Fara í efni
Pistlar

Fallegasta sál sem ég hef kynnst

Það þarf reglur og skipulag til að samfélag geti virkað, það er óhjákvæmilegt. En við sem búum í samfélagi erum ólík og við pössum ekki öll inn í þetta fyrirkomulag. Kröfurnar sem samfélagið gerir eru býsna miskunnarlausar og okkur er ætlað að aðlagast kerfinu. Það er mörgum okkar erfitt, ég er einn af þeim.

Mörg okkar sem eiga erfitt með að aðlagast eru send í próf til að finna út hvers vegna við aðlögumst ekki kerfinu. Síðan kemur niðurstaða, eða dómur sem fylgir þér ævilangt. Að vera ólík dugir ekki, það þarf að finna nafn á það svo að kerfið sé sátt.

Það er hægt að meta hæfni einstaklinga á mörgum sviðum, hæfni sem kerfið ætlast til af þér. En svo eru eiginleikar sem ekki er hægt að mæla, eiginleikar sem aðeins er hægt að upplifa í fari hvers og eins. Eiginleikar eins og samkennd, heiðarleiki og góðmennska.

Vinur minn var eins og ég, við uppfylltum ekki allar kröfur. En það sem að hann lagði til var risaskammtur af samkennd, heiðarleiki í sinni tærustu mynd og góðmennska sem að smitaði út frá sér. Hann var þrjátíu árum yngri en ég, ég hitti hann fyrst þegar hann var nýfæddur. Hann horfði á mig sínum stóru fallegu augum sem að strax þá endurspegluðu eitthvað sem að gerði daginn betri við það að vera í návist hans.

Svo liðu árin og kerfið lagði fyrir hann endalausir þrautir, þrautir sem að hann alltaf leysti á sinn hátt. Hann gaf orðinu æðruleysi alveg nýja merkingu.

Eftir framhaldsskóla hóf hann störf á leikskóla. Ég hitti hann einu sinni á leikvelli er hann var þar við vinnu sína. En þó að ég reyndi þá var enginn tími fyrir spjall, börnin voru látlaust að leita til hans. Svo ég steig til hliðar og fylgdist með vini mínum við vinnu sína. Börn skynja góðmennsku og þarna var hann á heimavelli. Hann sá þá sem áttu erfitt og hjálpaði þeim, þau þurftu ekki að leita til hans, hann fann þau. Hann leysti ósætti á svo mjúklegan hátt að allir urðu sáttir. Og þeir sem ekki fengu að vera með í leik tók hann með sér í leik þannig að aðrir vildu vera með.

En sumar þrautir eru erfiðari en aðrar. Hann veiktist, fékk krabbamein. Að fylgjast með barni sínu ganga í gegnum veikindi er öllum foreldrum martröð. Í þessum erfiðleikum var hann hetjan, sá sem huggaði og hughreysti. Þegar ljóst var að baráttan var að tapast voru viðbrögð hans: „Jæja, það er þá bara þannig“ og svo lagði hann í lokaátökin með sama ótrúlega æðruleysi og hann hafði alltaf sýnt.

Á lokastundinni, þegar foreldrar hans héldu í sitthvora hönd hans, nýtti hann síðustu kraftana til að þrýsta hendur þeirra hughreystandi. Svo lagði hann aftur augun í hinsta sinn.

Vinur minn Hörður Þorsteinsson yfirgaf þennan heim 14. september. Hann er fallegasta sál sem ég hef kynnst.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00

Skógar sem vatnsdælur

Sigurður Arnarson skrifar
18. september 2024 | kl. 10:30

Temjum tæknina III: Uppfærð kortasjá og ný heimasíða

Magnús Smári Smárason skrifar
17. september 2024 | kl. 14:15

Skemman

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. september 2024 | kl. 13:00

Víti til varnaðar

Jóhann Árelíuz skrifar
15. september 2024 | kl. 06:00

Hrós

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. september 2024 | kl. 11:00