Fara í efni
Pistlar

Gulrótnastuldurinn

EYRARPÚKINN - 58

Á haustin nutum við ávaxta sumarsins sólgnir í gulrætur og jarðarber en jarðarberin jafn sjaldgæf sem eftirsótt og eigendur þeirra vel á verði.
 
Hélst pabba illa á gulrótum sunnan gróðurhúss og jarðarberin hurfu eins og dögg fyrir sólu í rökkrinu og þurfti ekki myrkrið til. Frekar að slík rækt gengi í gróðurhúsinu því þá sáum við Simmi um berin.
 
Annars var öllu grænmeti stolið. Fólk hafði mismikinn vara á sér og fáir freistuðu gæfunnar hjá Ottó brjál eða Helga Steinar. Hver lóð laut sínum lögmálum og gilti að gjörþekkja eðli og venjur garðeiganda en Eyrarpúkar með eina görn hertu hver annan í uppskerunni.
 
Þannig hreinsuðum við gulræturnar úr garði Soffíu og Hreiðars á septemberkvöldi og mátti heyra flugu detta. Hrifsuðum gulræturnar í strigapoka og hvíldum í skjóli girðingar Freyju og Jóhanns og skyldi fengnum skipt bróðurlega.
 
Þá er barið í haus Gulla og sagt titrandi röddu Þarna eruði helvítin, réttast væri að lúberja ukkur! og þar mættur Hreiðar ásamt Júnna Björgvins.
 
Höfðu þeir verið að dunda í bílskúr Hreiðars, slökkt ljósin og fylgdust með okkur taka upp hverja einustu gulrót Soffíu.
 
Urðum við að láta pokana af hendi og máttum þakka fyrir að Hreiðar hringdi ekki í lögregluna.
 
Niðurlægingin svo fullkomnuð daginn eftir þegar við neyddumst á fund Hreiðars í halarófu, tókum í hönd hans og báðumst forláts.
 
Sat lengi í okkur drengjum og fyrirgáfum Hreiðari aldrei.
 

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Gulrótnastuldurinn er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Framhleypnir og digurmæltir

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
27. september 2025 | kl. 06:00

Haust- og vetrarundirbúningur trjáa

Sigurður Arnarson skrifar
24. september 2025 | kl. 07:30

Í beinan kvenlegg

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
22. september 2025 | kl. 12:00

Skólataska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. september 2025 | kl. 11:30

Blómabíllinn, Pissubíllinn

Jóhann Árelíuz skrifar
21. september 2025 | kl. 06:00

Fallegt að fylgja hjartanu

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
20. september 2025 | kl. 06:00