað koma þeir ekki tugþúsundum saman til vetrardvalar heldur er fjöldi þeirrar talinn í hundruðum þúsunda. Þegar mest lætur er talið að yfir 600.000 gráþrestir séu á veturna á Bretlandseyjum ef marka má Woodland Trust. Þeir koma ekki aðeins þangað frá Norðurlöndunum heldur einnig frá Rússlandi.
 

Þegar gráþrestir koma til Íslands í flokkum á haustin halda þeir gjarnan til í skógum eins og þeir eiga kyn til en stundum má sjá þá í mólendi þar sem skóga vantar. Yfir veturinn má oftast rekast á gráþresti í trjálundum og görðum víða um land. Auk þess sjást þeir stundum í fjörum.

 
Kort af fuglavefnum sem sýnir hvar helst er að vænta þess að sjá gráþresti á vetrum.
Kort af fuglavefnum sem sýnir hvar helst er að vænta þess að sjá gráþresti á vetrum.
Á meðan ber er að hafa á haustin og fram eftir vetri hafa gráþrestir það gott í skógum og trjáreitum á Íslandi. Með aukinni skóg- og garðrækt aukast líkurnar á að hann setjist hér varanlega að. Hér nælir þröstur sér í ber í Lystigarðinum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.
Á meðan ber er að hafa á haustin og fram eftir vetri hafa gráþrestir það gott í skógum og trjáreitum á Íslandi. Með aukinni skóg- og garðrækt aukast líkurnar á að hann setjist hér varanlega að. Hér nælir þröstur sér í ber í Lystigarðinum. Mynd: Sigurður H. Ringsted.

Á Bretlandseyjum er mikill fjöldi trjáa og runna sem myndar ber. Það eru fyrst og fremst þessi fjölbreyttu ber sem gráþrestir éta yfir veturinn á þeim slóðum. Hér á landi duga berin sjaldnast sem fæða yfir allan veturinn. Þegar þrengist um fæðu og snjór hylur jörð sækir fuglinn í fjörur og tekur þar ýmsar pöddur eða að mannabústöðum þar sem fuglum er gefið. Stórir almenningsgarðar þar sem fæðu er að finna, eins og í Lystigarðinum á Akureyri, verða þá vinsælir. Þar hefur mátt sjá gráþresti á hverjum vetri í allmörg ár. Þar sem þeim er gefið verða þeir heimaríkir og verja svæðið af hörku ef þeir telja sig þurfa þess. Flestir smáfuglar víkja fyrir gráþrestinum en svartþrösturinn gerir það ekki enda eru þeir svipaðir að stærð. Upphefjast þá áflog og læti.

Kort af vef Wikipediu sem sýnir útbreiðslu gráþrasta. Nyrst finnast þeir aðeins á sumrin og verpa þar. Sunnan við Óslóarfjörð og um Mið-Evrópu hafast þeir við allt árið. Þar fyrir sunnan og á Bretlandseyjum, táknað með bláum lit, hafa þeir aðeins vetursetu. Athyglisvert er að sjá að á Bretlandseyjum eru þeir vetrargestir en eins og hér heima eiga stöku pör það til að verpa þar. Svo fáir eru gráþrestirnir á Íslandi að þeir eru ekki merktir inn á kortið. Mynd: Cephas - BirdLife International 2016.
Kort af vef Wikipediu sem sýnir útbreiðslu gráþrasta. Nyrst finnast þeir aðeins á sumrin og verpa þar. Sunnan við Óslóarfjörð og um Mið-Evrópu hafast þeir við allt árið. Þar fyrir sunnan og á Bretlandseyjum, táknað með bláum lit, hafa þeir aðeins vetursetu. Athyglisvert er að sjá að á Bretlandseyjum eru þeir vetrargestir en eins og hér heima eiga stöku pör það til að verpa þar. Svo fáir eru gráþrestirnir á Íslandi að þeir eru ekki merktir inn á kortið. Mynd: Cephas - BirdLife International 2016.

Varpheimkynni tegundarinnar er á breiðu belti frá Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu (Jóhann Óli 2025). Fuglinn verpir einnig í Mið-Evrópu þar sem hann er staðfugl eins og sést á kortinu hér að ofan. Í Skandinavíu er varptíminn frá fyrri hluta maí og fram í júní. Algengt er að hann verpi tvisvar á sumri en eftir því sem norðar dregur aukast líkurnar á að hann verpi aðeins einu sinni á hverju sumri. Hann verpir nær alltaf í trjám eða runnum.

Þegar þessi mynd var tekin, 19. janúar 2023, var enn töluvert af berjum í Lystigarðinum sem þessi þröstur gat étið. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.
Þegar þessi mynd var tekin, 19. janúar 2023, var enn töluvert af berjum í Lystigarðinum sem þessi þröstur gat étið. Mynd: Emma Hulda Steinarsdóttir.

Vist

Kjörlendi gráþrastarins er í fjölbreyttu skóglendi. Hann verpir í greni-, furu-, birki- og elriskógum og í allskonar blandskógum. Sérstaklega ef í skógunum er ríkulegur undirgróður. Oft má finna þröstinn við læki og ár en hann er sjaldnar í þéttum og dimmum skógum. Hann verpir nær alltaf í trjám en á það til að ferðast út fyrir skógana eftir varp. Hér á landi finnur hann stundum æti í fjörum og er þá víðs fjarri skógum. Hann er ákaflega hrifinn af hvers kyns berjum en getur einnig tekið fæðu á jörðu niðri eins og frændi hans skógarþrösturinn (Aðalsteinn og Jón Geir 1992).

 

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Hvenær kemur flugstöðin?

Sverrir Páll skrifar
10. desember 2025 | kl. 17:00

Þannig týnist tíminn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
08. desember 2025 | kl. 10:00

Aðventukvíði í rafmagnaðri jólapeysu

Rakel Hinriksdóttir skrifar
07. desember 2025 | kl. 14:00

Segularmböndin

Jóhann Árelíuz skrifar
07. desember 2025 | kl. 06:00

Helstu elritegundir

Sigurður Arnarson skrifar
03. desember 2025 | kl. 09:30

Veldu þinn takt á aðventunni

Hrafnhildur Reykjalín Vigfúsdóttir skrifar
02. desember 2025 | kl. 06:00