Fara í efni
Pistlar

Frystigeymslan

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 31

Það fór um mig unaðshrollur ef afi hafði á orði hvort ég vildi ekki, af öllum mönnum, skottast með honum niður á eyri. Hann ætti erindi í Frystigeymsluna.

En þá var amma búin að færa honum netapoka í hendur, því hann ætti að sækja það nauðsynlegasta, sem allt saman var skrifað á lítið lettersbréf í skyrtuvasa hans, vandlega samanbrotnu, svo hann tapaði ekki skrifelsinu.

Og þetta var alllöng för fyrir okkur langfeðga, bæði ofan eftir og ekki síður tilhugsunin um að halda aftur upp á brekkuna, skreypa jafnvel og viðsjála. En leyndarhjúpur geymslunnar skyggði yfir það allt. Það var ekkert sem komst í hálfkvisti við það að vera að lokum leiddur inn kaldasta og stærsta matarbúr bæjarbúa, þetta eina frystibúr þeirra, þar sem hver og ein fjölskylda geymdi vetrarforða sinn á bak við vel strengt kanínunetið á sérmerktu hólfi, jafnan með hrímugu skráargati, svo það þurfti að þíða upp lásinn með heitum vörunum.

En þetta var vissulega nokkur serímónía, því umleikis tónaði vélavirkið hástöfum og blés út úr sér freranum sem mest það mátti, af því einhver gestkomandi var þess umkominn að opna freðinn helli bæjarins. Og þess þá heldur að herða á frostinu, kváðu mælaborðin upp úr um allan þennan kaldranalega geim.

Í þetta sinn, ef ég man rétt, tók afi út nokkra feita hækla, ásamt magálum, signum fiski og vænni tólg, en þó aðallega litla pokaskjatta sem hver og einn var uppfullur af hrati utan af berjum síðasta hausts. En það var náttúrlega geymt, hýðið, eins og annað matvænt, eftir að sultað hafði verið í krukkur um haustið. Og þvílíkur herramannsmatur sem það var þegar líða fór fram á útmánuðina og skænið af berjum síðasta sumars, bætti bragðið á hafragrauti og skyrhræringi hversdagsmorgnanna – og hamlaði bévítans beinkröminni, blótaði afi.

En slík er minningin. Frystigeymslan á eyrinni var bjargvættur vetrarins.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: STILLANSAR

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Heimsóknir og bæjarferðir

Jóhann Árelíuz skrifar
10. nóvember 2024 | kl. 13:30

Takk elsku kennari!

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 13:15

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30