Fara í efni
Pistlar

„Ertu gjörsamlega orðinn galinn?“

Það bar til um þessar mundir að heim til Akureyrar kom með langferðabifreið Aðalsteinn nokkur Öfgar sem dvalið hafði á Vogi um tveggja vikna skeið. Þar sem um gamlan vin er að ræða bjóst ég til að hitta hann á fleti fyrir í Norðurgötunni og inna almennra tíðinda úr útlegðinni en þótt hann fagnaði komu minni vildi hann fátt segja um dvöl sína eða hvers vegna hann hefði ekki þegið áframhaldandi meðferð á Vík. Þó leyndi hann ekki þeirri áætlun sinni að fylgja þessu spori eftir með reglulegum heimsóknum í göngudeild SÁÁ og taka upp þráðinn með geðlækni sínum. Gat ég ekki annað en glaðst yfir því enda þarf maður stundum að viðurkenna vanmátt sinn, leita hjálpar og taka leiðsögn. Skilst mér.

„Veistu, ég varð eiginlega miður mín þegar ég komst loks í símann og netsamband á leiðinni norður og sá að þú hafðir í fjarveru minni leitað á náðir gervigreindar til að skrifa pistil á akureyri.net. Ertu gjörsamlega orðinn galinn? Maður kyssir ekki á vönd óvinarins, kastar rekunum, kveikir í sprekunum og lætur gömul og góð gildi fuðra upp. Reyndar er ekki til neitt sem heitir gervigreind. Greind er mannleg. Það sem þú varst að gera er að láta mataða tölvukubba raða saman í grein einhverju sem forritið vinsar úr því sem áður hefur verið ritað og rætt.“

Aðalsteinn var orðinn rjóður í framan af æsingi. Hann bauð mér jurtate sem ég þáði eftir að hafa lyft brúnum og bitið í tunguna á mér. Voru birgðirnar af gula Braga kannski á þrotum eða hafði hann líka frelsast frá koffíni? Jæja, kannski var Bragi einhvers konar trigger á alkóhól því Alli hafði svo oft styrkt þetta hland með íslensku brennivíni. Það gat ekki sakað að bergja á jurtaseyði.

Hann fékk sér drjúgan sopa en svelgdist á og frussaði sem sprænandi smástrákur eftir gosdrykkjaþamb. „Sko, ef við látum tölvuforrit skrifa fréttir og pistla, skáldsögur og ljóð, þýða bókmenntir, reikna burðarþol bygginga, búa til fjárhagsáætlun ríkisins, framkvæma skurðaðgerðir með róbótum, blanda lyf, annast kennslu, skeina og skipta á börnum, rugga þeim í svefn, ferma unglinga, gifta pör, jarða okkur og skrifa minningargreinarnar þá erum við fjandakornið orðin svo úrkynjuð og steikt að það hlýtur að vera best að setja upp tærnar.“

„Tja, ég held að uppeldi, kennsla og hvers kyns umönnun verði ávallt í höndum manneskjunnar,“ tautaði ég. „Líka öll sönn sköpun, skáldskapur og tónlist,“ bætti ég við enda átti ég hagsmuna að gæta, kennarinn og skáldið. Ljótt ef maður þyrfti að víkja fyrir maskínum.

Það hnussaði í Alla. „Vertu ekki of viss. Ég veit að í flestum fyrirlestrum um störf framtíðar hefur verið talað um að skapandi störf og kennsla muni halda velli en hafandi búið í samfélagi sem hefur mestan áhuga á því að skerða menntun í sparnaðarskyni fyrir ríkið og blása lífi í glæður einkaframtaksins, ekki bara í sölu áfengis og nikótíns heldur líka í sambandi við fræðslu, menntun, ferðaþjónustu og nánast hvað sem er þá er ég ansi hræddur um að sparnaður og hagræðing verði líka ofan á hjá þér og þínum líkum.“

Hann laut höfði og hélt áfram. „Ég veit að þú hefur orðið þess áskynja eftir að nám í framhaldsskóla var stytt, of mörgum einingum hrúgað inn á skemmri tíma og börnunum kastað á bál tækni og samskiptaleysis á sama tíma og svokallaðir samfélagsmiðlar og gerviþarfir hafa heltekið bæði börn og foreldra þá hefur fjarað mjög hratt undan því sem kalla má mannlegt samfélag. Ég hef sagt það áður og segi það enn, ég bara skil ekki hvernig það getur verið mikilvægara í íslensku samfélagi að einkaðilar fái að selja æsku vorri orkudrykki, nikótín, koffín, áfengi og sykursullumbull og að hver sem er geti helst skattfrjálst haslað sér völl í innflutningi og ferðaþjónustu frekar en að hlúa að börnunum okkar og byggja hér upp mannvænlegt samfélag eða viðhalda því sem áður var komið á góðan rekspöl. Ég er alls ekki alfarið á móti frjálshyggju eða einkaframtaki en þessi fámenna og viðkvæma þjóð þarf leiðandi og verndandi hönd og hæfilegan aga. Frelsi án ábyrgðar og aga er upplausn og tómt tjón fyrir samfélagið – þótt einstaka aðilar geti grætt einhverjar millur. Þeir hinir sömu verða bara að gjöra svo vel að dansa með okkur hinum – eða flytja til Bandaríkjanna.“

Jamm. Aðalsteinn var ekki lengi að tala sig í stuð. Við skulum klippa á þetta núna og taka upp þráðinn síðar. Ég má heldur ekki koma honum í uppnám. Bataferlið er viðkvæmt – eins og þetta brothætta samfélag okkar.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er skáld og íslenskukennari og það má skamma hann eða hvetja til dáða gegnum einkanetfangið stefansaem@outlook.com

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Hinn fágæti rúmenareynir og ný ættkvísl reynitrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
09. október 2024 | kl. 12:00