Fara í efni
Pistlar

Gróðurhússbruninn

EYRARPÚKINN - 50

Guð minn góður hrópaði mamma, stendur ekki gróðurhúsið í ljósum logum?
 
Andskotinn sjálfur æpti ég og rauk út.
 
Í sama mund birtust Gummi og Stjáni úr Eyrarvegi 33 á grindverkinu með fötur á lofti, röskleikadrengir og skátar góðir og hurfu í gróðurhúsið að kljást við eldinn en ég á eftir þeim byssubrandur.
 
Vissi uppá mig sökina um orsök eldsvoðans. Hafði fiktað með eldspýtur í gróðurhúsinu þegar mamma skúraði og kveikt í hrossaskít vegna ilms og velgju og migið á glæðurnar áður en ég hvarf aftur á fund mömmu og bónkústsins.
 
Eins gott hann pabbi þinn er ekki heima stundi mamma blessunin, sá hefði tapað sér! Og var ástæða til að fagna fjarveru föður míns þegar uppákomur af þessu tagi áttu sér stað.
 
Þegar bræðurnir höfðu slökkt eldinn og skemmdir virtust litlar tókum við mæðgin upp þráðinn þar sem frá var horfið.
 
Varst þú ekki úti í gróðurhúsi í hádeginu Jói minn? spurði mamma.
 
Eins og mig minni það hélt hún áfram og sötraði kaffið af undirskálinni blessandi Gumma og Stjána fyrir snarræði og guðsmildi að þeir skyldu vera heima drengirnir.
 
Tók ég undir lofið og hét í hljóði að fara varlega með eldfæri framvegis og hafði treyst um of á þvagblöðruna en auðvitað vissi mamma hvurnin í pottinn var búið og þurfti ekki að ræða það þegar hún sveiflaði rýjunni vitnandi í sögu eftir Guðrúnu Lárusdóttur en ég tróð í mig volgri vöfflu með kakói og leið úr versti skjálftinn.
 
Varð þá mömmu aftur litið út um eldhúsgluggann og ekki um að villast, logarnir léku gróðurhúsið gulum tungum og sleiktu rjáfur en við hrópuðum á efra og neðra og gróðurhúsið brennur til kaldra kola!
 
En samir við sig þeir Stjáni og Gummi og nú skarst faðir þeirra laxameistarinn Jóhannes einnig í leikinn og var skvett úr öllum koppum og tókst að ráða niðurlögum eldsins með hjálp garðslöngunnar rauðu og hvurgi sparað vatnið.
 
Hafði glóð leynst í taðköggli og jafnvel dafnað við vætuna og ýmsar getgátur um brunann á lofti. Sór ég sótugur af mér eldsvoðann þó enginn tryði mér og gætti ummerkja á gróðurhúsi æ síðar og var svart loftið og gaflinn vestri víti til varnaðar.
 
Trítlaði ég niðurlútur túnið til móts við hjalla og Kwaifljót.
 
Pabbi kæmi ekki heim frá Nabbna fyrr en í kvöld og vonandi ekki úrvinda.
 
Svalg heilnæmt loft úldinnar skreiðar og hrossahlands.
 
Um stund mátti dreyma aðra og betri heima.
 
Á morgun yrðu svið í matinn og sveskjugrautur með rjómablandi.
 

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Gróðurhússbruninn er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.

Þessi þjóð er á tali

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
02. ágúst 2025 | kl. 06:00

Ótilhlýðileg framkoma í eitruðu starfsumhverfi

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. ágúst 2025 | kl. 09:30

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

Sigurður Arnarson skrifar
30. júlí 2025 | kl. 09:00

Atlavík

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. júlí 2025 | kl. 11:30

Timburmenn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00

Sumarfrí

Jóhann Árelíuz skrifar
27. júlí 2025 | kl. 06:00