Fara í efni
Pistlar

Glæsilegri en Glæsibær

ORRABLÓT - XXV

Ekki get ég með góðri samvisku sagt að verslunarmiðstöðvar hafi leikið stórt hlutverk í mínu lífi fyrstu árin. Ég hafði að vísu komið í Glæsibæ í Reykjavík og fyrir atbeina sjónvarpsins í hinar og þessar miðstöðvar vestur í Bandaríkjunum, en þar kallaðist fyrirbrigðið Mall. Ég kannaðist við Gunna Mall á Akureyri en er samt nokkuð viss um að þetta er ekki nefnt eftir honum; sé Gunna ekki fyrir mér hanga mikið í verslunarmiðstöðvum. En þið?

Enn alla vega. Dag einn eldsnemma í áttunni byrjuðu menn allt í einu að reisa verslunarmiðstöð á Akureyri og það sem meira var, í hlaðvarpanum hjá mér. Nánar tiltekið í Sunnuhlíð. Minnstu munaði að ég gæti teygt mig í ferlíkið af svölunum heima í Smárahlíðinni.

Veggirnir risu einn af öðrum og að því kom að húsið, sem Reynir Adamsson arkitekt teiknaði, varð fokhelt. Það var heldur en ekki veisla fyrir okkur krakkana í hverfinu en fátt jafnaðist á þessum árum við að leika sér í nýbyggingum. Iðulega var auðvelt að komast (lesist: brjótast) þangað inn og við flengdumst milli hæða með atbeina fúinna stiga úr timbri. Allt eðlilegt við það. En svona var bara tíðarandinn. Börn fóru út að morgni og komu heim að kvöldi – og einskis var spurt.

Síðla árs 1982 var verslunarmiðstöðin Sunnuhlíð svo tekin í notkun; mikið var um dýrðir og í minningunni komu mörg þúsund manns þar saman fyrsta daginn. Alla vega hundruð. Ég var með mömmu og pabba og fékk flunkunýtt leikfang í tilefni dagsins í Leikfangalandi, enn einn liðamótakarlinn, frekar en enn eitt settið frá Playmo. Gildir svo sem einu.

Menn voru almennt impóneraðir. „Þetta er það flottasta magasín sem ég hef komið í og hef ég þó víða farið,“ sagði Bergur Lárusson skókaupmaður í samtali við DV sem lét sig ekki vanta frekar en aðrir fjölmiðlar.

Steingrímur Guðjónsson, eldri maður með sixpensara, tók í sama streng: „Ég hef komið í allar helstu verslanir landsins og þetta er sú glæsilegasta – hún er glæsilegri en Glæsibær.“

Í Degi kom fram að íbúar í Glerárhverfi hefðu um langa tíð verið „sveltir“ hvað varðar verslun og þjónustu, en með tilkomu Sunnuhlíðar hefði verið brotið blað.

Það hebbði ég nú haldið. Óhætt er að gera orð Baldvins Stefánssonar, barns með Adidashúfu, að sínum. „Hér er gott að versla, enda fæst allt,“ sagði hann við DV.

Þarna voru frá fyrstu tíð Blómabúðin Laufás, Kaupfélag Eyfirðinga, Búnaðarbankinn, tískubúðirnar Sif (fyrir konur) og Cesar (fyrir táninga), Bókabúðin Huld, Dúkaverksmiðjan, Rafbúðin og Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co og veitingastofa á frábærum stað á efri hæðinni. Svo fátt eitt sé nefnt.

Að ekki sé minnst á Tónabúðina, sem ég verslaði mest við. Pálmi Stefánsson, Finnur Finnsson og Albert Ragnarsson stóðu þar vaktina með sæmd. Ég á ábyggilega eftir að koma meira inn á það við annað tækifæri.

Fljótlega kom líka sportvöruverslun sem bjó að græjum sem þrykkt gátu nöfnum og númerum á keppnistreyjur. Það var ekki lítil bylting. Einu sinni kom ég þar auga á góðan bol en vildi frekar hafa hann síðerma en stutterma. Sú útgáfa var ekki til en afgreiðandinn benti mér á að prófa að synda í bolnum yfir Ermarsund og sjá hvort ekki yxu á hann ermar. Fín hugmynd en ég sá ekki flöt á framkvæmdinni enda slakur sundmaður.

Seinna kom svo hárgreiðslustofa sem hét ábyggilega Samson en það nafn var sótt í sjálfa Biblíuna. Hárskerar eru oftar en ekki háfleygt fólk. Þar lenti ég einu sinni í þeim ósköpum að hárgreiðsludaman gleymdi strípunum allt of lengi í hárinu á mér með þeim afleiðingum að það skaðbrann og hvarf hér um bil af hvirflinum. Sem var vesen í ljósi þess að ég var með hár niður á mitt bak. Hún varð að vonum alveg miður sín en náði að bjarga því sem bjargað varð í nokkrum lotum dagana á eftir. Hárgreiðslan var þó skrýtin fyrst um sinn og gott ef Óttarr Proppé leysti hana ekki til sín síðar.

Margir veltu vöngum yfir þessu og ég var oft spurður að því hvaða efni ég notaði í hárið á mér. Ég leyfði mönnum bara að spekúlera, var ekkert að flýta mér að segja þeim að þetta væru bara brunarústir.

Ég fékk frítt í klippingu og strípur hjá Samson lengi á eftir.

Búandi svo að segja í næsta húsi hékk ég mikið í Sunnuhlíð og við krakkarnir. Ekki síst á veturna þegar svalt var í veðri. Þá sátum við félagarnir stundum daginn út og inn í gluggakistunni við Tónabúðina eða Kaupfélagið og fórum yfir (heims)málin.

Húsvörðurinn hafði ekki alltaf smekk fyrir þessu. Eðlilega, svona eftir á að hyggja. Ekki man ég hvað kappinn hét enda kölluðum við hann aldrei annað en Húsa. Hann var ljúfmenni og seinþreyttur til vandræða og það verður að segjast alveg eins og er að við pönkuðumst stundum aðeins of mikið í honum. Og það gekk svona og svona hjá honum að koma okkur út á stétt. Æ, fyrirgefðu þetta, Húsi minn! Þó seint sé.

Nokkrum árum seinna var ég um borð í flugvél Flugleiða á Heathrow-flugvelli í Lundúnum, þegar flugstjórinn tilkynnti að seinkun yrði á brottför vegna þess að einn farþeginn væri ókominn. Leið nú og beið og um klukkustund síðar valt hann loks um borð. Og hvað haldið þið? Það var þá Húsi, allnokkuð skömmustulegur og löðursveittur. Ekki var það til þess fallið að bæta líðan okkar manns þegar hann kom auga á mig.

Til að bæta gráu ofan á svart var vélin búin að missa flugbrautina sína og þurfti að fara aftast í rásröðina. Það þýddi annan klukkutíma í bið. Og það í 30 stiga hita – það var hitabylgja í heimsborginni. En við komumst heim á endanum, Húsi og ég.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því ég hékk löngum stundum í Sunnuhlíð og nú er þarna varla lengur verslunarmiðstöð, heldur aðallega heilsugæslustöð. Í staðinn höfum við fengið Glerártorg og fyrir sunnan bíða manns alltaf Kringlan og Smáralind. Að ekki sé talað um allar verslunarmiðstöðvarnar sem maður hefur sótt gegnum tíðina í útlöndum.

Engin af þeim nær þó nokkru máli í þessu sambandi – Sunnuhlíð er og verður alltaf verslunarmiðstöðin í mínu lífi. Staðurinn þar sem allt fékkst.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45