Fara í efni
Pistlar

Fæðubótarefni eða ást

Ég hef stundum sagt að þegar ég hætti að finna til með syrgjendum sé augljóslega kominn tími á að ég finni mér annað starf en það sem ég sinni nú og heitir að vera prestur, kirkjunnar þjónn. Að sama skapi gæti ég allt eins sagt að um leið ég hætti að hrífast af því undri sem nýfætt barn er og finna til þakklætis og auðmýktar við skírnarathöfn sé líka komið að því að skipta um starfsvettvang.

Sem betur fer finn ég enn til með syrgjendum og verð meyr við skírnarathafnir. Ég viðurkenni alveg að geta stundum orðið þreytt á fermingarfræðslunni og slegist við alvarlega ritstíflu og leiða gagnvart messugjörð, slíkt gengur í bylgjum hjá mér. En ef sorgin og skírnin eru enn eins og ungahreiður í sál minni, veruleiki sem ég virði frá dýpstu hjartarótum, þá er mér sennilega sætt í starfi enn um sinn. Kristin skírnarathöfn er ein fallegasta samkoma sem ég upplifi og sú mikilvægasta. Í skírninni er barn ausið vatni til merkis um að það endurfæðist inn í vonarríka framtíð, við skiljum sem sagt skírnina sem yfirlýsingu um að barninu sé óhætt hér á jörðu vegna þess að sama hvað framtíð ber í skauti sér þá er það elskað svo mikið að það mun með einum eða öðrum hætti ná að rísa upp úr öllum hugsanlegum erfiðum aðstæðum. Það er andlega tryggt af ástinni. Þannig skuldbindur hið kristna samfélag sig til að standa með þessu barni og vísa því veginn að skilyrðislausri elsku Jesú Krists. Þetta hljómar kannski eins og auglýsing um fæðubótaefni sem læknar alla kvilla en það er ekki svo. Barni sem er skírt er ekki lofað lygnum sjó í lífinu, það getur orðið sjúkdómu, slysum og ofbeldi að bráð eða hrasað sjálft um sína eigin breiskleika, það getur misst heilsu, fjölskyldu, vinnu, mannorð, frelsi en skírnin verður aldrei frá því tekin. Yfirlýsingin um að það eigi alltaf rétt á öðru tækifæri og að kirkjan megi aldrei snúa við því baki, jafnvel þótt öll önnur sund lokist.

Að vera viðstaddur skírn, oftsinnis sem prestur er eins og að fá aftur og aftur staðfestingu um að ástin sigri allt, ef maður hættir að hrífast af því, er eitthvað mikið að.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Apótekaralakkrísinn

Jóhann Árelíuz skrifar
08. september 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15

Sjálfbærni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
07. september 2024 | kl. 09:00

Hvað er svona merkilegt við það?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 06:00

Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 22:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30